Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:14:16 (72)

2003-10-03 14:14:16# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti mikil ánægja að heyra félaga minn, bæði hér á Alþingi og í borgarstjórn, hv. alþingismann Helga Hjörvar, hafa áhyggjur af unga fólkinu í húsnæðiskaupum. Það er málaflokkur og mál sem ég hef vakið athygli á í borgarstjórn, held ég núna í hátt í fimm ár, því að enginn, ekkert stjórnmálaafl, ber meiri ábyrgð á því að það fólk sem er í húsnæðiskaupum er í ákveðnum vandræðum og hefur komið sér í vandræði en Samfylkingin. Ekkert stjórnmálaafl ber meiri ábyrgð á því að hækka húsnæðisverð en sá flokkur út af lóðaskortsstefnu hér í Reykjavíkurborg. Að heyra þennan ágæta þingmann, hv. þingmann, koma hér upp og hafa áhyggjur af þessum hópi er eitt og sér bara hið besta mál.

Það er samt ótrúlegt að fulltrúar Samfylkingarinnar komi í löngum röðum og tali um að hér séu ekki neinar efndir í skattamálum. Hér er vitnað í að við ungu þingmennirnir, ungu sjálfstæðismennirnir sem hér erum komnir, séum í einhverjum vandræðum. Þetta er alveg ótrúlegur málflutningur. Ég verð að segja eins og er, að koma hér og taka þátt í því í ríkisstjórnarmeirihluta, að vera hér með í liði sem er að fara í langmestu skattalækkanir í sögunni er ekki einungis góð byrjun, það er frábær byrjun. (ÁRJ: Er það ekki ...?) Og allt það sem við lögðum áherslu á hér í kosningabaráttunni, allt, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, kemur fram og mun koma fram á þessu kjörtímabili í skattamálum, hvort sem það er lækkun í prósentum á tekjuskattinum, sem er algjör nauðsyn --- og við höfum alltaf tekið baráttu við aðila eins og þann ágæta hv. þm. sem ég ræddi hér við áðan, alltaf, hvort sem það er matarskatturinn eða annað. Ég vísa þessum málflutningi algjörlega til föðurhúsanna.