Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 12:14:01 (9503)

2004-07-07 12:14:01# 130. lþ. 134.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[12:14]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var nokkuð skemmtilegt að hlusta á þessa ræðu og sérstaklega hafði ég gaman af því þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði um að menn væru með atlögu að fyrirtækjum. Þá mundi ég eftir því sem var nokkuð umdeilt á sínum tíma þegar hann var með atlögu sína að Baugi og krafðist þess og fór fram á það að Samkeppnisstofnun fengi þau tæki sem þyrfti til að skipta því fyrirtæki upp. Það var löngu áður en það fyrirtæki hóf að hasla sér völl á fjölmiðlamarkaðnum.

En ég ætla ekki að fara í U-beygjur hv. þm. í þessu máli eða öðrum. Ég ætla hins vegar að spyrja hann um eitt sem ég tel að skipti gríðarlega miklu máli og mér finnst vera stóra málið í þessu. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann telji að það sé eðlilegt, því ástæðan fyrir að við erum hér er sú að þau tíðindi hafa orðið að í fyrsta skipti í 60 ára sögu lýðveldisins neitar forseti að skrifa undir lög. Fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins ákvað að taka þá ákvörðun, eins og menn þekkja, og rökin sem hann nefndi voru það að hér væri í rauninni um umdeilt og óvinsælt mál að ræða og þar af leiðandi væri eðlilegt að neita að skrifa undir það og fara með málið í þjóðaratkvæði. Ég vil spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson hvort hann telji að með því að haga málum með þeim hætti hafi sú stóra breyting sem hugsanlega verður góð áhrif á íslenska stjórnskipun. Það er, virðulegi forseti, grundvallarmál því hér erum við að tala um grundvallarbreytingu á þeirri stjórnskipun sem við höfum haft í 60 ár og sem ég tel að hafi reynst þjóðinni afskaplega farsæl og skynsamleg. Því vil ég fá skýr svör frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um hvort hann telji að hér sé um skynsamlegan og eðlilegan gjörning (Forseti hringir.) að ræða og hvort við ættum að hafa þetta með þessum hætti í framtíðinni.