Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 16:53:19 (9564)

2004-07-21 16:53:19# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[16:53]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég stend að áliti meiri hluta allshn. í þessu máli. Fyrir áliti meiri hlutans gerði formaður allshn., hv. þm. Bjarni Benediktsson, ágæta grein hérna áðan, og fjallaði í framsöguræðu sinni um þá niðurstöðu sem nefndin kemst að. Ég stend jafnframt að þessu áliti, þó að því leyti að ég geri fyrirvara við þá fullyrðingu sem sett er fram í 2. mgr. álitsins. Fullyrðingin er um það að lög nr. 48/2004 samrýmist stjórnarskránni. Með fyrirvara mínum er ég bara að lýsa yfir óbreyttri afstöðu minni til laga nr. 48/2004 sem ég lýsti hér við lokaafgreiðslu þess frv. á vorþinginu.

Vinnulagið í allshn. undir styrkri stjórn formanns, Bjarna Benediktssonar, var þannig flesta dagana sem nefndin sat á fundum að lagt var upp í fullri sátt allra sem sátu í allshn. að menn létu það hafa forgang framan af að við skyldum byrja að skoða hvort sú leið sem lögð var til með frv. ríkisstjórnarinnar í kjölfar synjunar forsetans stæðist stjórnarskrána. Þetta gerðum við meðan beðið var eftir umsögnum um málið frá þeim sem allir í nefndinni voru líka ásáttir um að skyldi óskað eftir umsögnum frá. Í rauninni var þá verið að fjalla um stjórnskipulegar heimildir handhafa ríkisvaldsins við þær aðstæður sem upp komu.

Öllum gestum sem komu á fund nefndarinnar var greint frá því að við ætluðum að hafa það vinnulag að frumvörp bæði ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar væru undir og við værum fyrst og fremst að skoða þetta álitaefni. Ég vil fá að taka það fram að það var mjög góð sátt í þessari vinnu í nefndinni og menn voru mjög samtaka um að reyna að ná fram fróðleik frá þessum gestum okkur, lögfræðingum, bæði málflytjendum og prófessorum sem komu á fund okkar og ýmissa annarra.

Í áliti meiri hlutans er rakið hvernig nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að hún leggur til að fjölmiðlalögin skuli felld úr gildi. Niðurstaðan er í rauninni fengin með því að það sé stjórnskipulegur ágreiningur um það hvort samhliða því að fella lögin úr gildi sé heimilt að setja önnur lög. Meiri hlutinn telur það að vísu heimilt en í ljósi ágreiningsins þykir ekki vert að fara þá leið að setja lögin jafnframt, heldur leggur nefndin til að lögin verði einungis felld úr gildi.

Okkur sem sátum þessa fundi í allshn. er alveg kunnugt um hvað lögfræðinga greindi á um. Ég held að meiri hluta þjóðarinnar sem fylgist með fréttum sé það líka ljóst vegna þess að flestir gestir, eftir að þeir voru búnir að koma á fund allshn., fóru í fjölmiðla og útskýrðu afstöðu sína. Þessir gestir voru bæði lögfræðingar sem höfðu setið í starfshóp ríkisstjórnarinnar sem var skipaður í kjölfar synjunarinnar og átti að taka afstöðu til ýmissa álitaefna varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu, fjórir lögfræðingar þar og málflytjendur, og þetta voru sömuleiðis sjálfstætt starfandi málflytjendur úti í bæ sem höfðu skilað áliti fyrir Samf. og loks voru þetta prófessorar við Háskóla Íslands og jafnframt Háskólann á Bifröst.

Þeir sem gengu lengst í aðra áttina héldu því fram og beittu við það textaskýringu eða orðskýringu og samanburðarskýringu á stjórnarskránni að það væri óheimilt að grípa inn í þennan feril. Þeir færðu fyrir því ágæt rök og fóru að hluta til í gögn, leituðu að löggjafarviljanum og drógu þessa ályktun af umræðum á Alþingi á svipaðan hátt og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur gert hér í dag. Nokkrir aðrir og allir þeir sem höfðu setið í þessum starfshóp fyrir ríkisstjórnina töldu, og með samanburðarskýringum á ákvæðum stjórnarskrárinnar, að það væri ekkert sem bannaði Alþingi að fella niður þessi lög og setja jafnharðan önnur. Svo voru þeir prófessorar þrír sem héldu því fram og færðu fyrir því rök eins og aðrir, vísuðu m.a. til stjórnarskrárinnar og þrískiptingar ríkisvaldsins o.s.frv., að heimilt væri að fella lögin niður. Það sögðu þeir allir þrír, og tveir þeirra tjáðu sig jafnframt um það að þeir teldu að það stæðist ekki stjórnarskipunarlög og þær grunnreglur og hugsun sem stjórnarskráin byggði á og þá þrískiptingu ríkisvaldsins að Alþingi setti jafnharðan önnur.

Prófessor Eiríkur Tómasson færði ágæt rök fyrir sínu máli og hann færði rök fyrir því að það væri vert að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla. Hann sagði m.a. að það væri bein túlkun á orðalagi 26. gr. og hann sagði líka að það væri lýðræðislegasta leiðin. Hann færði mjög haldgóð rök fyrir því að fara hina leiðina, eins og hann kallaði, einungis að fella þessi lög úr gildi. Þau rök sem hann færði fyrir því voru fyrst og fremst þau að sú leið væri til þess fallin að ná einhverri sátt í samfélaginu í kjölfar þeirra miklu deilna sem hafa verið undanfarið, ekki bara um eignarhald á fjölmiðlum heldur líka um grunnreglur stjórnskipulagsins. Sú leið væri til þess fallin, sagði prófessorinn, að auka samheldni með þjóðinni og koma í veg fyrir frekari sundrungu. Það er í rauninni að mínu mati sú leið sem valin er með þeirri brtt. sem meiri hluti allshn. leggur til.

[17:00]

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði áðan orð á því að með þessu væri nefndin að skapa fordæmi og seinna í máli sínu tók hv. þm. sér í munn orðið ,,hefð``. Í mínu mati er það fjarri lagi vegna þess að hv. þm. gagnrýnir það að sama skapi, í ágætlega fróðlegri og sögulegri ræðu, og telur sérkennilegt að meiri hluti allshn. hafi meiningar um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég vísa í almenn orð sem meiri hluti nefndarinnar hefur í nál. sínu um þá endurskoðun. Þar er ekki tiltekið eitt atriði stjórnarskrárinnar umfram önnur.

Ég lít svo á að með því að velja þessa leið í þetta skipti þá séum við að bregðast við sérstökum aðstæðum sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon líkti áðan við jarðskjálfta eða hrinu jarðskjálfta. En það er enginn sem segir að þessa leið eigi að fara ef sagan endurtekur sig. Að mínu mati, herra forseti, hefur jarðskjálftahrinan og allar umræðurnar, að viðbættu því sjónarmiði stjórnarskrárgjafans fyrir 60 árum að það þyrfti að fara í endurskoðun hið fyrsta, þvert á móti verið rök fyrir því að nú verði sest yfir stjórnarskrána og hún öll undir og aðallega þau ákvæði sem ekki var hreyft við á þessum tíma, með það í huga hve stutt er síðan mannréttindaákvæðin voru endurskoðuð.

Þessir atburðir og allar deilurnar hafa einmitt gefið tilefni til að setjast með óbundnar hendur yfir málið. Ég verð að segja fyrir mig, herra forseti, að það kom mér verulega á óvart hve mikið lögfræðinga greindi á um hvaða leiðir væru færar, enda hef ég verið ein þeirra sem haft hafa prófessor Ólaf Jóhannesson að eins konar leiðtoga lífs míns í stjórnskipunarrétti. Á þeim tíma sem ég las þá bók hafði ég þó aldrei í huga að aðstæður sem þessar gætu komið upp, sem nú hafa komið upp í íslenskri pólitík.

Ég tel ekkert sérkennilegt við að meiri hluti allshn. leggi til í nál. og leyfi sér að hafa skoðun á því að þarft sé að þverpólitísk nefnd og þverpólitísk vinna fari í gang við að endurskoða stjórnarskrána. Mér finnst eðlilegt að setja það fram í áliti meiri hluta allshn., að hann bendi á þá þörf. Ég hefði haldið að allir þingmenn sem sátu í hv. allshn. væru sammála um það. Ég ætla ekki að vísa í orð ákveðinna þingmanna, hvernig þeir hugleiddu og hugsuðu upphátt um ákveðna hluti og hvernig væri hægt að túlka, hverju mætti breyta o.s.frv.. En þær umræður fullvissuðu mig enn meira um þörfina fyrir að setjast yfir málið með óbundnar hendur og hafa alla stjórnarskrána undir. Viðhorfið var þetta árið 1944. Allar umræður síðustu vikur og ágreiningurinn sýnir enn frekar að þörf er á því að fara þessa leið.

Varðandi þá leið sem varð ofan á við þessar sérstöku aðstæður, við þær jarðskjálftaaðstæður, þá get ég tekið undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði. Hans einkunn var sú að þetta væri skynsamlegasta leiðin. Þar sem ég lít á þetta sem sérstakar aðstæður, ekki fordæmi eða það að við séum að skapa hefð, þá vil ég gera þau orð að mínum.

Varðandi fjölmiðlanefndina þá veit ég ekki betur en það sé þegar frágengið að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á þingi fái aðild að þeirri nefnd. Ég hef heyrt því fleygt í ræðustól að reka eigi á eftir þessari vinnu og gefið til kynna að það eigi að verða eitthvert óðagot. Ég er alveg ósammála því. Enginn hefur sagt að frv. eigi að leggja fram áður en þing kemur saman í haust. Þvert á móti segir í nál. að meiri hlutinn mælist til eða mæli með því að nýtt frv. í þá veru verði undirbúið og lagt fram á haustþingi. Það stendur fram að jólum og þetta eru nú ekki annað en tilmæli. Svo hefði ég haldið að nefndin réði svolítið gangi mála.

Ég hef einnig staðið í þeirri trú að fjölmiðlanefndin tæki ekki bara afstöðu til eignarhalds á fjölmiðlum heldur væri henni ætlað að kafa ofan í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar fyrri, skoða málið vítt og breitt og koma vonandi með þverpóltíska línu í þessu máli. Ég ætla ekki að egna þingmenn með því sem þeir hafa einhvern tíma sagt, yfirlýsingum þeirra varðandi eignarhald á fjölmiðlum. Ég sé enga ástæðu til þess. Við erum komin að ákveðnum lokapunkti í þessari löngu umræðu og einnig á ákveðinn byrjunarreit aftur. Mér finnst við eigum að sameinast um þá sýn á þetta mál að við stöndum í þeim sporum núna.

Herra forseti. Mér varð það ljóst áðan þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson flutti ræðu sína sem framsögumaður minni hluta allshn. að ég tók ekki eftir honum á ágætum fundi hjá Framsóknarfélaginu í Reykjavík. Hv. þm. fjallaði um þann fund eins og hann hefði verið meðal fundarmanna og var á honum að heyra að hann gæti allt að því farið orðrétt með það sem þar fór fram. (Gripið fram í.) En ég held að mér hafi ekki yfirsést hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Það leynir sér sjaldnast hvar Össur er og hvert hann fer, jafnvel þótt þetta hafi verið fjölmennur fundur. Ég ætla að fá að leiðrétta orð Össurar og benda á að Framsóknarfélagið í Reykv. s. boðaði til fundar með einum framsögumanni, sem var Eiríkur Tómasson prófessor. Eiríkur var með fræðilega framsögu og velti í ræðu sinni upp þessum tveimur leiðum, annars vegar kostum og göllum þess að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu og hins vegar kostum og göllum þess að fella einungis fjölmiðlalögin niður.

Ég tók afstöðu til þessara tveggja leiða. Ég sagði jafnframt að ef ég ætti að velja á milli þessara tveggja leiða hugnaðist mér betur sú að fella lögin úr gildi vegna þess að hún leiddi til sátta en ekki aukinnar sundrungar í samfélaginu. Ég vona, herra forseti, að ég hafi með þessum orðum leiðrétt þessi atriði. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson leiðréttir mig hins vegar ef hann var á þessum fundi, ef ég tók ekki eftir honum og hann telur sig geta farið orðrétt með það sem ég sagði.