Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 16:49:18 (9561)

2004-07-21 16:49:18# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[16:49]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. hvatti þingmenn sérstaklega til þess að horfa fram hjá tilteknum atriðum í áliti meiri hluta allshn. og gerði þar að umtalsefni einkum tvö atriði. Að sjálfsögðu gera þingmenn það væntanlega upp við sig og aðrir þeir sem lesa álitið hverju þeir horfa fram hjá og til hvers þeir horfa sérstaklega en ég ætla aðeins að koma inn á þessi tvö atriði.

Í fyrsta lagi gerir hv. þm. athugasemd við það að gerð sé tillaga um að lagt verði fram frv. á haustþinginu. Hann tekur sérstaklega fram í því sambandi að málið sé allt saman komið aftur á byrjunarreit. Ég hlýt að mótmæla þessu vegna þess að hér hefur farið fram einhver sú mesta umræða sem farið hefur fram um nokkurt þingmál fyrr eða síðar, um það frv. sem síðar varð að lögum nr. 48/2004. Þegar horft er til þess að við höfum skýrslu fjölmiðlanefndarinnar, hagsmunaaðilar hafa tjáð sig bæði fyrir nefndinni og í fjölmiðlum, fleiri frumvörp hafa komið fram og annað þess háttar getur hv. þm. ekki komist að þeirri niðurstöðu að við séum komin á byrjunarreit.