Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 15:58:08 (102)

2003-10-03 15:58:08# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Mörður Árnason:

Hæstv. forseti. Ég er hér kominn til að bera undir hæstv. fjmrh. stöðu Ríkisútvarpsins sem um er fjallað í greinargerð fjárlagafrv. í kaflanum um fjárreiður ríkisfyrirtækja í B-hluta. Í afar stuttu máli er í þeirri umfjöllun sú frétt ein að ríkisstjórnin virðist ekki ætla að aðhafast í margvíslegum vanda Ríkisútvarpsins. Enn er gert ráð fyrir halla á rekstrinum, um 155 millj. kr. í þetta skiptið, en sá halli er í rauninni meiri því að auki kemur svokallað lán úr ríkissjóði til að endurnýja og bæta tæki og búnað, 200 millj. Mínusinn árið 2004 er í raun 355 millj., næstum helmingi meira en hallinn sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs, 188 millj.

Það er greinilega ekki gert ráð fyrir neinum öðrum auknum tekjum fyrir tilstilli almannavaldsins, með hækkun afnotagjalda eða öðrum hætti. Ekkert er heldur að sjá um Ríkisútvarpið í stjórnarsáttmála, nýfluttri stefnuræðu eða þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.

[16:00]

Halli á Ríkisútvarpinu hefur auðvitað áhrif á eiginfjárstöðu þess og það er einmitt fróðlegt að skoða nú með hæstv. fjmrh. eiginfjárstöðu Ríkisútvarpsins síðustu árin. Þróun hennar ber ágætan vott um hug og sinnu ríkisstjórnarinnar til þessa óskabarns sem eitt sinn var hjá þjóð og þingi. Þar hefur sífellt sigið á ógæfuhlið frá miðjum síðasta áratug. Fyrir sex árum, árið 1997, var eiginfjárstaða fyrirtækisins 36,4%, 1998 27,4%, 1999 21,1%, 2000 20,1%, 2001 aðeins 12,5% og árið 2002 enn niður, í 9,4%. Á þessum tíma hefur talan lækkað úr 36% í 9% og mér sýnist að aukinn halli í ár, 2003, og síðan árið 2004, samkvæmt frv., gæti þrýst eiginfjárstöðunni niður í 6--7%. Það þarf ekki mikla viðskiptafræði til að sjá að venjulegt fyrirtæki með þessa eiginfjárstöðu væri í verulegum vanda og stjórnendur þess og eigendur sætu nú á rökstólum undir þrýstingi frá bankanum sínum og öðrum skuldunautum.

Óhjákvæmilegt er, hæstv. forseti, að setja þessa þróun í samhengi við það að í öll þau tólf ár sem Sjálfstfl. hefur ráðið menntmrn., forsrn. og fjmrn., allan þennan tíma hefur Ríkisútvarpið verið í pólitískri pattstöðu. Stjórnarflokkarnir hafa verið ósammála um hvaða hlutverki Ríkisútvarpið eigi að gegna og hvað úr því skuli verða á nýjum tímum í fjölmiðlun og samfélagi. Það hefur svo ekki hjálpað til að innan Sjálfstfl. er hver höndin upp á móti annarri um Ríkisútvarpið, allt frá einstrengingslegum nýlíberalistum yfir í hægfara, þjóðlega íhaldsmenn, og sitja fulltrúar beggja þessara arma hér í salnum. Á meðan drabbast útvarpið niður.

Þessi pólitíska pattstaða hefur síðan skaðleg áhrif á skipulag og stjórnun Ríkisútvarpsins. Henni hefur fylgt óheppilegur stjórnunarstíll og hættuleg pólitísk slagsíða. Þetta ástand hefur líka áhrif á íslenska fjölmiðlun í heild. Ríkisútvarpinu er att í grimmilega samkeppni á auglýsingamarkaði og aðrar stöðvar, sem ekki eiga ríkisvaldið að bakhjarli, berjast í bökkum og kvarta auðvitað yfir sérkennilegri samkeppnisstöðu. Um það allt saman þarf að taka góða umræðu síðar á þinginu að viðstöddum hæstv. menntmrh., helst bæði fráfarandi og tilvonandi.

Samkvæmt fjárlagafrv. er dagskráin á RÚV árið 2004 aukinn halli og meiri rýrnun eigin fjár. Þó á hæstv. fjmrh. að vera fullkunnugt um þessa stöðu og þarf ekki nema að minna á úttekt sérstakrar nefndar um vanda Ríkisútvarpsins frá síðari hluta ársins 2001. Í því áliti tæknimanna frá fjmrn., menntmrn. og Ríkisendurskoðun er stöðu fyrirtækisins lýst nöturlega og bent á að þar þurfi pólitískar stefnuákvarðanir, skipulagslegar og rekstrarlegar breytingar og traustan fjárhagsgrundvöll. Í þessari skýrslu er að sjálfsögðu bent á lykilmál sem menn ættu að geta sameinast um að leysa hvað sem líður áliti á hlutverki og starfsháttum Ríkisútvarpsins í framtíðinni, nefnilega að losa fyrirtækið undan þungum klyfjum lífeyrisskuldindinga sem á það voru lagðar árið 1994 og komu margnefndri eiginfjárstöðu á sínum tíma úr um 88% í um 35% og núna 9%.

Menn kusu að gleyma því í ríkisstjórninni að Ríkisútvarpið getur ekki, eins og hefðbundnar ríkisstofnanir, sótt sér framlög af fjárlögum til að eiga við þessi nýju útgjöld, einmitt vegna þess að fyrirtækið er ekki fjármagnað af fjárlögum heldur með afnotagjöldum, sem hefur reynst erfitt að tengja rekstrarkostnaði eða verðþróun, og með tekjum af auglýsingum og kostun. Lífeyrisskuldbindingarnar lögðust því á fyrirtækið af fullum þunga. Árleg greiðsla af láni vegna þeirra er nú um 200 milljónir og stendur næstu 20 ár ef ekkert er að gert. Þessi árlega greiðsla er því meiri en nemur áætluðum halla í frv. nú, þ.e. hinum hreina halla að láninu frátöldu.

Þetta höfðu forustumenn útvarpsins og starfsmenn bent á áður. En það sem gerðist þarna var að skipuð var í framhaldi af skýrslunni sérstök tveggja manna ráðherranefnd í þeirri ríkisstjórn sem þá sat. Þeir hæstv. ráðherrar sitja enn í þessari ríkisstjórn þótt annar þeirra hafi nú skipt um ráðuneyti.

Ég vona að hæstv. fjmrh. geti upplýst okkur í fjarveru þessara tveggja ráðherra hvað sé að frétta af störfum þessarar háu nefndar núverandi dóms- og kirkjumrh. og heilbrrh. Vonandi getur hæstv. fjmrh. líka sagt fréttir af því hvernig gengur að létta lífeyrisskuldbindingunum af Ríkisútvarpinu eða hvort það er á stefnuskránni yfir höfuð.

Ég bið hann líka, hæstv. forseti, að segja til um það hvort það er rétt ályktun hjá mér, eftir að hafa athugað fjárlagafrv. og önnur nýleg stjórnarplögg, að ekki séu fyrirhugaðar neins konar úrbætur á fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins næsta ár og næstu ár til 2007.

Ég fer líka fram á að hæstv. fjmrh. upplýsi um hverja hann telur heppilega eiginfjárstöðu þessa ríkisfyrirtækis. Ef svo heldur fram sem horfir verður eiginfjárstaða Ríkisútvarpsins orðin neikvæð í lok kjörtímabilsins, ef það stendur sín fjögur ár, en var um 90% áramótin áður en ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hóf störf sín vorið 1995. Felst í þessu pólitísk stefna fjmrh. gagnvart ríkisfyrirtækjum eða er Ríkisútvarpið í þvílíkri hugmyndafræðilegri gíslingu í ríkisstjórninni að ekki er einu sinni hægt að ganga í skynsamlegar og sanngjarnar aðgerðir gagnvart hinum erfiðu lífeyrisskuldbindingum frá 1994?