Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 16:41:03 (9554)

2004-07-21 16:41:03# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[16:41]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Ég vísaði ósköp einfaldlega til þess, sem ég held að liggi alveg fyrir, að menn hafa haft hin ,,ýmsustu ummæli``. Menn hafa talað um að stjórnarskráin væri ákaflega óljós. Menn hafa talað um að það muni leiða til meiri háttar stjórnskipulegrar kreppu ef tiltekin ákvæði hennar yrðu virkjuð. Menn hafa talað um að því verki hafi ekki verið lokið, þetta hafi verið allt saman ófrágengið. Menn hafa talað um að menn hafi verið að flýta sér einhver ósköp, menn hafa talað um að mönnum hafi legið svo mikið á á Þingvöll.

Ég tel þetta vera að varpa rýrð á þá vönduðu vinnu sem ég fullyrði að fór þarna fram og var í raun til fyrirmyndar. Menn lögðu verkefnið skýrt niður fyrir sér og luku því sem ljúka þurfti, öllu því sem laut að stofnun lýðveldisins. Ég held því bara fram og ég tel það rétt og skylt að halda uppi heiðri þeirra ágætu manna sem þar véluðu um.