Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 17:01:25 (9426)

2004-05-28 17:01:25# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[17:01]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Við erum í lokaumræðu um það mál sem borið hefur hátt undanfarna daga, þ.e. breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða eina ferðina enn. Mér finnst það hafa einkennt þessar breytingar í langan tíma og ég hef fylgst með þeim meira og minna í einhverja áratugi, að breytingarnar eru yfirleitt að koma inn á síðustu dögum þings, annað hvort í lok þings, fyrir jólahlé eða eitthvað slíkt. Það er yfirleitt verið að gera miklar breytingar á síðustu klukkustundum í meðferð málanna. Þetta mál sem við erum nú að ræða er auðvitað með því marki brennt að það kemur mjög seint hér inn í þingið og í allt öðrum búningi en menn áttu von á. Landssamband smábátaeigenda, forustumenn þess, voru búnir að vera í viðræðum við sjútvrh. um þetta dagakerfi og töldu sig vera í þeirri góðri trúum að unnið væri að því að útfæra sóknardagakerfið og festa það í sessi til framtíðar. Þeir höfðu kosið til þess sérstaka daganefnd á aðalfundi sínum og hún hafði verið í samstarfi við ráðuneytið mánuðum saman um að útfæra veiðikerfi dagabátanna. Þetta er ekki fyrsta árið sem menn hafa verið að ræða þessa stöðu.

Við stjórnarandstöðuþingmenn í hv. Alþingi stóðum í þeirri trú að það mundi á einhverjum tímapunkti draga til þess að menn kæmu hér með tillögur sem sneru að því að festa veiðifyrirkomulag smábátanna, sóknardagakerfið, í sessi. Til þess höfðu allar yfirlýsingar staðið og er nærtækast að vitna í yfirlýsingar manna í desember sl. þegar var verið að fjalla um veiðikerfi smábátanna og verið að lögfesta línuívilnun, þá voru gefnar yfirlýsingar í þessum ræðustól sem allir tóku þannig að í lagasetningunni um sóknardagakerfið yrði fengist við það að útfæra það. Það höfðu gengið yfirlýsingar um að menn vildu fá einhverja festu í þetta kerfi, festa það í sessi, jafnvel með gólfi upp á 23 daga, ef ekkert annað væri í boði. Til þess má vitna að hv. þm. Kristinn Gunnarsson sagði í umræðu um tillögu sem við vorum að flytja hér, Frjálslyndir og Vinstri grænir, um dagakerfið að ef ekki kæmi viðunandi tillaga frá sjútvrh. um að útfæra dagakerfið sem eðlilegan valkost, þá teldi hann að hann gæti jafnvel stutt þá tillögu sem við lögðum til. Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna í þessi orð hv. þm. Kristins Gunnarssonar. Þetta er úr umræðum sem fóru fram 29. mars 2004. Þar sagði þingmaðurinn hv., með leyfi forseta:

,,Ég tel þýðingarmikið að halda því til haga að af hálfu stjórnarliðsins er ekki stuðningur við að kvótasetja dagabátana. Þetta vildi ég taka alveg skýrt fram og er ekki unnið að því á þeim grundvelli. Þeir aðilar sem eru að vinna að því fylgi úr hópi dagamanna eru því ekki að vinna samkvæmt þeirri stefnu sem stjórnarliðið hefur markað sér í málinu.``

Það er nú varla hægt að vera með miklu skýrari yfirlýsingar í þessa veru, þannig að við töldum eðlilega og sérstaklega með tilliti til þess sem birtist í nál. meiri hlutans við afgreiðslu línuívilnunar í desember, að hér væru menn að vinna af fullum heilindum að því að útfæra dagakerfið þannig að það mætti vera við það búandi og í það fengist nokkur festa.

Annar hv. þm., Einar Kristinn Guðfinnsson, sagði efnislega í þessari umræðu að að sjálfsögðu vildi hann leita leiða til að festa dagakerfið í sessi, setja gólf í dagana, en það þyrfti að taka tillit til einhverrar sóknarstýringar annarrar, m.a. jafnvel að skoða vélarafl og fjölda handfærarúlla.

Nú liggur það fyrir, hæstv. forseti, að stjórnarandstaðan hefur sameinast um að flytja hér tillögu sem gengur út á það að festa niður 22 daga veiðikerfi. Hvers vegna skyldum við nú hafa lagt til að dagarnir væru 22 en ekki 23? Jú, það var vegna þess að sumir stjórnarþingmenn höfðu sagt: Það verður að setja einhvers konar sóknarminnkandi aðgerðir í þetta kerfi. Við vissum einnig að Landssamband smábátaeigenda og forustumenn þess höfðu teygt sig í umræðum við sjútvrh. um útfærslu á dagakerfinu sem þeir töldu sig vera af fullum heilindum og í góðri trú um að verið væri að útfæra sóknardagakerfið og höfðu þá lagt til, að til samkomulags, ef það mætti verða að festa dagakerfið í sessi og fá í það gólf og nokkra festu, að teygja sig jafnvel niður í 21 dag. Ég hygg jafnvel að á síðustu stundu þegar þeir fóru að verða þess áskynja að sjútvrh. ætlaði ekki að leita samkomulags við þá, hafi þeir teygt sig niður í 20 daga ef það mætti verða til þess að festa gólf í dagakerfið.

Við stjórnarandstöðuþingmenn töldum þess vegna að við skyldum koma með einhverja sóknarbreytingar inn í dagakerfið sem okkar valkost hér inn í þing, þannig að þeir stjórnarþingmenn sem höfðu verið með digurbarkalegar yfirlýsingar um að þeir vildu sóknardagakerfi og vildu festa það í sessi, ættu þá raunhæfan kost miðað við yfirlýsingar þeirra við að styðja okkar mál og okkar tillögur hér. Hér seinna í dag munu menn auðvitað þurfa að greiða atkvæði um tvo valkosti; sóknardagavalkost með 22 dögum og viðmiðun við árið sem fiskveiðiárið 2002/2003 sem sjútvrh. loksins ákvað að taka upp sem nýja viðmiðun fyrir þennan flota, en hún hafði auðvitað verið gjörsamlega út úr kortinu árum saman, eða um 2000 tonn. Við lögðum svo jafnframt til að samkvæmt tillögum frá Landssambandi smábátaeigenda yrði talað um fimm rúllur sem takmörkuðu afköst þessa flota enn frekar og jafnframt yrði skoðað ef vélarafl yxi mikið umfram 200 hö. þá tengdist það ákveðinni sóknarminnkun sem væri þá einnar klukkustundar minnkun fyrir hver tíu hö. Ef miðað er við útfærslu sumra þessara báta í dag hefði þetta getað þýtt að menn hefðu verið að tapa --- ef vélarstærð hefði verið hækkuð t.d. úr 200 í 470 sem er þekkt vélarviðmiðun --- þá hefðu menn verið að tapa 27 klukkustundum til viðbótar við þennan dag sem við lögðum til að yrði minnkað um og hefðu þá verið komnir niður fyrir 21 dag fyrir stærstu og öflugustu bátana. En almennt hefðu menn haldið 22 dögum. Við lögðum einnig til að það yrði tekin upp viðmiðun við þetta fiskveiðiár og síðan fimm ár fram í tímann og búin til sveiflujöfnun í kerfið, þannig að dagarnir væru tiltölulega mjög stabílir.

Með þessari framsetningu töldum við í stjórnarandstöðunni að við hefðum tekið ákveðið tillit til skoðana sumra stjórnarþingmanna sem töldu að það væri mikið mál að festa dagakerfið í sessi, en það þyrfti að útfæra í því einhverjar sóknarstýringar eða takmarkanir. Við töldum að þetta dygði, enda var sjútvrh. sjálfur búinn að fallast á það að viðmiðunarafli þessa bátaflokks væri kominn yfir 11 þúsund tonn og við teljum að reynslan sýni það að miðað við raunverulegan afla, hefði slík útfærsla mjög vel getað gengið.

Þetta var nú það sem við höfum lagt hér inn í þessi mál og á milli þessara tveggja tillagna, annars vegar okkar tillagna um það að festa sóknarkerfið í sessi með svona útfærslu og tryggja nokkuð mikinn stöðugleika í því, þá gætu menn átt hér góðan valkost. Það þurfa jú ekki margir stjórnarþingmenn að fylgja fyrri yfirlýsingum sínum og sannfæringu til þess að slíkt kerfi festist hér í sessi þó að kvótasetningunni verði hafnað. Ég geri mér enn vonir um að menn hugsi sig aðeins um og leggi á vogarskálarnar með sér sín eigin orð, því orð skulu jú standa.

Á fundi vestur á Ísafirði í september sl. lýstu margir þingmenn því yfir úr Norðvesturkjördæminu m.a. stjórnarliðar, Einar Oddur hv. þm., Kristinn H. Gunnarsson hv. þm., Sturla Böðvarsson tók undir það að eðlilegt væri að festa dagakerfið í sessi. Fleiri hv. þingmenn, Einar Kristinn, eins og ég hef vikið að áður í máli mínu. Þannig að það lá alveg fyrir að menn töldu að þetta væri mjög hagkvæmt kerfi og að mörgu leyti gott fyrir byggðirnar að viðhalda þessu kerfi, sóknardagakerfinu. Að ég tali nú ekki um ýmislegt annað, aðra kosti sem fylgja sóknardagakerfi, en ekki kvótakerfi.

Mig langar til þess að staðfesta það hvaða skoðanir hv. þm. Einar Kristinn Guðfinns ...

(Forseti (BÁ): Forseti vill áminna hv. þm. um að nefna aðra þingmenn fullu nafni.)

Ég var að segja Einar Kristinn Guðfinnsson, hæstv. forseti.

Til þess að staðfesta það þá langar mig að vitna í grein eftir áðurnefndan þingmann, en hún birtist fyrir stuttu í blaðinu Ægi og tilvitnunin hljóðar svo, með leyfi forseta, en yfirskrift þessa millikafla í grein hv. þm. er: Sjónum beint að byggðaþróuninni. Þar segir m.a.:

,,... öryggisleysinu sem verður þegar ótti skapast við að aflaheimildir hverfi, og að veiðirétturinn verði afnuminn. Það hefur orðið hlutskipti margra. Ekki þarf að nefna dæmin, þau eru í fersku minni fólksins. Nauðvörnin var eins og menn vita oft á tíðum, veiðikerfi smábátanna. Þess vegna hefur verið barist svona hart fyrir veiðirétti þeirra. Línuívilnunin var angi þessa sama.``

[17:15]

Tilraun til þess að treysta stöðu minni sjávarbyggða. Engin töfralausn, en viðleitni til þess að treysta sóknarréttinn og tengja hann betur við byggðirnar.

Ég hef í fyrri ræðum mínum vitnað í annan kafla hér úr þessari grein hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og ætla ekki að endurtaka nú. En það liggur algjörlega ljóst fyrir að þingmaðurinn hefur verið þeirrar skoðunar að það ætti að verja veiðikerfi smábátanna, sóknarkerfi sem annað.

Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir því að meiri hluti sjútvn. breytti algjörlega afstöðu sinni og tók þá ákvörðun að koma hér inn með tillögu sem eingöngu er kvótaúthlutun. Þá erum við auðvitað að gjörbreyta veiðikerfunum. Við erum að fara úr sóknarkerfi yfir í aflamarkskerfi. Það þýðir í flestum tilfellum að aflasamsetning muni eitthvað breytast, sóknarmynstrið mun breytast og við vitum að það mun hafa veruleg áhrif víða um land. Ég hygg sérstaklega í Norðvest. þar sem ég geri ráð fyrir að landaður afli af þessum sóknardagaflota muni minnka verulega. Það gerist ekki á þessum mánuðum sem eftir eru af fiskveiðiárinu, því dagakerfið gildir út þetta fiskveiðiár, en við munum sjá þess stað eftir ár eða tvö hvaða áhrif þetta hefur. Ég tel mjög varasamt að fara þessa leið og þess vegna hef ég verið að brýna þá þingmenn úr stjórnarflokkunum sem hafa verið hlynntir því að viðhalda sóknardagakerfinu, að standa við fyrri yfirlýsingar og reyna að tryggja það að við héldum velli með þetta sóknarstýrða kerfi.

Það er alveg ljóst að við aflagningu þess ef svo fer að stjórnarliðar kjósa hér um að fara með allan flotann yfir í kvótakerfi, þá breytist sóknin. Og landaður afli breytist.

Hvaða aðferðir eru það, hæstv. forseti, sem við höfum notað hér á landi undanfarin ár til þess að reyna að leggja mat á stærð þorskstofnsins sem er jú okkar mikilvægasti stofn í verðmætum og nýtingu og hefur mest að segja fyrir hinar dreifðu byggðir varðandi atvinnu vítt og breitt í sjávarbyggðunum? Jú, það er svo, hæstv. forseti, að við munum sitja uppi með það að þær aðferðir sem meira að segja Hafrannsóknastofnun og sjútvrh. hafa sérstaklega lagt upp með og var lögð mikil vinna í að hanna hér fyrir nokkrum árum, sem heitir togararall, sóknarstýrð mæling á aflamagninu. Netarall, sóknarstýrð mæling á aflamagni. Við munum upplifa það að sóknarmæling bátaflotans sem gerðist sjálfkrafa miðað við að þeir voru í sóknarstýrðu kerfi, hún hverfur. Þá spyr maður eðlilega: Hvaða viðbrögð þurfa að verða við því?

Ég tel að þá þurfi að taka upp algjörlega nýtt eftirlit með fiskimagninu á grunnslóðinni. Það þarf að taka upp veiðar í hinum friðuðu hólfum sem hafa verið lokuð fyrir togveiðum, línuveiðum og netaveiðum á undanförnum árum og eingöngu verið opið fyrir handfæraveiðarnar. Þar tek ég dæmi af svæði eins og í Húnaflóa og á Strandagrunni, þar sem dagabátarnir hafa mikið stundað veiðar og þar hefur auðvitað komið í ljós hvernig fiskigöngurnar eru ár eftir ár og hvaða sóknarmælingu menn hafa fengið út úr því og hvaða árgangaskipan hefur þar verið að alast upp á fæðuslóðunum. Þetta tel ég allt skipta miklu máli varðandi það hvað við þurfum að vita um fiskigöngur hér á landi og hvaða grunn við þurfum að hafa.

Ég tel sem sagt að þegar búið er að leggja dagakerfið, þá þurfi Hafrannsóknastofnun að setja af stað veiðiferli á þeim svæðum þar sem handfærabátarnir hafa mest stundað veiðar og fá inn þá reynslu og þá árgangaskipan sem er á miðunum ef þeir ætla að hafa sama gagnagrunn og samanburðarhæfan gagnagrunn fyrir framtíðina. Einhvern veginn verður Hafrannsóknastofnun að bregðast við.

Það sem situr hins vegar eftir við þessa aðgerð ef farið verður í þessa kvótasetningu, er það að veiðiréttarhafarnir, útgerðarmennirnir, fá úthlutað verðmæti í kvóta. Það er algjörlega ljóst, hæstv. forseti, að ef menn ætla að fara að selja annars vegar handfærabát með ákveðnum dagafjölda --- a.m.k. eins og sú óvissa sem hefur verið að undanförnu --- og hins vegar aflakvóta, þá fá menn miklu meiri verðmæti með að selja aflakvótann. Það verða líka fleiri kaupendur þegar búið verður að sameina þessi kerfi. Við þurfum virkilega að skoða hvaða ferli og hvaða krafa fer af stað þegar búið er að kvótasetja smábátana. Það kemur fram krafa um að kerfin verði sameinuð, að þetta verði eitt kerfi í framtíðinni. Þá gerist það sama og áður hefur gerst þegar við höfum verið að kvótasetja hinar ýmsu einingar smábátaflotans, að minni útgerðirnar og minni aflaheimildirnar þær verða keyptar upp af hinum stærri og sterkari. Það er reynsla okkar úr kvótakerfinu. Nægir í því sambandi að vitna til þess að rúmlega 50% af aflaheimildunum eru komnar á hendur 10 stærstu fyrirtækjanna.

Ég orðaði það svo, hæstv. forseti, að það væri búið að hengja upp sérstaka gulrót fyrir dagamennina og þeir sæju í hendi sér sérstök fjárútlát sem ráðherra gengst þá fyrir að verði afhent þeim, sérstakar fjárveitingar, en hins vegar er ekki hugsað um afleiðingarnar fyrir aðra. Það er ekki nóg, hæstv. forseti, að útgerðarmenn smábátanna, dagabátanna, fái afhent verðmæti, þegar fólkið í byggðunum er skilið eftir atvinnulítið og atvinnuminna, með minni verðmæti eigna sinna, sinn ævisparnað. Það er þar sem þetta mun bitna, því atvinnurétturinn í aflaheimildunum verður söluvara, en í sjávarbyggðunum situr fólkið eftir með sína stöðu og sitt atvinnuleysi ef því er að skipta. Það er víða ekki hátt verðið á íbúðunum í hinum minni sjávarbyggðum þar sem hefur orðið samdráttur.

Því miður þá fórum við þá leið fyrir þremur árum síðan að kvótasetja aukategundirnar í smábátakerfinu sem þá var þorskaflahámarkskerfi og gerði það að krókaaflamarkskerfi, það hafði áhrif á byggðir og atvinnustefnu. Þetta mun gera það líka, því miður, neikvæð áhrif. Það er mikil ákvörðun sem við erum að taka hér og hún er neikvæð fyrir byggðirnar. Hún veikir stöðu byggðanna. Hún minnkar atvinnuna. Hún veikir atvinnurétt fólksins. Hún vegur að eignastöðu fólksins. Það verður niðurstaðan.

Við höfum séð þá þróun sem hefur orðið með uppkaupum á afla á undanförnum árum í aflamarkskerfinu og til þess var hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson að vitna í grein sinni sem ég vitnaði til áðan; hvað gerðist þegar afli er seldur úr byggð og þess vegna væri sóknarrétturinn okkur öllum mikils virði. Það er heila málið, hæstv. forseti, að sóknarrétturinn í smábátakerfinu hann er okkur mikils virði, fólkinu á landsbyggðinni og þeim stöðum þar sem þessi afli hefur komið að landi af þessum sóknardagabátum þar sem þeir hafa verið gerðir út. Þessu erum við að breyta, þetta verður smiðshöggið á að kvótasetja allar aflaheimildir í kvótakerfinu, koma öllu inn í kvótakerfið, inn í framseljanlegt kerfi og síðan kemur krafan um að sameina kerfin og þeir stóru geti keypt upp þá smáu. Það hefur verið þróunin.

Ég segi það að lokum, hæstv. forseti, mér finnst þetta uggvænleg þróun og ég undrast það þegar stjórnarþingmenn sem vita vel hvaða afleiðingar þetta getur haft, hafa hér tjáð skoðanir sínar á undanförnum árum og missirum um það hve sóknarkerfi væri mikils virði og það ætti að tryggja það og festa í sessi, þegar þeir láta undan kröfu sjútvrn. sem þykist vera búin að vinna með dagamönnum að útfærslu á dagakerfi mánuðum saman ef ekki árum saman, þegar þeir láta undan því að sjútvrh. komi hér með hugmyndir um að kvótasetja allt saman. Landssamband smábátaeigenda er auðvitað pínt inn á þann kost, því það var ekkert val. Formenn Landssambands smábátaeigenda, forustumenn þeirra, hafa lýst yfir að sóknarmarkskosturinn í tillögum sjútvrh. eins og þær komu hér, væri ekkert val. Hann væri bara ávísun á það að menn færu á hausinn og gætu ekki lifað af. Þess vegna völdu þeir þann kost í algjörri nauðvörn og hafa nýverið lýst því yfir opinberlega í fjölmiðlum að þeir hefðu neyðst til að taka þennan kost sem skárri kostinn til að bjarga því sem bjargað varð, en eru algjörlega sannfærðir um að hér sé verið að fara ranga leið. Það er ég líka, hæstv. forseti. Ég tel því miður að ef kvótakerfið verður hér samþykkt þá sé farin algjörlega röng leið.