Tónlistarsjóður

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 20:27:52 (9034)

2004-05-26 20:27:52# 130. lþ. 127.29 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[20:27]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég tel að hér sé um gott mál að ræða og því beri að fagna. Sérstaklega þarf að huga að því hvernig á að tryggja útrás íslenskrar tónlistar og þá verður kannski ekki að hafa þá sérstaklega í huga sem hafa gert garðinn frægan heldur hvernig við eigum að fá fleiri fram á völlinn. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af hljómsveitum og tónlistarmönnum eins og Björk, Sigurrós og Hilmari Erni Hilmarssyni. Þau hafa tryggt sinn sess en við þurfum að fá fleiri fram og við þurfum þá að skoða hvernig aðrar þjóðir, t.d. Svíar, hafa náð árangri á þessu sviði.

Hér hefur verið til umræðu og mikið gagnrýnt hvernig menn ætla sér að skipa sjóðstjórnina. Ég tel að þessi gagnrýni eigi vissulega rétt á sér, menn eigi að skoða hvernig menn ná árangri en ekki fara í pólitískan meirihlutaleik við skipan á svona sjóði. Ég átta mig eiginlega ekki á hvað menn eru að fara, sérstaklega þegar fram hefur komið að hæstv. menntmrh. á síðasta orðið.

Það sem ég ætlaði að gera að umtalsefni og minna á er að kannski er ekki nóg að búa til sjóðinn og fara í þessa vinnu heldur eigi menn að skoða og hugsa um hvernig árangur næst með svona sjóði. Þá væri ágætt að hafa pólitíska nefnd þegar hugsað er um hvernig árangur starfsins verður metinn. Þegar svona sjóður er búinn til er ákveðin hætta á að talsvert fari í sjálft sig og ekki sé endilega hugsað um að koma fleirum á framfæri og hugsað um sprota heldur fari féð jafnvel í að verðlauna þá sem hafa náð ákveðinni frægð og fótfestu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að skoða hvernig t.d. Iðntæknistofnun hefur metið verkefni sín. Ég hef heyrt af því að þar telji menn sig hafa gott kerfi og ég hefði talið að pólitískir kraftar hæstv. ráðherra ættu einmitt að fara í þá vinnu að meta árangurinn en ekki það að pólitískir fulltrúar meti hvort þessi eða hinn listamaðurinn eigi að fá þessa upphæðina eða hina.

Eins og áður segir held ég að aðalatriðið sé að starfið sé markvisst og menn hugi að því að fá fleiri tónlistarmenn fram á völlinn og meti árangur starfsins. Eins er ótrúlegt að verða vitni að því að menn sjá ekki fyrir sér aukin fjárútlát, ég held að þau séu óhjákvæmileg ef stofnaður er nýr sjóður og ætlunin er að ná árangri. Þá ætla menn líklega að fá peningana til baka að einhverju marki og einhverju hlýtur að þurfa að kosta til ef árangur á að að nást, t.d. í markaðssetningu tónlistar á erlendri grund. Ef menn fara af stað með það markmið hlýtur það að kosta eitthvað og menn hljóta að ætla sér að gera betur. Þess vegna ætti að vera sjálfgefið að hærri upphæðir fari til verkefnisins.

Að öðru leyti tel ég að málið sé gott og við eigum að reyna að standa saman um það.