Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 11:03:34 (9634)

2004-07-22 11:03:34# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[11:03]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Eftir að ákvörðun forseta Íslands lá fyrir þann 2. júní sl. var það verkefni okkar á Alþingi að sjá til þess að málskotsrétturinn til Íslendinga væri virtur. Til þessa framhaldsþings var boðað svo setja mætti einföld og skýr lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar um fjölmiðlalögin.

Í umræðum í gær var vikið að því hvert vald forseta væri og hvernig það ætti að framkvæmast. Ég vil fara um það nokkrum orðum.

Að mínu viti á ekki að hefja samningaviðræður við forseta Íslands um það hvort forseti hafi efasemdir um mál sem Alþingi fjallar um eða ef málið er umdeilt og vafi gæti leikið á því að það yrði samþykkt af forsetanum. Ef þetta yrði gert væri forsetinn orðinn virkur í pólitík í mörgum málum. Ég tel að þannig eigi ekki að standa að málum. Ég vil ekki að störf og staða forseta Íslands verði þannig í framtíðinni að hann verði beinlínis tengdur inn í mál á Alþingi með sérstökum viðræðum um einstök mál.

Ég vil hins vegar mjög eindregið verja málskotsréttinn til fólksins í landinu í einstökum umdeildum málum og að þeim geti verið vísað til lokaákvörðunar til samþykkis eða synjunar með þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel að þegar við förum í endurskoðun stjórnarskrárinnar eigum við m.a. að líta sérstaklega til þess að málskotsrétturinn til þjóðarinnar í stjórnarskrá lýðveldisins verði efldur. Það eigi sem sagt að vísa til þjóðarinnar málum ef svo ber undir að þau reynast vera mjög umdeild í þjóðfélaginu. Ég nefndi í gær í andsvari nokkur mál á síðustu áratugum sem ég taldi að hefðu vel getað átt erindi til þjóðarinnar, þ.e. að þjóðin hefði fengið að segja meiningu sína um þau.

Ég get alveg endurtekið þau mál sem næst eru í okkar tíð. Það er t.d. Kárahnjúkamálið, það er EES-málið, framsal kvótans á sínum tíma þegar það var gefið alfrjálst, sem ég tel að hafi haft mjög afgerandi áhrif á stöðu fólksins í landinu og þróun byggðar og atvinnuhátta. Ég hef reyndar oft sagt það í þessum ræðustól að ég sæi alls ekki hvernig menn ætluðu að vera með virka byggðastefnu og horfa til þess að halda landinu í byggð þegar menn hefðu enga stýringu á þeim atvinnuvegi sem væri höfuðatvinnuvegur landsbyggðarinnar að þessu leyti, menn gætu bara alls ekki séð það fyrir hvar atvinnurétturinn í aflaheimildunum væri frá einu ári til annars eða frá mánuði til mánaðar vegna þess að menn hefðu öðlast þennan algjörlega frjálsa framsalsrétt þegar hann var settur í lögin um stjórn fiskveiða.

Um þetta hafa staðið miklar deilur árum saman í þjóðfélaginu og ég er á þeirri skoðun að þetta hefði verið eitt af þeim málum sem við hefðum þurft að vísa til þjóðarinnar og taka afstöðu til, hvort þjóðin vildi að þessir atvinnuhættir þjóðarinnar, sem er undirstaða margra byggða úti um land, væru með þeim hætti að ekki væri fyrirsjáanlegt frá mánuði til mánaðar hvernig atvinnulíf einstakra byggða mundi þróast.

Hæstv. forseti. Þegar við veltum fyrir okkur málskotsréttinum til þjóðarinnar þá tel ég að hugsa megi hann með ýmsum hætti. Það má velta fyrir sér fyrirkomulagi um að ákveðinn fjöldi þingmanna geti skotið máli til þjóðarinnar, það má velta fyrir sér fyrirkomulagi um að ákveðinn hluti kosningarbærra manna geti krafist þess að mál gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir fram ætla ég ekki að negla niður neina eina lausn í því. Ég segi bara almennt, eins og varð reyndar niðurstaða okkar á sameiginlegum fundi miðstjórnar og þingflokks Frjálsl. nýverið.

Þar sögðum við á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Við lítum svo á að þátttaka almennings í lýðræðislegri ákvarðanatöku um sérstök og umdeild mál sé jákvæður þáttur í þróun lýðræðis hér á landi og við teljum æskilegt að lýðræði fjöldans verði gert virkara í framtíðinni en verið hefur.``

Þetta held ég að sé meginmálið í því er snýr að málskotsréttinum til þjóðarinnar, að í þjóðfélaginu fái að þróast sú hefð og því verði fundinn öruggur og markviss farvegur að umdeild mál geti gengið til þjóðarinnar. Þá hvílir auðvitað á okkur sú skylda að hafa skýrar reglur þegar slíkt kemur upp og við því þarf að verða að mál gangi til þjóðarinnar.

Ég tel reyndar að 26. gr. í stjórnarskránni sé ákaflega skýr að þessu leyti og að einfaldlega hefði átt, eins og við lögðum til í stjórnarandstöðunni, að vísa málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu með einföldum og skýrum reglum þar sem meiri hluti þeirra manna sem tekur þátt í atkvæðagreiðslunni ræður för, alveg eins og þegar kosið er til Alþingis eða þegar kosinn er forseti Íslands, sem er hin almenna regla við afgreiðslu umdeildra mála, a.m.k. eins og ég þekki til í langflestum félagasamtökum sem ég hef starfað í um ævina. Þar hefur iðulega verið gripið til þess að afgreiða málin með atkvæðagreiðslu.

Ég get af þessu tilefni minnt á mál þegar lögum um stéttarfélög og vinnudeilur var breytt fyrir ekki svo mjög löngu síðan, þar sem vald trúnaðarmannaráðanna sem sneri að því að ákveða að beita verkfallsréttinum var tekið af, og þess krafist að fjöldinn tæki þá ákvörðun. Þar vorum við að færa lýðræðið til fjöldans og það var að kröfu þeirra sömu stjórnvalda held ég og nú sitja. Þar var verið að taka ákvörðun í umdeildu máli, sem er auðvitað umdeilt þegar menn fara í verkfallsátök, og færa það úr hendi trúnaðarráðanna til fólksins í verkalýðsfélögunum og tekið fram hvernig þær atkvæðagreiðslur ættu að fara fram, póstatkvæðagreiðslur o.s.frv.

Hvers vegna var það gert? Jú, menn töldu það of mikið lagt á fámennið í trúnaðarmannaráðunum að fá að hafa þetta vald og eðlilegra væri að spyrja alla félaga í viðkomandi verkalýðsfélagi. Með sama hætti finnst mér alveg eðlilegt að við spyrjum þjóðina. Ég átta mig ekki á þeirri andstöðu sem núverandi stjórnarmeirihluti hefur að því leyti til að leggjast gegn því að spyrja þjóðina.

Í þessu sambandi vil ég benda á ágæta grein sem formaður Vélstjórafélags Íslands, Helgi Laxdal, ritaði í Fiskifréttir nýverið undir liðnum Skoðun, þar sem hann gerir grein fyrir því máli sem ég vakti máls á. Ég held að það eigi fullt erindi til stjórnarliða sérstaklega að lesa þá grein.

Meginmálið í þessari umræðu allri er að tekin hefur verið ákvörðun um það af forustumönnum ríkisstjórnarinnar, með samþykki ráðherranna allra og þingmanna í ríkisstjórnarflokkunum, að fara fram með þeim hætti að þjóðin fái ekki að fylgja eftir þeim rétti sem henni er markaður í 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Þar segir, með leyfi forseta:

,,Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu.``

Að lokum vil ég segja þetta, hæstv. forseti. Ég tel að stjórnarskráin eigi að vera leiðarljós okkar og að stjórnarskráin að þessu leyti eigi að njóta vafans. Þess vegna varð það sameiginleg niðurstaða okkar í stjórnarandstöðunni að þannig skyldi þessu máli lokið í hv. Alþingi, að setja skýrar og afmarkaðar reglur um hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan skyldi fara fram og þjóðin fengi að segja álit sitt á þessu máli.

Það verður hins vegar að segjast eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst að á hverju stigi þessa máls hafi stjórnarflokkarnir valið ófriðinn fram yfir friðsamlega lausn. Ég held ég hafi gert nokkuð góða grein fyrir því í gærdag í ræðu minni hvernig sá ófriður hófst og ætla ekki að endurtaka það nú. En ef forusta stjórnarflokkanna hefði hlustað á stjórnarandstöðuna í upphafi og boðið upp á raunverulegt samstarf, eins og stjórnarandstaðan var tilbúin í, og hlustað á varnaðarorð sérfræðinga, m.a. um stjórnskipan landsins, hefði málið vafalaust getað farið í miklu friðsamlegri farveg en það hefur farið í því 100 daga stríði sem hér hefur átt sér stað með öllum þeim tilheyrandi kostnaði og breytingum á högum fólks sem starfar fyrir okkur hér í hv. Alþingi, sem og hjá fjölskyldum okkar sem hafa sumar hverjar verið að taka sér frí og skipuleggja sumarfrí. Þó að við alþingismenn getum auðvitað mætt hér hvenær sem er til vinnu og gerum það að sjálfsögðu, þá eru fleiri sem starfa í kringum okkur og okkur ber auðvitað að taka tillit til þess.

Ég hef aldrei talið eftir mér að sinna þeim störfum sem ég hef verið kosinn til um ævina og mun ekki sjá eftir þessum dögum, þeir eru mjög lærdómsríkir. Ég held að ég hafi aldrei fengið meiri skólabókarkennslu í lögfræði og umfjöllun um umdeilt mál en við höfum fengið í allshn. Það var mjög fróðlegt að vera þar, og ég held að þjóðin öll hafi fengið þó nokkra fræðslu um það hvernig ekki á að standa að málum miðað við þá málsmeðferð sem hér hefur átt sér stað.