Úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 11:23:26 (9499)

2004-07-07 11:23:26# 130. lþ. 134.91 fundur 631#B úrskurður forseta um frumvarp um fjölmiðlalög# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[11:23]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Vissulega er kostulegt að koma á ný til þings einum og hálfum mánuði eftir að mál hefur verið afgreitt og samþykkt til að fjalla aftur um sama mál sem ekki hefur fengið endanlega staðfestingu. En ástæðan fyrir því að ég bað um orðið aftur voru fyrst og fremst orð hæstv. fjmrh., sem kom hér upp og talaði um óheyrilega réttaróvissu sem uppi væri í málinu og ekki bara það heldur að stjórnarskrárgjafinn hefði verið svo ófullkominn á sínum tíma að það væri bara ekki nokkur leið að vinna úr þessu máli.

Hverjum kemur til hugar að stjórnarskrárgjafanum á sínum tíma hafi dottið í hug að það mundi vefjast fyrir nokkrum manni að boða til einnar kosningar og láta á það reyna hvort meiri hluti eða minni hluti landsmanna væri fylgjandi eða andvígur einhverju máli? Hverjum hefði til hugar komið að fylla ætti út hverja einustu reglu um hvernig við förum í kosningar? Svo tala menn um einhverja réttaróvissu. Það er bara réttaróvissa innan ríkisstjórnarinnar vegna þess að Sjálfstfl. fékk því ekki framgengt að svindla á þjóðinni í þessum kosningum, þ.e. að krefjast þess að a.m.k. 44% af kosningarbærum mönnum þyrftu að segja nei. Stjórnarskrárgjafanum hefði aldrei dottið það í hug að einhver fengi slíkar hugmyndir á því herrans ári 2004. Það er því ekki nema von, virðulegi forseti, að stjórnarskrárgjafinn hafi ekki gengið lengra. Þetta er sáraeinfalt mál. Það á að bera það undir þjóðina og hlíta niðurstöðu meiri hlutans sem mætir til kosninga.

Það gengur ekki að skjóta sér á bak við það þegar það á við í kosningum hvort menn sitja heima eða ekki. Í nýgengnum forsetakosningum voru fáir ábyrgðarmeiri að mati meiri hlutans en þeir sem sátu heima. En í þessum kosningum er það ómögulegt því einhver gæti setið heima.

Virðulegi forseti. Réttaróvissan er bara í ríkisstjórninni.