Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:46:50 (9578)

2004-07-21 17:46:50# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:46]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég kom að í ræðu minni var það algjörlega ljóst af umfjöllun allshn. um málið að 26. gr. er mjög ófullkomin, ófullburða og um hana þarf að fjalla og setja reglur um hvernig henni skuli beitt.

Ég er ekki sammála því að einhver réttur til þjóðaratkvæðagreiðslu hafi verið hafður af þjóðinni. Ég vísa m.a. í orð hv. þm. Jónínu Bjartmarz, ég held að hún hafi skýrt það mjög vel hér áðan. Þarna er um borgaralegan rétt að ræða sem menn voru almennt sammála um sem komu á fund allshn., lögspekingar, (Gripið fram í.) með örfáum undantekningum, (Gripið fram í.) að þarna væri ekki um neitt brot á mannréttindum að ræða, þessi réttur væri ekki til staðar.