Ábúðarlög

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 14:22:23 (9384)

2004-05-28 14:22:23# 130. lþ. 130.8 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv. 80/2004, JBjarn (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með frv. að nýjum ábúðarlögum er réttur ábúaenda og leiguliða skertur frá því sem verið hefur en réttur jarðeigenda styrktur. Þetta er grundvallarbreyting frá því sem gilt hefur um langt árabil um réttindi og skyldur í samskiptum leigusala og leiguliða á jörðum. Með frv. skapast ótryggt ástand fyrir leiguliða. Það setur hann í veikari stöðu við búrekstur, skerðir lánshæfi hans og lánstraust til framkvæmda á jörðinni. Réttur landeigenda til að skipta út landspildum úr leigujörð er allt of sterkur. Leiguliðum er gert nánast ómögulegt að breyta búskaparháttum, t.d. að taka upp skógrækt, vegna ákvæða um sterka stöðu jarðareiganda og réttar hans til eignar á virðisauka skógarins.

Ég hef skilað sérstöku áliti með frv. til jarðalaga sem verður tekið fyrir á eftir og vísa að öðru leyti til efnisatriða þar.

Meiri hluti landbn. leggur til umfangsmiklar breytingar á frv. til ábúðarlaga en minni hlutinn bendir á að þessi frumvörp, bæði frv. til ábúðarlaga og frv. til jarðalaga, hafa verið skamman tíma til umræðu í landbn. Áhrif þeirra breytinga sem frumvörpin geta haft í för með sér hafa ekki verið könnuð til hlítar og ekki hefur verið tekið tillit til athugasemda umsagnaraðila, þar á meðal Bændasamtakanna, þjóðkirkjunnar og margra sveitarfélaga í veigamiklum atriðum. Á grundvelli þess leggur minni hlutinn til að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar og það unnið betur og lagt fyrir næsta þing til meðferðar. Það liggur ekkert sérstaklega á að keyra þessa endurskoðun í gegn. Þeim mun mikilvægara er að sú endurskoðun sé vönduð og því legg ég til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og það unnið betur fyrir næsta þing.

Frú forseti. Verði þessi frávísun mín ekki samþykkt, verði hún felld, munu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sitja hjá við þær tillögur sem frv. hefur að geyma.