Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 28. maí 2004, kl. 19:57:57 (9463)

2004-05-28 19:57:57# 130. lþ. 131.2 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, Frsm. minni hluta JÁ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 130. lþ.

[19:57]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Getur hæstv. forseti upplýst hvort hæstv. sjútvrh. heyri mál mitt?

(Forseti (SP): Hæstv. sjútvrh. er í húsinu og ég geri ráð fyrir að hann heyri mál ræðumanns.)

Mér finnst það mikilvægt vegna þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson bar fram fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. rétt áðan. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er varaformaður sjútvn. en hann þurfti samt að spyrja hæstv. sjútvrh. um hvað ákveðið atriði í þessu frumvarpi þýddi. Hv. þm. var að spyrja um það sem stendur í 2. tölulið 2. gr. í frv. eins og það liggur fyrir núna, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Taka skal tillit til áætlaðrar aflaaukningar, allt að 20 lestum á hvern bát, miðað við óslægðan fisk, vegna aukningar afkastagetu sóknardagabáta vegna endurnýjunar þeirra á fiskveiðiárinu 2002/2003 eða á fiskveiðiárinu 2003/2004 fram til 26. maí 2004, enda hafi sóknargetan ekki nýst til myndunar aflareynslu samkvæmt nánari reglum er ráðherra setur.``

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði hæstv. ráðherra hvað þetta þýddi og hvort þeir sem hefðu keypt báta sína heyrðu undir þetta ákvæði. Hæstv. ráðherra svaraði því þannig til að svo væri. En samkvæmt orðanna hljóðan þá á þetta ákvæði við um báta en ekki eigendur þeirra. Það er útilokað, eins og ákvæðið er orðað, að þetta geti átt við það ef menn hafa keypt báta. Það er talað um endurnýjun bátanna á þessum tíma en mér finnst þetta táknrænt fyrir málið sem hér er á ferðinni. Það er svo illa unnið að jafnvel varaformaður sjútvn. hefur ekki glóru um hvað sumt í því þýðir og hæstv. ráðherra svarar að mínu viti með algjörri vitleysu þegar hann er um það spurður.