Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 11:17:51 (41)

2003-10-03 11:17:51# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[11:17]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrra atriðinu sem þingmaðurinn nefndi þá er það náttúrlega staðreynd að lyfjakostnaður hins opinbera hefur stórhækkað ár frá ári í mörg ár. Það er ekkert óeðlilegt við að við leitum allra leiða til að draga úr þeirri aukningu. Sumpart er hún eðlileg, það eru að koma alls kyns ný og bætt lyf, dýr lyf, á markaðinn. Við fögnum því að geta veitt sjúklingum betri þjónustu. En það er ekkert óeðlilegt við að leita allra leiða til að gera þetta með eins hagkvæmum hætti og kostur er, eins og heilbrigðisráðherra er að leitast við að gera. Það mun koma fram í tillögum hans og eru áreiðanlega ýmsar leiðir færar í því efni. Ég vona að þingmaðurinn sé ekki á móti því að leita sparnaðar í lyfjakostnaði.

Hvað varðar Landssímann þá hafa stjórnarflokkarnir haft það á stefnuskrá sinni, og höfðu það allt síðasta kjörtímabil, að selja það fyrirtæki. Það mál var ekki afgreitt á síðasta kjörtímabili en í kosningunum sem fram fóru í maí sl. lá fyrir að þetta væri stefna stjórnarflokkanna. Ég tek meira mark á þeim kosningum heldur en könnuninni sem hv. þm. vitnaði til. Við munum reyna að koma því þannig fyrir að almenningur fái til baka það fjármagn og verðmæti sem hann á í Landssímanum og sem þar hafa verið bundin um langa hríð. Um það snýst þetta mál. Við getum tekið þá peninga, þá tugi milljarða, og sett það fjármagn í verkefni í þágu eigenda fjármagnsins, almennings á Íslandi. Um það snýst þetta mál og við erum að vonast til að það verði hægt að selja þetta fyrirtæki með viðunandi hætti á kjörtímabilinu. Vonandi verður það fyrr en síðar.