Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 15:44:29 (9013)

2004-05-26 15:44:29# 130. lþ. 127.13 fundur 341. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (tryggingaráð, skipulag TR o.fl.) frv. 91/2004, Frsm. 1. minni hluta JGunn
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Jón Gunnarsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Segja má að í nefndinni hafi ekki verið mikill ágreiningur um þau málefni sem fram koma í frv. og lengi vel leit út fyrir að við sem skipum 1. minni hluta yrðum á meirihlutaálitinu, þó með fyrirvara vegna þess að við ræddum þar einmitt hugmyndir sem ekki fengust inn í nefndarálit meiri hlutans en endaði þannig að við erum með sérálit og brtt. við brtt. meiri hlutans. Ég ætla að renna yfir og lesa nefndarálit 1. minni hluta, með leyfi forseta:

[15:45]

Fyrsti minni hluti telur nauðsynlegt að taka ákvörðun um framtíðarhlutverk tryggingaráðs. Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt hefur tryggingaráð varla nokkurt hlutverk lengur án þess þó að ráðið hafi formlega verið lagt niður.

Tryggingaráð hafði veigamikið hlutverk á meðan það setti reglur um ýmsar bætur almannatrygginga en hafði jafnframt úrskurðarvald um afgreiðslu Tryggingastofnunar á erindum. Hugmyndir um nauðsyn á aðskilnaði milli þeirra sem reglurnar settu og þeirra sem úrskurðuðu um réttmæti afgreiðslu samkvæmt sömu reglum leiddu til þess að sérstök úrskurðarnefnd almannatrygginga fékk úrskurðarhlutverkið.

Nú er lagt til að heimildir tryggingaráðs til að setja reglur um ýmsar bætur falli endanlega niður og í staðinn setji ráðherra reglugerðir. Hér er um eðlilega breytingu að ræða en þó verður jafnframt að telja eðlilegt að tryggingaráð eða stjórn stofnunarinnar, sem sett verður á laggirnar ef breytingartillögur meiri hlutans ná fram að ganga, muni m.a. hafa það hlutverk að leggja til við ráðherra nauðsynlegar reglugerðarsetningar eða breytingar þótt endanlegt vald verði að sjálfsögðu í höndum ráðherra.

Tryggingastofnun er ákaflega stór ríkisstofnun hvort sem horft er til starfsmannafjölda eða veltu. Sömuleiðis gegnir Tryggingastofnun lykilhlutverki í velferðarkerfi þjóðarinnar. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að tryggingaráð starfi áfram, en hlutverk ráðsins er engan veginn skýrt og það orðalag 6. gr. almannatryggingalaga, að ráðið skuli hafa eftirlit með fjárhag, rekstri og starfsemi stofnunarinnar, er óljóst.

Fyrsti minni hluti telur nauðsynlegt að stofnun sem hefur það umfang sem Tryggingastofnun hefur heyri undir stjórn með skýrar starfsreglur, eins og meiri hlutinn leggur til, þannig að enginn velkist í vafa um vald- og verksvið hennar.

Fyrsti minni hluti tekur að mestu undir hugmyndir meiri hlutans um skipan stjórnar en telur þó nauðsynlegt að opnað verði á hugmyndir, sem áður hafa komið fram hjá þingmönnum Samfylkingarinnar, um að þeir sem þjónustu Tryggingastofnunar njóta og starfsmenn hennar hafi áheyrnarfulltrúa í stjórninni. Lagt er til að Öryrkjabandalag Íslands og Landssamband eldri borgara tilnefni einn fulltrúa hvort til tveggja ára með málfrelsi og tillögurétt. Starfsmenn stofnunarinnar tilnefni einnig einn áheyrnarfulltrúa. Með því yrðu boðleiðir styttar milli stjórnar annars vegar og notenda þjónustu og starfsmanna hins vegar.

Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir álit 1. minni hluta rita sá sem hér stendur, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson og Brynja Magnúsdóttir.

Brtt. sem nefndar eru í minnihlutaálitinu eru tvær. Annars vegar eru það hugmyndir sem þingmenn Samf. hafa flutt á undanförnum þingum um að þeir sem þjónustu Tryggingastofnunar njóta, þ.e. eldri borgarar og öryrkjar, fengju áheyrnarfulltrúa inn í það sem áður var tryggingaráð en verður nú stjórn ef þetta frv. nær fram að ganga. Brtt. okkar hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Við 2. tölul. Á eftir 2. efnismálsl. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Landssamband eldri borgara og Öryrkjabandalag Íslands tilnefna hvort um sig einn áheyrnarfulltrúa til tveggja ára í senn með málfrelsi og tillögurétt. Starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins eða samtök þeirra tilnefna einnig einn áheyrnarfulltrúa með sömu réttindi.

2. Við 9. tölul. 2. efnismgr. orðist svo:

Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laganna skal skipa stjórn Tryggingastofnunar ríkisins í fyrsta sinn 1. janúar 2005. Fram að þeim tíma skal umboð tryggingaráðs sem nú situr halda gildi sínu. Ráðherra skal jafnframt setja núverandi forstjóra erindisbréf, sbr. 6. gr. laganna, ekki síðar en 1. janúar 2005.

Í meirihlutaálitinu sem lesið var áðan og brtt. meiri hlutans er talað um að ný stjórn Tryggingastofnunar taki við því hlutverki þann 1. júlí og jafnframt að núverandi forstjóra yrði sett erindisbréf ekki síðar en 1. júlí. Það er álit okkar í 1. minni hlutanum að um of skamman tíma sé að ræða vegna þess að nú er maí að mestu liðinn og einungis um að ræða einn mánuð til að undirbúa þessar breytingar sem eru talsverðar, þ.e. að breyta hlutverki forstjóra Tryggingastofnunar talsvert frá því sem nú er og einnig að setja Tryggingastofnun nýja stjórn með nýtt hlutverk, einungis með eins mánaðar fyrirvara. Við teljum það affarasælla að gefa sumarið og næsta haust til að setja slíkar reglur og eins til að setja forstjóranum erindisbréf þannig að sú skipan komist á 1. janúar 2005 en ekki núna einungis eftir rétt tæpan mánuð.

Eins og fram kom í upphafi máls míns erum við að mestu leyti sammála því sem fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans. Hér er að mörgu leyti verið að nútímavæða stjórn Tryggingastofnunar. Tryggingaráð, sem sæti áfram ef frv. yrði óbreytt, hefði í sjálfu sér ekki neitt skilgreint hlutverk, þ.e. hlutverkið er skilgreint á þann hátt að það hefur verið mjög óljóst hvað tryggingaráð ætti að gera. Tryggingastofnun eins og við öll vitum er stofnun sem hefur fjölda starfsmanna. Rekstur stofnunarinnar kostar talsverða fjármuni og miklir ríkisfjármunir velta í gegnum stofnunina frá ríkissjóði til þeirra viðskiptavina sem eiga rétt á greiðslum í gegnum Tryggingastofnun. Við sem skoðuðum þetta í einhverri alvöru sáum fram á að ekki væri vit í öðru en að setja skýrari reglur um stjórn Tryggingastofnunar og kalla hana stjórn þannig að hún hefði í raun sömu verkefni og stjórnir yfirleitt hafa.

Talsvert var rætt um hver ætti að ráða eða skipa forstjóra Tryggingastofnunar. Enginn ágreiningur var um það að sjálfsögðu að þetta breytti engu um skipan núverandi forstjóra en í framtíðinni þegar kemur að því að ráða eða skipa nýjan forstjóra veltu menn því talsvert fyrir sér hvernig með ætti að fara og voru tvö sjónarmið aðallega uppi, annars vegar að ráðherra mundi skipa forstjóra að fenginni tillögu stjórnar Tryggingastofnunar eða þar sem um stjórn væri að ræða væri eðlilegast að stjórnin auglýsti eftir forstjóra og stjórnin réði síðan forstjóra en ekki ráðherra. Eftir að hafa farið yfir þetta í nefndinni má segja að flestir nefndarmenn hafi endað á þeirri skoðun að þar sem stofnunin heyrir undir heilbrrh. og er á ábyrgð hans væri það eðlilegt að ráðherra skipaði forstjórann en það væri jafneðlilegt að stjórn stofnunarinnar færi yfir og legði til við ráðherra hvaða kandídat hún a.m.k. mælti með í stól forstjóra.

Við teljum einnig að það sé til að styrkja stofnunina að hún hafi stjórn milli forstjóra og ráðherra. Það er ansi mikil breyting ef tryggingaráð hefði verið lagt niður eins og kannski voru hugmyndir um á fyrri stigum. Það hefði verið ansi mikil breyting að leggja tryggingaráð niður og forstjóri milliliðalaust heyrði undir heilbrrh. Við þekkjum þetta úr litlum stofnunum úti á landi þar sem stjórnir heilbrigðisstofnana voru lagðar niður í stórum stíl og forstöðumenn eða framkvæmdastjórar heilbrigðisstofnana heyra undir ráðherra en enga stjórn sem slíka. Það er a.m.k. mín skoðun að þessi breyting hafi ekki verið til góðs og þýði einfaldlega það að framkvæmdastjórar eða forstöðumenn þessara heilbrigðisstofnana úti á landi hafi ekki lengur þann stuðning og styrk sem þeir höfðu með því að hafa stjórn sem bæði var skipuð fulltrúum ráðherra og heimamanna.

Í sambandi við skipun stjórnarinnar kemur fram að hún á að sinna hefðbundnum verkefnum stjórna. Hún á að vera æðsta vald innan stofnunar og hafa æðsta vald um rekstur og skipulag. Lagt er til að hún staðfesti skipulag stofnunarinnar og geri árlega starfsáætlun og fjárhagsáætlun eins og stjórnir í fyrirtækjum gera. Einnig er lagt til að stjórnin hafi eftirlit með starfsemi Tryggingastofnunar og að reksturinn sé innan ramma fjárlaga á hverjum tíma. Talsverðar umræður urðu um þetta vegna þess að allir vita að Tryggingastofnun er stofnun sem í gegn velta miklir fjármunir sem erfitt er oft og tíðum að áætla í fjárlögum þar sem um lögbundinn rétt viðskiptavina er að ræða til greiðslna og ekki auðvelt fyrir fram að setja niður áætlun um þær greiðslur og lít ég þannig á að hér séum við að tala um rekstur stofnunarinnar sjálfrar en ekki þær gegnumstreymisgreiðslur sem í gegnum hana fara til skjólstæðinga eða viðskiptavina.

Einnig er lagt til í frv. að svokölluð siglinganefnd yrði lögð niður. Niðurstaða meiri hlutans og okkar í 1. minni hluta líka varð sú að það væri ekki til bóta að leggja siglinganefndina niður. Hún hefði sinnt hlutverki sínu vel og engin ástæða væri til að breyta því jafnvel þótt við værum í brtt. og frv., meira og minna að færa stjórnunarhætti til þess að þetta heyrði meira beint undir stjórnendur í Tryggingastofnun en ekki nefndir hér og þar. Við teljum að siglinganefnd eigi að starfa áfram og ég tek undir þau orð frsm. meiri hlutans um að rétt sé að benda Tryggingastofnun á að það séu til kvensérgreinalæknar ekki síður en karlsérgreinalæknar og að í fimm manna nefnd væri að sjálsögðu ekki óeðlilegt að við sæjum einhvern annan svip en eingöngu karla.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta. Eins og heyra má er ekki mikill ágreiningur um þetta. Ég vona að tillögur okkar um áheyrnarfulltrúa þeirra sem mest eiga undir starfsemi umræddrar stofnunar nái fram að ganga. Hingað til hefur ekki verið hljómgrunnur fyrir því vegna þess að tryggingaráð ákvað á sínum tíma ýmsar reglur um greiðslur og slíkt til þessara hópa og það sjónarmið var uppi að óeðlilegt væri að þeir hópar ættu inni fulltrúa sem tækju þátt í slíku. En með þessu frv. er verið að leggja það af. Tryggingaráð eða stjórn Tryggingastofnunar mun ekki vera beint í reglusetningu. Þó hún hafi ráðgjafarvald til ráðherra þá mun ráðherra setja reglugerðir. Þess vegna er sá þröskuldur fallinn að ekki sé hægt að veita fulltrúum frá Öryrkjabandalaginu og Landssambandi eldri borgara seturétt við borðið. Þegar tryggingaráð hefur verið að funda hingað til hafa yfirmenn og starfsmenn deilda tekið þátt í þeim fundum með tryggingaráði þannig að mjög gott samband hefur verið milli tryggingaráðs og starfsmanna ekki síður en forstjóra. En með því að Tryggingastofnun sé sett stjórn hafa starfsmenn enga aðkomu að því borði lengur og því erum við með tillögu um að starfsmenn hafi þarna rétt til þess að skipa fulltrúa frá Landssambandi eldri borgara og Öryrkjabandalaginu.

Það vekur kannski athygli að við tölum um að þeir fulltrúar verði skipaðir í tvö ár en ekki fjögur eins og skipunartími stjórnar. Það er kannski í og með til að gefa möguleika á róteringu ef um það er að ræða hjá Landssambandi eldri borgara og Öryrkjabandalaginu og starfsmönnum. Það á svo eftir að koma í ljós hvernig tekið verður í þær brtt. en eins og ég lýsti áðan styðjum við í raun brtt. meiri hlutans en gerum brtt. við þær brtt. Enn og aftur lýsi ég þeirri von minni að þær tillögur nái fram að ganga.