Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 13:49:44 (64)

2003-10-03 13:49:44# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get nú alveg skilið það að hv. þm. hafi saknað ýmislegs úr ræðu minni. Ég er vanur að halda hérna töluverða ræðu, halda passus hérna um launamál ríkisstarfsmanna. Ég sleppti því núna, ég býst við að menn séu leiðir yfir því að fá ekki að heyra það. En ég gerði það af ásettu ráði svona til tilbreytingar.

Öll ríki Evrópu eru að fást við sama vandamálið: hvernig eigi að koma í veg fyrir að kostnaðurinn við heilbrigðismál gleypi alla möguleika á tekjum ríkisins, hvernig eigi að koma í veg fyrir að kostnaðurinn við heilbrigðismál taki alla peningana frá ríkinu þannig að við getum ekki aukið framlögin, t.d. í skólamálum, menntamálum, sem allir gera sér grein fyrir að eiga að vera forgangsverkefni.

Menn hafa reynt mjög margar leiðir í þessu sambandi og ýmsir hafa náð þó nokkrum árangri. Ég hef áður bent íslenskri stjórnarandstöðu á þann ágæta stjórnmálamann og þann mjög svo vinstri sinnaða krata, Jospin, fyrrverandi forsætisráðherra Frakka. Hann lagði mjög mikið upp úr því að reyna að ná tökum á heilbrigðismálunum. Hann gerði það undir því formerki að það ættu alltaf að fara saman völd og ábyrgð. Það hefur enginn stjórnmálamaður gengið lengra í Evrópu í að setja heilbrigðismálin í einkarekstur. Það hefur engin þjóð gengið eins langt.

Og hver var niðurstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Alþjóðabankans, við einkunnagjöf um stöðu heilbrigðismála? Var það Ísland sem fékk fyrsta sætið, Ísland, sem eyddi mestum peningunum, yngsta þjóðin? Nei, það voru Frakkar. Þeir voru taldir gera það best, svo ég segi, herra forseti, þingmanninum eitthvað til upplýsingar. En það eru mjög margar aðrar leiðir og við eigum að skoða allar leiðir.