Birting efnis úr stefnuræðu forsætisráðherra

Miðvikudaginn 01. október 2003, kl. 16:02:36 (8)

2003-10-01 16:02:36# 130. lþ. 1.95 fundur 36#B birting efnis úr stefnuræðu forsætisráðherra#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 1. fundur, 130. lþ.

[16:02]

Forseti (Halldór Blöndal):

Áður en gengið er til dagskrár þykir mér rétt að lesa bréf sem mér hefur borist sem forseta Alþingis, dags. í dag, 1. október 2003, í Reykjavík, frá forsrh.:

,,Í fréttum Stöðvar 2 var upplýst að fréttastofa fyrirtækisins hefði fengið senda stefnuræðu forsætisráðherra. Bar skjalið með sér að vera trúnaðarmál, svo sem lögboðið er samkvæmt 73. gr. þingskapa, þar til ræðan hefur verið flutt á Alþingi. Birti fréttastofan marga kafla úr ræðunni. Ekki var um að ræða að fréttastofan hefði fengið upplýsingar um eitthvað misjafnt sem yfirvöld vildu fela og því hefði almenningur ríka hagsmuni af því að trúnaðurinn væri rofinn. Þótt fréttastofan hafi þannig hegðað sér með ósæmilegum hætti er framganga ónafngreinds þingmanns alvarlegri. Ljóst er að fréttamaður Stöðvar 2 hefur leitað eftir upplýsingum úr ræðunni hjá nokkrum þingmönnum og að einn þeirra hefur boðist til að láta hann hafa ræðuna. Þeir þingmenn sem fréttamaðurinn leitaði til um trúnaðarbrot hljóta hver um sig að vera hugsandi yfir hvers vegna fréttamaðurinn teldi þá líklegri en aðra til að brjóta trúnað. Sá þingmaður sem trúnaðinn braut lætur slíkan grun hins vegar liggja yfir starfssystkinum sínum. Það er alvarlegt.

Það er einnig umhugsunarefni að eftir framgöngu viðkomandi þingmanns hefur viðkomandi fréttastofa sérstakt tak á þingmanninum um langa framtíð. Því miður er nauðsynlegt að gera breytingu á þingsköpum vegna þessa atviks, t.d. í þá veru að forsætisráðherra flytji stefnuræðu sína án þess að gefa þingmönnum færi á að sjá hana áður, sú regla mun algengust annars staðar, ellegar að þeim þingmönnum, sem ákveðnir hafa verið sem ræðumenn annarra flokka, verði send ræðan innan hins lögboðna fyrirvara.

Davíð Oddsson.``