Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 16:44:03 (9418)

2004-05-28 16:44:03# 130. lþ. 131.4 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[16:44]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er mjög óánægður með þessi svör ráðherra. Hann svarar engu til um þetta. En við erum hér að tala um grundvallarmál. Við erum að tala um lagabrot, brot á lögum landsins, lög sem sett eru hér á hinu háa Alþingi. Sjávarútvegsráðherra verður að koma með almennilegar skýringar á þessu, eða hreinlega fara frá ella. Það er mín skoðun, hæstv. forseti. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Hér hafa verið að brotin lög með leyfi yfirvalda, með leyfi framkvæmdarvaldsins, með leyfi sjávarútvegsráðuneytisins.

Við í Frjálslynda flokknum erum ekki ósammála frv. sem liggur hér fyrir, eins og ég hef margoft sagt, það er hið besta mál að mönnum sé leyft að landa erlendis ef þeim hentar svo, ef talið er hagkvæmt að menn landi þessum afla erlendis, en það verður þá að tryggja að eftirlitið sé með einhverjum vitrænum og sannfærandi hætti og jafnræðis sé gætt. Þannig hefur það hreinlega ekki verið. Við í Frjálslynda flokknum munum sitja hjá við afgreiðslu þessa frumvarps, ekki vegna þess að við séum efnislega ósammála því, heldur vegna þess að þannig viljum við lýsa yfir andúð okkar á embættisfærslu hæstv. sjútvrh. og sjútvrn., undirstrika að þetta er gersamlega ólíðandi. Við viljum líka lýsa andúð okkar á vinnubrögðum formanns sjúvtn., hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar, sem hefur ekki orðið við óskum um að fyrir nefndina yrðu kallaðir embættismenn sem gætu útskýrt það fyrir okkur nefndarmönnum með sannfærandi hætti að eftirlit með löndunum erlendis væri framkvæmt eins og lög og reglur kveða á um. Við vitum ekkert um það hvort eftirlit er með fullnægjandi hætti í dag. Meðan svo er þá tel ég að þetta frv. ætti ekki að fara í gegnum þingið, jafnvel þó við séum sammála því.