Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 13:47:50 (9521)

2004-07-21 13:47:50# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að það er munur á þessu tvennu. Þetta eru tveir ólíkir fletir á málinu. Annars vegar sú ákvörðun að fella brott lögin frá því í vor. Það risu vissulega lögfræðileg álitamál um það hvort það væri tækt, m.a. út frá stjórnskipunarrétti. Eins og fram kemur í nál. telur meiri hluti nefndarinnar að það sé í raun engum vafa undirorpið. Meiri hlutinn er algjörlega sannfærður um að það er tækt að stjórnskipunarrétti.

Varðandi síðara atriðið þá hélt ég að það hefði verið skýrt af svari mínu, starfi okkar og þeim samtölum sem við höfum átt, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, m.a. í nefndinni, að í sjálfu sér væri ekki ástæða til þess að færa fyrir því ítarleg rök í nál. hvort tækt hefði verið að setja ný lög um fjölmiðla í þessu frv. Meiri hlutinn er að leggja til að það verði ekki gert.

Ef menn vilja fara nánar út í hin stjórnskipulegu álitamál sem mundu rísa ef menn ákvæðu að fara þá leið þá er ég alveg tilbúinn í þá umræðu líka. Ég er reyndar þeirrar skoðunar sjálfur að það sé tæk leið að stjórnskipunarrétti. Það eru ekki slík álitamál uppi þar að ég mundi leggja til að horfið yrði frá því í sjálfu sér.

En öll umgjörð málsins og sú nálgun sem ríkisstjórnin hafði að málinu þegar það kom fram var að það ætti að skapa sátt með þeirri aðferðafræði. Ástæðan fyrir því að þessi leið er ekki farin er sú að sáttin hefur ekki fengist.