Lokafjárlög 2001

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 18:42:54 (9025)

2004-05-26 18:42:54# 130. lþ. 127.26 fundur 653. mál: #A lokafjárlög 2001# frv. 101/2004, Frsm. 2. minni hluta JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[18:42]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Hér eru til umræðu lokafjárlög fyrir árið 2001 ásamt brtt. sem hv. formaður fjárln. Magnús Stefánsson leggur fram fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar. Eins og hv. þm. gerði grein fyrir lýtur brtt. að því að árétta athugasemdir Ríkisendurskoðunar um að ekki beri saman ríkisreikningi fyrir árið 2001 og niðurstöðutölum á lokafjárlögum árið 2001. Samkvæmt fjárreiðulögum á þessu að bera saman.

Ég vísa til ræðu minnar um lokafjárlög fyrir árið 2000. Fjmrn. er tvímælalaust að fara á svig við fjárreiðulög og er þá vægt til orða tekið. Ítrekað hefur verið fundið að þessum vinnubrögðum fjmrn. sem ber ábyrgð á vinnunni. Bæði fjárln. og Ríkisendurskoðun hafa ítrekað óskað eftir því að fjmrn. taki upp önnur og betri vinnubrögð, og að tilmælum og athugasemdum sem bæði fjárln. og ríkisendurskoðandi gera við vinnubrögð í ráðuneytinu verði sýnd virðing og farið eftir þeim.

Segja má að vilji fjárln. til að koma þessum málum á betri grundvöll sé jafneindreginn eins og úrbótaviljinn virðist vera lítill hjá fjmrn. Við erum að fjalla um lokafjárlög fyrir árið 2001 þremur árum eftir að stofnað var til ríkisútgjaldanna. Ríkisreikningur fyrir árið 2001 hefur þegar verið lagður fram þannig að búið er að tilkynna um fjárveitingarnar. Hér er því í rauninni lagt frv. fyrir þingið til að afgreiða löngu orðna hluti.