Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 07. júlí 2004, kl. 12:16:23 (9504)

2004-07-07 12:16:23# 130. lþ. 134.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 130. lþ.

[12:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Lýðræði er fallegt orð. Það að lýður allur, landslýður í fornri merkingu, það er að segja þjóðin, ráði, það er falleg og göfug hugsun. Við Íslendingar erum stoltir af lýðræðishefð okkar. Við alþingismenn erum væntanlega hreyknir af því að starfa á því sem oft er talið vera elsta þjóðþing veraldar með fullvalda þjóð. Fyrir utan menningararfleifð þjóðarinnar, tunguna, íslenskt mál og landið sjálft hygg ég að lýðræðislegt stjórnskipulag og sú trú manna eða von að minnsta kosti að þeir búi í þroskuðu réttarsamfélagi þar sem virðing er borin fyrir lögum að maður tali ekki nú um stjórnarskrá, standi mönnum hjarta nærri.

Það er af þessum sökum sem íslensku þjóðinni er brugðið. Það er vegna þess að það er að renna upp fyrir mönnum nú á síðastliðnum einum til þremur sólarhringum að jafnvel ekki einu sinni því sé að treysta að ráðamenn þjóðarinnar, þeir sem með meirihlutavöldin fara um þessar stundir, ætli sér að virða stjórnarskrárbundin og helg réttindi manna í lýðræðissamfélagi, það er kosningarréttinn. Það að forseti lýðveldisins ákvað að virkja stjórnarskrárbundinn rétt þjóðarinnar, að færa þjóðinni þann rétt sem 26. gr. stjórnarskrárinnar geymir og vísa þar með staðfestingarvaldi sínu til þjóðarinnar, eru auðvitað stór og mikil tímamót. Stjórnarskráin er algerlega skýr að minnsta kosti hvað þetta atriði varðar. Þegar það rennur upp fyrir mönnum að með brellum, að með því að hafa rangt við, að með hundakúnstum, sem ég leyfi mér að kalla svo, í lagatæknilegu tilliti ætli menn að hafa þennan rétt af mönnum þá er von að þeim sé brugðið, að þjóðinni sé brugðið. Ég held að það sé eins og að kalt vatn hafi hríslast niður hrygglengjuna á hverjum manninum á fætur öðrum þegar honum varð ljóst hvað hérna er raunverulega að gerast.

Framsöguræða hæstv. utanríkisráðherra. Halldórs Ásgrímssonar fyrir frumvarpi stjórnarinnar áðan var fyrir margra hluta sakir merkileg. Þó ekkert væri annað en hinar stórkostlegu mótsagnir sem voru innbyggðar í málflutninginn þá væri það hálfa nóg til að hún mun lifa á spjöldum sögunnar. Hæstv. ráðherra hóf mál sitt á því að segja að hér væri á ferð frumvarp að stórum hluta samhljóða því sem Alþingi hefði samþykkt 24. maí. Síðan fór stór hluti fyrri parts framsöguræðu hæstv. utanríkisráðherra í að reifa niðurstöður starfshóps ríkisstjórnarinnar --- um hvað? Um það hvernig skyldi kjósa. En hann er að mæla fyrir frumvarpi þar sem það er orðin niðurstaðan að kjósa alls ekki. Starfshópurinn ræddi ekki um þann möguleika, skoðaði aldrei þann möguleika, hugleiddi aldrei þann möguleika að ekki yrði kosið (Gripið fram í: Datt það ekki í hug.) enda var honum í erindisbréfinu falið hið gagnstæða, að fara yfir það hvernig reglur skyldu ríkja um kosninguna. Því var grátbroslegt að heyra hæstv. utanríkisráðherra eyða löngum tíma í að ræða niðurstöður starfshóps ríkisstjórnarinnar um það hvernig skyldi kosið þegar ekki á að kjósa, þegar ríkisstjórnin er allt í einu búin að snúa við blaðinu.

Hæstv. ráðherra gerði síðan mikið úr þeirri óvissu sem skapaðist af því ef kjósa ætti og hæstv. ríkisstjórn hefur um fátt meira talað en þessa óskaplegu óvissu sem enginn hefur haft áhyggjur af nema hún. Það er dálítið kostulegt líka að heyra menn í lýðræðislegu samhengi tala um að forsetinn sé að grípa fram fyrir hendur á Alþingi sem upp undir 90% þjóðarinnar hafi kosið. Það var ekki samstaða um þetta mál á Alþingi. Var það, hæstv. ráðherra? Er hæstv. ráðherra búinn að gleyma því að það voru aðeins 32 þingmenn, sem samkvæmt úrslitum miðað við kosningar og fjölda atkvæða 2003 höfðu reyndar minni hluta gildra atkvæða á bak við sig, sem samþykktu þessi ólög. Hæstv. ráðherra er oft hreykinn af því að vera endurskoðandi og kunna að fara með tölur.

Hæstv. ráðherra ræddi síðan um að mikill munur væri á þessum frumvörpum og fór yfir þessi 5% sem eiga að verða að 10% og mismunandi gildistökuákvæði sem menn fengju að greiða atkvæði um í kosningunum 2007 ef svo illa tekst til að þær verða ekki fyrr. Reyndar voru það kostulegir loftfimleikar í málflutningi, og út af fyrir sig má líka hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir að komast til þeirra hæða, að ríkisstjórnin væri jafnvel að ganga lengra í lýðræðislegu tilliti með því að leyfa mönnum að kjósa um þetta 2007 heldur en láta kosningar um þjóðaratkvæðagreiðsluna fara fram núna. Það mætti segja það. Á hvaða stjórnmálaskóla hefur hæstv. utanríkisráðherra gengið? Hvar lærði hann stafrófið í lýðræðislegu stjórnarfari? Var það í einhverjum stjórnmálaskóla framsóknarmanna og hvar fór hann fram? (Gripið fram í: ... kannski í Alþýðubandalaginu.) Ekki í Alþýðubandalaginu, nei. Það er nefnilega það. Það heyrist greinilega. Til þess að fullkomna mótsetningarnar í sínum málflutningi lauk svo hæstv. utanríkisráðherra máli sínu á því að segja að hann sæi ekki ástæðu til að útskýra efni frumvarpsins frekar. Hann vísaði í framsöguræðu fyrir hinu eldra frumvarpi og greinargerð þess frumvarpsins. Það er af þeim ástæðum meðal annars sem það fylgir engin umsögn um einstakar greinar þessu nýja stjórnarfrumvarpi. Það er vísað í rökstuðninginn í gamla frumvarpinu, núgildandi lögum, þeim sem forsetinn synjaði staðfestingar. Samt er verið að reyna að segja okkur að þetta sé annað mál, að þetta sé ekki sama frumvarpið, að þetta séu ekki sömu efnisatriðin.

Nei, herra forseti. Það er mín skoðun að þetta stjórnarfrumvarp á þingskjali 1891 sé óþinglegt. Það stenst ekki. Það er stjórnskipulegur óskapnaður aðallega af tveim ástæðum. Það hefur bersýnilega í sér fólgna fyrirætlan um að fara á svig við skýr ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar. Það er líka algerlega ótækt hvað umbúnað snertir. Það að hafa í einu og sama frumvarpinu efnisatriði sem eru bæði tekin út úr lögum og sett inn aftur er nýmæli. Ég bið menn að nefna mér eitt einasta dæmi um að mönnum hafi nokkurn tíma áður í sögu Alþingis dottið það í hug að fella úr gildi og setja í gildi í sama frumvarpinu sömu lagagreinina. Það er það sem hér á að gera. 2. gr. þessa frumvarps á þingskjali 1890 er nákvæmlega samhljóða 2. gr. laga um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum sem samþykkt var á Alþingi 24. maí. Lesi menn þetta saman. Ekki einni einustu kommu er hreyft til. Svo mikið hafa menn verið að spara sér í verkunum að þeir hafa auðvitað bara á rafrænu formi endurprentað textann. Það er bara ,,copy`` og ,,paste``, er það ekki, herra forseti? Það er flutt yfir og til marks um það er að íslensku hortittirnir sem höfundum laganna tókst að hafa inni í textanum og fóru þar alla leið í gegn eru endurvaktir í frumvarpinu. Má ég lesa fyrir hæstv. forseta hversu hönduglega menn orða hlutina í lögunum? Það segir, með leyfi forseta, í 1. gr. laganna:

,,Telja skal með veltu móður- og dótturfyrirtækja fyrirtækja innan sömu fyrirtækjasamstæðu og fyrirtækja sem markaðsráðandi fyrirtækið eða fyrirtækjasamstæðan hefur bein eða óbein yfirráð yfir.``

Þetta er yndisleg íslenska, er það ekki? Eru ekki höfundarnir stoltir? (Gripið fram í.) Það gafst svolítill tími --- var það ekki? --- til að reyna að koma þessu á brúklegt íslenskt mál. En hvernig er frumvarpið? Með leyfi forseta, aftur:

,,Telja skal með veltu móður- og dótturfyrirtækja fyrirtækja innan sömu fyrirtækjasamstæðu og fyrirtækja sem markaðsráðandi fyrirtækið eða fyrirtækjasamstæðan hefur bein eða óbein yfirráð yfir.``

Hér er sama gullaldaríslenskan hjá snillingunum, auðvitað, af því að þetta var bara límt yfir. Og svo er verið að reyna að segja okkur að þetta sé ekki sama frumvarpið. Auðvitað er þetta sama frumvarpið. Ósvífnin er þvílík að á köflum er beinlínis gert í því að undirstrika að þetta sé sama frumvarpið, að þetta séu sömu lögin. Hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddsson sagði í viðtali við sjónvarpið að hann byggist nú ekki við löngu þingi, það þyrfti ekki að ræða þetta mikið, þetta væri þegar fullrætt. Bíddu, er þetta þá ekki sama málið? Greinargerð með frumvarpi þessu er meira og minna engin af því að það er sagt að það sé óþarfi, með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta er að undanskildum tveimur`` --- að vísu er sagt: --- ,,veigamiklum breytingum samhljóða öðru frumvarpi sem samþykkt var á Alþingi 24. maí ...``

Að lokum segir, með leyfi forseta:

,,Um almennar athugasemdir vísast að öðru leyti til almennra athugasemda við frumvarp það, er varð að lögum nr. 48/2004.``

Bíddu, er þetta þá ekki sama frumvarpið? Er ekki verið að fella og setja aftur sömu lögin? Jú, auðvitað. Það sér hvert mannsbarn. Þessi leiktjöld hrynja niður og ríkisstjórnin stendur með málatilbúnað sinn nakin á sviðinu, sömu ákvæðin út og inn og framsöguræða ráðherra staðfesti það áðan.

Herra forseti. Það er með öðrum orðum rangt að verið sé að fella hin umdeildu fjölmiðlalög úr gildi. Það er rangt. Það er efnislega og þingræðislega séð rangt. Það er verið að gera á þeim minni háttar breytingar og svo á að prófa aftur hvort forsetinn staðfesti 95 eða 98% sömu lögin og hann synjaði 2. júní síðastliðinn. Og þau rök að gildistaka laganna nú eigi ekki að vera fyrr en eftir alþingiskosningar 2007, og talað er eins og þar með verði eingöngu kosið um það, eru einhver þau kostulegustu rök sem ég hef nokkurn tíma heyrt. Í fyrsta lagi vonumst við nú til þess að kosið verði fyrr. Í öðru lagi vonumst við til þess að ríkisstjórnin verði fallin og leggi þar af leiðandi ekki sjálfa sig undir og þetta mál 2007. Og í þriðja lagi veit hver reyndur stjórnmálamaður að það er ekki þannig að menn geti ákveðið það mörg ár fram í tímann hvað ráði afstöðu kjósenda í ókomnum alþingiskosningum. Hver veit hvaða mál ber hæst í íslenskri þjóðmálaumræðu 2007 og hvernig landslagið verður þá? Segjum sem dæmi, án þess að ég sé að óska mér þess, að þá verði ef til vill svo komið að spurning um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði eitt helsta deilu- og kosningamálið. Halda menn að þriggja ára gömul átök um þessa hluti verði þá í forgrunni og muni fyrst og fremst ráða afstöðu kjósenda? Þvílík þvæla. Og að menn sem hafa farið í gegnum margar alþingiskosningar skuli bera sér svona lagað í munn er með endemum. Það er ótrúlegt að menn skuli vera með svona bull, reyndur stjórnmálamaður eins og hæstv. utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson.

[12:30]

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að þetta þing taki til skoðunar, og það mun sú þingnefnd sem fær þetta verkefni hafa forustu um að skoða, hvort þessi málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar stenst yfir höfuð. Er þessi aðferð leyfileg? Kemur til greina að grípa inn í það stjórnarskrárbundna ferli sem hófst 2. júní þegar forseti Íslands tilkynnti um niðurstöðu sína? Þetta er fyrsta og stærsta spurningin. Eins og hæstv. fjmrh. viðurkenndi er sú spurning gild. Það má færa mjög sterk rök fyrir því að enginn, ekki einu sinni Alþingi, megi grípa inn í það ferli sem stjórnarskráin setur af stað.

Síðan vakna spurningarnar um siðferðilegan og lagalegan rétt manna, pólitískan rétt, til að taka þennan helga rétt af þjóðinni, jafnvel þótt menn teldu það fært, t.d. með þeirri aðferð sem helst hefur verið nefnd, að fella lögin úr gildi í heild sinni þannig að þau væru horfin og tilefni kosningarinnar þar með farið. Um það má deila hvort jafnvel það sé fullnægjandi ráðstöfun vegna þess, sem eru sterk rök, að þá er sá réttur tekinn af þeim hluta kjósendanna sem hefði viljað staðfesta lögin. Þeir fá aldrei tækifæri til þess. Það má segja að hinir, andstæðingar þeirra, nái sínu fram í því að lögin hverfa í gegnum Alþingi. En hvað með þá sem höfðu hugsað sér að mæta á kjörstað og styðja lögin? Er ríkisstjórnin sem sagt sérstaklega að svíkja þá? Eða er það vegna þess að hún reiknaði með því að þeir væru færri en hinir og lagði ekki í kosninguna vegna þess hver hún taldi að úrslitin yrðu?

Þetta, herra forseti, er auðvitað það sem Alþingi þarf að skoða. Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmenn taki skyldur sínar gagnvart stjórnarskrá og drengskaparheiti sínu það alvarlega að menn fallist á og viðurkenni að þessa grundvallarspurningu verður að ræða, skoða og bera undir vísustu menn.

Næsta spurning, telji menn að þetta sé mögulega fær leið, að ekki sé ófrávíkjanlegt að kosningin skuli fara fram og það ferli sé ósnertanlegt eftir að forseti hefur tekið sína ákvörðun, er þá: Hver mega viðbrögð Alþingis vera önnur? Þá er nærtækast að velta því fyrir sér hvort það dugi að lögin séu felld úr gildi í heild sinni þannig að tilefnið hverfi. Er það í lagi? Um það má ræða og um það má deila en það er sjálfsagt að skoða.

En þriðji möguleikinn, að nóg sé að fara í málið sem forseti synjaði og sendi af stað til þjóðarinnar og gera á því minni háttar breytingar, er svo galinn og út úr öllu korti að það ætti ekki að þurfa að ræða hann. Hafa menn hugleitt hvers konar ferli málin fara þá í? Hafa menn velt því fyrir sér hvað gerðist á sunnudagskvöldið þegar forsrh. fór til forsetans og varaði við því sem ríkisstjórnin hygðist fyrir? Bíðið við, er það inn í þennan farveg sem menn vilja fara, í samningaviðræður milli þings eða ríkisstjórnar og forsetaembættis um hlutina? Eigum við þá að hafa samband til Bessastaða áður en við setjum lög og berum undir forsetann og spyrja: Er líklegt að forsetinn muni staðfesta þetta? (Menntmrh.: Það er það sem þið viljið.) Á forsetinn að fara til baka og segja: Ja, það kæmi nú kannski til greina ef tilteknar breytingar yrðu gerðar. Nei, hæstv. menntmrh. Það eruð akkúrat þið, ríkisstjórnin og meiri hlutinn, sem búið þetta ferli til með viðbrögðum ykkar. Forsrh. gengur í gildruna og fer yfir landamærin sem eiga að vera mannheld, landamærin milli Alþingis og forsetaembættisins í þessum tilvikum rétt eins og landamærin milli Alþingis og Hæstaréttar eiga að vera mannheld og bréfheld. En það er ekki alltaf virt.

Það sjá allir menn ef þeir hugleiða þetta að menn eru að missa þessi mál inn í stórháskalegan farveg. Það getur aldrei orðið þannig sem stjórnskipunin virkar að í gang fari samningaferli milli Alþingis annars vegar og forsetans fyrir hönd þjóðarinnar sem fer með málskotsréttinn. Þetta er annaðhvort eða. Það er hárrétt hjá forsetanum að hann tjáir sig ekki um málin meðan þau eru hér á Alþingi. Ekki frekar en við blöndum okkur í það þegar dómstólar fjalla um ágreiningsmál þótt þau varði störf eða lagasetningu á þingi.

Herra forseti. Lítum til aðstæðna í málinu, til þess að í allan júnímánuð gengu allir út frá því að verkefni komandi þings væri að setja lög um kosningarnar, stjórnarandstaðan og meiri hlutinn urðu sammála um það á fundi sínum í júní eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að. Í erindisbréfi starfshópsins fræga er eingöngu rætt um það að móta reglur um kosninguna. Í kvaðningarbréfi til Alþingis um að koma saman til fundar er uppgefið tilefni að setja lög eða reglur og taka ákvarðanir um kosningarnar.

Kúvendingin undarlega síðdegis á sunnudag, á hverju er hún byggð? Hvar eru lögfræðiálitin á bak við hana? Það var enginn starfshópur sem lagði það til, hæstv. utanrrh. Hver er ráðgjöf ríkisstjórnarinnar í sambandi við það mál? Hver er hún? Engin. Það var ekki vitnað í einn einasta lögfræðing, ekki nefnt eitt einasta atriði því til stuðnings að þetta mætti, að þetta væri fær leið. Nei, rökin eru að skelfileg óvissa hafi verið uppi í kringum það að kjósa, óvissa sem ríkisstjórnin sjálf bjó til.

Því miður, herra forseti, blasir við okkur að það er í annarlegum tilgangi sem ríkisstjórnin velur þessa leið. Það er annarlegur tilgangur með því að komast hjá því að þjóðin fái að njóta réttar síns til að kjósa um málið eins og forsetinn hafði ákveðið að gera skyldi. Það er einfaldlega þannig og blasir við okkur. Veruleikinn er sá að eftir mánaðarvinnu hafði ríkisstjórnin ekki fundið girðingar eða þröskulda sem dygðu til að hún legði í kosningarnar, til að nógu miklar líkur væru á að þær ónýttust vegna ósanngjarnra og ranglátra skilyrða. Þá var gefist upp við þá leið og valin önnur. Þetta er það sem kallað væri í minni heimasveit ,,lúalegt``. Það er lúalegt að ætla að hafa svona réttinn af mönnum.

Talandi um þessa óvissu sem hæstv. fjmrh. gerir mikið úr á Varðarfundinum þar sem hann afhjúpar ríkisstjórnina á nöturlegan hátt og Morgunblaðið hjálpar til við að bera tíðindin út í veröldina. Morgunblaðið hefur gott samband við Sjálfstfl. og á stundum tíðindamenn þar á fundum. Frumvarpið er leið til að afstýra þjóðaratkvæðagreiðslu. Nema hvað? Sjálfstfl. þorði ekki í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann ætlaði aldrei í hana. Öll viðbrögð sjálfstæðismanna einkenndust af undanbrögðum og viðleitni til þess að finna leiðir fram hjá henni eða setja þannig reglur um hana að líklegt væri að hún ónýttist.

Það er engin óvissa í því, herra forseti, hvernig á að kjósa samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar önnur en sú sem ríkisstjórnin sjálf hefur reynt að búa til. Það er óhjákvæmilegt að draga þá ályktun af framgöngu ríkisstjórnarinnar að hún reyni viljandi að búa til sem mesta stjórnskipulegu þvælu og steypu úr þessu máli. Hún reynir að kynda upp óvissuna. Hún reynir að telja mönnum trú um að þetta sé allt svo óskaplega erfitt og flókið þegar það er nauðaeinfalt, sáraeinfalt að kjósa um eitt tiltekið mál. Á atkvæðaseðlinum stendur já eða nei. Halda menn að þjóðin ráði ekki við að setja þar krossinn? Hvað er þetta? Það er ekkert flókið í þessu máli og engin óvissa í þessu máli önnur en sú sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson eru að reyna að búa til.

Ég mótmæli róginum um höfunda stjórnarskrárinnar frá 1944. Það er ósæmilegt að menn skuli nú á árinu 2004, í annarlegum pólitískum tilgangi, vega þannig að starfsheiðri þeirra manna sem af bestu samvisku unnu verk sín í aðdraganda stofnunar lýðveldisins. Að Halldór Ásgrímsson, hæstv. utanrrh., skuli tala með þessum hætti um hlutdeild Framsfl. í því á sínum tíma er til skammar. Ég mótmæli því fyrir hönd þeirra heiðursmanna sem voru í stjórnarskrárnefnd, stóðu að afgreiðslu stjórnarskrárinnar og gerðu út um þann ágreining sem vissulega var uppi, en á lýðræðislegan hátt, og luku málinu, greiddu um það atkvæði. Þeir þorðu nefnilega í kosningar. Þeir fluttu brtt. sínar eftir atvikum og kláruðu málið. Það er ekkert vandamál því samfara að fara í slíka kosningu á grundvelli þessara ákvæða, ekki neitt.

Það eru ekki annað en brellur, eins og hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason kallaði það á heimasíðu sinni 3. júní, ekkert annað en lúaleg bellibrögð að fara þessa leið til að hafa kosningarréttinn af mönnum.

Ég veit ekki hvað stendur í þessum pistli núna. Það er víst búið að gera nokkrar tilraunir til að breyta honum, eins og dagsetningunni á pistli Hjálmars Árnasonar. Svo eru menn að gera grín að Norður-Kóreu eða þeim fyrir austan, að þeir reyni að endurskoða söguna. En við horfum á menn endursemja mánaðargamla pistla og skipta um dagsetningar á öðrum fyrir augunum á okkur.

Herra forseti. Það er augljóst hvað ríkisstjórnin ætlar sér. Það er algerlega augljóst hverjum manni og ég trúi því að 95% þjóðarinnar verði með það á hreinu þegar vikunni lýkur, þegar menn hafa fylgst með þessari umræðu og skoðað þessi mál. Ríkisstjórnin ætlar eina ferðina enn að beita meirihlutavaldi sínu af ýtrustu hörku og þjösnaskap og hafa með því af þjóðinni kosningarréttinn. Auk þessa er ætlunin er að setja forseta lýðveldisins í alveg sérstaka klemmu. Það hafa menn líka komið upp um, þökk sé lausmælginni í hæstv. fjmrh. Hann hefur líka talað það af sér. Það er nefnilega ætlunin, að hafa þetta svo þrælslegt til að forsetinn komist í vanda og standi frammi fyrir því að staðfesta og synja sömu lögum, bæði því að fella eldri lögin úr gildi en setja þau inn aftur. Þetta viðurkennir hæstv. fjmrh. í endursögn af þessum fundi.

Þetta er það sem á máli bridsspilara er stundum kallað ,,tvöfaldur gaffall`` og kemur oft fyrir í endaspili. Það er skaði að hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur þar sem hann mun hafa eitthvert smávit á brids. Þetta er tvöfaldur gaffall, þráteflisstaða eða hvað við viljum kalla það. En ég held að brellumeistarar ríkisstjórnarinnar, brellukokkarnir, hafi gleymt einu. Það á eftir að koma á daginn. Forseti lýðveldisins er líka settur í þá stöðu að staðfesti hann hin seinni ólög þá væri hann fyrir sitt leyti líka að taka kosningarréttinn af þjóðinni sem hann hafði fært henni með sinni fyrri ákvörðun. Sjá menn það mjög auðveldlega fyrir sér að forsetinn geri það? Gleymduð þið þessu nokkuð, Geir H. Haarde, hæstv. fjmrh.? Gleymduð þið þessu, hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson? Eða eruð þið virkilega svo heillum horfnir, hæstv. ráðherrar, að þið viljið að þetta mál fari inn í það hryllingssamhengi sem þið eruð að reyna að draga upp fyrir þjóðinni? Er það markmið í sjálfu sér að leika stjórnskipun lýðveldisins svo grátt, að búa til óleysanlega þvælu með því að fara endurtekið til forsetans með lög af þessu tagi og setja hann í vanda gagnvart þeim?

Ég er ekki viss um að vandi forsetans reynist eins mikill og ríkisstjórnin hefur ætlað. Ætli forsetinn haldi sig ekki bara við sína fyrri ákvörðun um að þjóðin eigi að ráða í þessu máli. Þetta er sama málið. Eru miklar líkur til þess að forsetinn verði allt í einu í þannig skapi, hvenær sem þetta nú verður, að hann taki aftur af þjóðinni þann rétt sem hann færði henni 2. júní?

Nú ætla ég engu frekar um þetta að spá og ég ætla ekki að taka efnislega afstöðu til þess hvað forsetinn á að gera í þessu tilviki, frekar en ég gerði í hinni fyrri umræðu. Þetta vald er hjá honum, hann hefur það samkvæmt stjórnarskránni og menn ættu að skammast til að virða það.

[12:45]

Það er þannig. Þjóðin er nýbúin að endurkjósa þennan forseta hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Það verða þeir líka að viðurkenna sem líkar verr og eiga að virða það.

Ég tek undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að sennilega er framganga ríkisstjórnarinnar í þessu máli og einkanlega nú ljótasti bletturinn, svartasti bletturinn á öllum hennar ferli og er þá langt til jafnað. Ef málið er verra en stuðningurinn við Íraksstríðið, framkoman við öryrkja og hernaðurinn gegn landinu þá er langt til jafnað. En í raun og veru er það mín skoðun að svo sé. Fjölmiðlamálið sjálft, það er að segja efni þess, er komið algerlega út á hliðarlínuna borið saman við mikilvægi hins sem hér er að gerast, hvernig menn umgangast stjórnskipun landsins, hvort menn ætla virkilega með brögðum að hafa stjórnarskrárvarinn og helgan kosningarrétt af þjóðinni.

Framsóknarmenn tala um sáttargjörð í þessu tilviki. Við hvern er sú sátt? Hún er ekki við þjóðina. Ég held að það sé alveg ómögulegt að þjóðin upplifi það sem sérstaka sátt að rífa af henni kosningarréttinn. Ég held að það verði ekki þannig. Þetta er ekki sáttargjörð við stjórnarandstöðuna. Það er alveg augljóst mál. Þetta er stríðsyfirlýsing í allar áttir, fyrst og fremst núna gegn þjóðinni. Nú beinist þetta mál að þjóðinni. Nú er það ríkisstjórnin og meiri hluti hennar sem á í styrjöld við þjóðina sem hafði fengið þennan rétt til sín og okkar hlutverk er fyrst og fremst að reyna að vera málsvarar þess og vekja athygli á því sem þarna er að gerast. Ég hef enga trú á því að ætlan ríkisstjórnarinnar að láta þetta mál falla í gleymsku og dá og rykfalla og vera komið til hliðar 2007 gangi eftir. Þetta mál mun ekki gleymast. Það er of stórt til þess. Auk þess bind ég svo innilega vonir við það að hvort tveggja gerist, að stjórnin verði fallin og búið að kjósa löngu áður. Þetta frumvarp gengur ekki upp, herra forseti. Það er stjórnskipulegur óskapnaður. Það hefur í sér fólgna fyrirætlan um að fara á svig við stjórnarskrána og það er sóðaskapur í lagatæknilegu tilliti eins og það er fram sett. Í raun hefur aldrei sést annað eins. Það leyfi ég mér að fullyrða. Ég trúi ekki öðru en menn séu tilbúnir til þess á þingi að endurskoða hug sinn þegar þeir hafa farið betur og rækilegar yfir málið.

Þing var kallað saman til að ákveða um kosningar, um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það liggur fullbúið frumvarp fyrir þessu þingi um hvernig sú kosning geti farið fram með einföldum, skýrum og óumdeildum hætti því enginn getur deilt um það að það sé sanngjörn og almenn venja að einfaldur meiri hluti þeirra sem þátt taka í kosningum ráði úrslitum í máli af þessu tagi. Enginn getur deilt um það. Menn geta rifist um hvort það væri heimilt að setja einhver viðbótarskilyrði. En það er ekki hægt að deila um að í lagi er að gera það ekki. Það er algerlega óumdeilt að það stenst að gera það ekki. Menn geta því eytt allri þessari óvissu, tekið það allt saman út af borðinu og notað hinar einföldu og óumdeildu reglur, virt stjórnarskrána, virt rétt þjóðarinnar og leyft þessu fallega orði, orðinu lýðræði, að njóta sín í reynd.