Réttarstaða íslenskrar tungu

Miðvikudaginn 26. maí 2004, kl. 20:45:56 (9038)

2004-05-26 20:45:56# 130. lþ. 127.30 fundur 387. mál: #A réttarstaða íslenskrar tungu# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[20:45]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég skil eiginlega ekkert í því að stjórnarliðar hér á þingi skuli ekki berjast oftar fyrir því að tillögur frá stjórnarandstæðingum nái fram að ganga. Slíkar eru hamingjuóskirnar sem hér rignir yfir formann og varaformann menntmn. og vantar ekkert upp á annað en við færum þeim hreinlega blóm fyrir að þessi eina stjórnarandstöðutillaga skyldi komast út úr nefndinni.

Ég ætla svo sem að taka undir þessar þakkir, það er engin ástæða til annars, og hvet stjórnarliða til að skoða að stjórnarandstaðan er oft með ágætar hugmyndir sem gætu virkilega gagnast samfélaginu. Hér tel ég vera eina af þessum tillögum sem eru gulls ígildi. Það er sannarlega alvöru þörf á því að skoða réttarstöðu íslenskrar tungu og ekki hvað síst vegna þess sem hefur komið fram í máli þingmanna sem hafa talað á undan mér um stöðu táknmálsins sem móðurmáls heyrnarlausra. Okkur er auðvitað öllum í fersku minni skörulegur málflutningur hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur, þingmanns Frjálslynda flokksins, sem færði inn ferska vinda í upphafi þingsins, flutti öflug þingmál með virkilega fínum rökstuðningi sem hreyfði við okkur og náði til okkar allra. Eins og hv. þm. Mörður Árnason hefur vikið að í fínu máli varðandi þetta er þessi tillaga kannski einmitt forsenda þess að réttarstaða íslenska táknmálsins verði viðurkennd. Kannski þurfum við fyrst að skoða réttarstöðu þjóðtungunnar, íslenskunnar, og í beinu eða eðlilegu framhaldi kemur þá móðurmál heyrnarlausra Íslendinga. Ég tel mig ekki þurfa að bæta neinu við efnislega öðru en hvatningu minni til stjórnarliða um að taka alvarlega til umhugsunar hvort ekki sé þess virði að samþykkja fleiri tillögur sem eiga rætur að rekja til stjórnarandstæðinga.