Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 16:26:05 (9414)

2004-05-28 16:26:05# 130. lþ. 131.4 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Þetta frv. snýst m.a. um að íslenskum skipum verði heimilt að landa afla úr stofnum sem halda sig að hluta í efnahagslögsögu Íslands erlendis. Í texta frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

,,... enda sé eftirlit með löndun afla og vigtun hans talið fullnægjandi.``

Við 1. umr. kom upp úr kafinu, ef svo má segja, að íslensk skip hafa landað töluvert miklu af afla erlendis á undanförnum árum. Þar er einkum um síld að ræða. Frá árinu 2000 hafa íslensk skip landað þúsundum tonna af frosinni síld í höfnum í Norður-Noregi. Það er einkum síld sem hefur verið flökuð um borð í skipunum. Mér skilst að þar séu um 140 þús. tonn þegar allt er tekið saman. Hér hafa sem sagt verulegar landanir átt sér stað og ef maður skoðar lögin um umgengni um nytjastofna sjávar frá árinu 1996 er 5. gr. þeirra laga svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Öllum afla, sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn. Ráðherra getur með reglugerð heimilað að ísfiski sé landað í erlendum höfnum, enda sé hann seldur á opinberum fiskmörkuðum þar sem vigtunaraðferðir og eftirlit er viðurkennt af Fiskistofu. Þá getur ráðherra heimilað með reglugerð að bræðslufiski sé landað í fiskimjölsverksmiðjur erlendis, enda sé eftirlit með löndun og vigtun afla talið fullnægjandi. Þegar sérstaklega stendur á, t.d. vegna alvarlegrar vélarbilunar, getur Fiskistofa heimilað að skip sem vinna afla um borð landi erlendis. Skal slíkt leyfi bundið því skilyrði að útgerð skipsins greiði kostnað vegna ferðar eftirlitsmanns til að fylgjast með löndun úr skipinu erlendis eða kostnað vegna annarra sambærilegra eftirlitsaðgerða sem Fiskistofa telur nauðsynlegar.``

Þessi lagatexti er mjög skýr, hæstv. forseti. Aflanum skal landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn. Í lögunum hefur þetta staðið mjög skýrt, allar götur frá árinu 1996 og eflaust lengur. Þessi lög eru svo ströng að það er sérstaklega kveðið á um að ef skip bilar og neyðist til að landa erlendis þá sé hægt að senda eftirlitsmenn til útlanda til að fylgjast með löndun úr skipinu á kostnað útgerðarinnar. Þetta hefur verið þverbrotið öll þessi ár, allar götur frá árinu 2000. Það hlýtur að hafa gerst með vitund og vilja sjávarútvegsráðuneytisins sem hefur samþykkt þessar landanir. Við höfum meira að segja dæmi um að menn hafi verið að ferma fisk úr vinnsluskipum, fiskiskipum, yfir í flutningaskip úti á rúmsjó. Þetta hefur verið í fréttum á Íslandi. Við vitum ekkert hvert þau hafa siglt. Við vitum ekki hvernig eftirliti hefur verið háttað með umskipunum úti á rúmsjó. Þetta gerðist í fyrrasumar, vegna þess að Norðmenn voru búnir að setja löndunarbann á okkur Íslendinga og eitt af skipum Samherja og kannski fleiri. Þau gerðu þetta með þeim hætti að Samherji leigði flutningaskip, sendi það norður í höf, aflanum var skipað á milli. Síðan var siglt með hann eitthvað út í heim og enginn veit hvert hann fór.

[16:30]

Við höfum dæmi um það að haustið 2002 sökk flutningaskip sem Samherji var með á leigu, með þúsund tonn af frystum fiski. Það var Guðrún Gísladóttir KE sem sökk við Lófóten í Norður-Noregi, hún var á landleið til að landa frosinni síld þegar þetta gerðist. Sá síldarfarmur er enn í skipinu sem ekki næst upp. Þannig að það er engum vafa undirorpið að sjávarútvegsráðuneytið og þar með hæstv. sjútvrh. hljóta að hafa vitað af þessum lögbrotum. Við hér á hinu háa Alþingi verðum að fá skýringar á þessu.

Á fund sjútvn., þar sem ég á sæti, þar kom embættismaður ráðuneytisins, Jón B. Jónasson, til að skýra afstöðu ráðuneytisins til frumvarpsins sem liggur hér. Hann gat ekki svarað spurningum um þessar landanir skýrt og skilmerkilega en viðurkenndi þó að þetta væri kannski á gráu svæði. En, hæstv. forseti, þetta er ekki á gráu svæði. Þetta eru lögbrot, klár lögbrot. Það eru einu sinni lög í þessu landi. Það hlýtur að vera mjög alvarlegt ef framkvæmdarvaldið, í þessu tilfelli sjútvrn., viðurkennir það að menn megi brjóta lögin. Maður hlýtur að spyrja sig að því: Hvers vegna í ósköpunum er ekki búið að leggja þetta frumvarp fram fyrir nokkrum árum síðan? Ég tek það skýrt fram að við í Frjálslynda flokknum höfum ekkert á móti því að menn landi afla sínum erlendis ef það hentar svo. Það er allt í lagi, en þá verður að tryggja það að lögum sé framfylgt, að sé farið eftir reglum og það sé eftirlit og að jafnræði sé látið gilda í þessu eins og öðru. Allir eiga að vera jafnir fyrir lögum, hæstv. forseti.

Enn og aftur þá ítreka ég það að þetta er mjög alvarlegt mál. Ég óskaði eftir því að fulltrúi Fiskistofu kæmi á fund sjútvn. Formaður sjútvn., hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, tjáði mér að hann gæti ekki eða þeir gætu ekki mætt, en mundu í staðinn senda okkur minnisblað með upplýsingum, svörum við spurningum sem ég lagði fyrir eða vildi fá svör við. Við fengum síðan þetta svokallaða minnisblað sem ekki kom frá Fiskistofu heldur frá sjávarútvegsráðuneytinu og þar voru gersamlega ófullnægjandi upplýsingar. Við fengum jú löndunartölur, en síðan mjög ófullnægjandi upplýsingar um það t.d. hvernig eftirliti væri háttað með þessum löndunum, einhverjar óljósar yfirlýsingar um það að norsku síldarsölusamtökin, Norges sildesalgslag, hefðu eftirlit með þessum löndunum. Við það var látið sitja. Við vitum ekkert um eftirlit með síld sem hefur verið landað á milli skipa úti á rúmsjó.

Þetta eru gersamlega ófullnægjandi upplýsingar og mjög ámælisvert að við í sjútvn. skulum ekki hafa fengið á fund okkar fulltrúa sjávarútvegsráðuneytisins, fulltrúa Fiskistofu, til þess að útskýra fyrir okkur og fullvissa okkur um að þetta væri gert með fullnægjandi hætti. Enn og aftur: Við höfum ekkert á móti því að menn landi erlendis, en við viljum fá fullvissu fyrir því að hér sé jafnræðis gætt og hér sé eftirlit með fullnægjandi hætti.

Annað sem ég vil fá að nefna, hæstv. forseti, ég nefndi það hér áðan og hef ítrekað sagt: Jafnræði, orðið jafnræði. Menn eru ekki jafnir fyrir lögum þegar fiskveiðistjórnun er annars vegar hér á Íslandi. Það hefur margoft sýnt sig. Við höfum dæmi frá því í vetur þegar kom í ljós að Þorsteinn EA, eitt af þessum skipum, var staðið að brottkasti af norsku strandgæslunni í fyrrasumar fyrir rétt tæpu ári síðan. Þetta var filmað. Sannanirnar voru augljósar. Skipstjórinn skrifaði meira að segja undir að þetta skip hefði stundað vélvætt brottkast á síld og hent allri síld undir 32 sm fyrir borð. Skipið og útgerðin komust upp með þetta. Sjútvrh. hyggst ekki fylgja þessu máli eftir, þó utanrrn. hafi svarað því til að þetta skip heyri skýlaust undir íslenska löggjöf. Þetta er íslenskt skip, undir íslenskum fána, með íslenskri áhöfn og er að veiða úr kvótaúthlutun frá íslenskum stjórnvöldum. Þrátt fyrir það eru þessir menn látnir sleppa. Þeir fá að haga sér með þessum hætti við veiðar sínar, gersamlega forkastanlegum hætti, og síðan virðast þeir landa síld baki brotnu í erlendum höfnum eða úti á rúmsjó án þess að nokkurt eftirlit sé fyrir hendi. Við höfum enga tryggingu fyrir því að eftirlit sé fyrir hendi og það er mjög, mjög gagnrýnivert og stjórnvöld verða að taka sig á í þessum málum. Það er ekki hægt að refsa einum eins og gerðist í gær þegar skipstjóri eins skips var dæmdur í sekt og sakarkostnað upp á eina og hálfa milljón fyrir að hafa hent 53 þorskum. Það voru teknar myndir af því og sá sem hér stendur átti aðild að því. Þær myndir voru víst sviðsettar, það höfum við heyrt frá hæstv. sjútvrh., en þrátt fyrir það er þessi eini maður dæmdur til að borga eina og hálfa milljón í sekt, fyrir 53 þorska. Á sama tíma ákveður hæstv. sjútvrh. að þetta skip, Þorsteinn EA, í eigu stærstu útgerðar landsins, einni af stærstu útgerðum landsins, skuli sleppa við bæði rannsókn og hugsanlega ákæru og síðan dómsmeðferð. Þetta gengur bara ekki. Þetta er brot á stjórnarskránni. Þetta er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem við þingmenn allir hér á hinu háa Alþingi höfum ritað eiðstaf að, líka hæstv. sjútvrh.

Það eru til lög um ráðherraábyrgð. Þau eru frá 1963. Þar stendur í 2. gr., með leyfi forseta:

,,Ráðherra má krefja ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.``

Þetta er mjög skýr texti. Ég fæ ekki betur séð en að sjútvrh. hafi leyft mönnum að brjóta lög þessa lands ítrekað, um nokkurra ára skeið; lög um umgengni nytjastofna sjávar. Ég fæ heldur ekki betur séð en að ráðherra sé að mismuna mönnum freklega varðandi lögin um fiskveiðistjórnun á Íslandi þegar refsilöggjöfin er annars vegar, og sé með því að brjóta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þetta eru mjög alvarleg mál. Mér finnst gersamlega ótækt að þessu skuli vera sópað undir teppið og menn láti eins og ekkert sé. Við getum ekki haft stjórnvöld hér í þessu landi, hæstv. ráðherra í þessu landi, sem stunda það að skjóta smælingjana með fallbyssum á meðan stóru fuglarnir eru alltaf látnir sleppa, sennilega í krafti stærðar sinnar, valda og áhrifa. Þetta grefur undan trú landsmanna á löggjöfinni sem við hér á hinu háa Alþingi erum að setja. Trúverðugleiki allrar löggjafarinnar er í hættu. Svona embættisfærsla er mjög gagnrýniverð.

Ég hef sagt opinberlega að ég tel að hæstv. sjútvrh. hann eigi að segja af sér vegna þessa máls, þessi brot séu svo alvarleg. Ég stend við það, hæstv. forseti.