Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:25:20 (77)

2003-10-03 14:25:20# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:25]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Víst var þetta fallega meint af hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, þessi ábending til nýja þingmannsins um það hvað rétt væri og skynsamlegt í þessu.

En það var bara í grundvallaratriðum rangt, hv. þingmaður, vegna þess að staðreyndin er einfaldlega sú að yfir lengri tíma á Vesturlöndum og í iðnríkjum vex kaupmáttur. Það er einfaldlega langtímatilhneigingin. Og ef sú pólitíska ákvörðun er tekin að persónuafsláttur, lífeyrisgreiðslur almannatrygginga, atvinnuleysisbætur og aðrir slíkir þættir fylgi aðeins verðlagsbreytingum en ekki kaupmáttarþróun vex jafnt og þétt ár frá ári bilið milli ríkra og snauðra. Og þá eftir allt of langa valdasetu afla sem þannig stjórna, leiðir það á endanum til þess að fólk á atvinnuleysisbótum og fólk á örorkulífeyri þarf að sækja sér daglegt brauð til hjálparstofnana kirkjunnar og annarra slíkra aðila.

Þess vegna verður kaupmáttur þessara hópa í persónuafslætti og í bótum til lengri tíma litið, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, að fylgja kaupmáttarþróun.