Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:25:15 (118)

2003-10-03 17:25:15# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:25]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega ósammála ályktun þingmannsins um að í svari mínu hafi falist það að ég væri hugmyndafræðilega sammála markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu. Ég er ekki sammála markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu. Ég er andvígur því í meginatriðum. Ég hef ekki séð annað en að markaðsvæðing á slíku sviði leiði af sér aukinn kostanð. Ég hef ekki séð að það leiði af sér aukin afköst í samræmi við aukinn kostnað. Þvert á móti óttast ég að fari menn þá leið í ríkara mæli en menn hafa gert til þessa, að grípa til einkavæðingar, sé það ekki mikið gæfuspor fyrir Íslendinga.

Mér finnst að menn hafi talað mjög gáleysislega hér um íslenska heilbrigðiskerfið. Ég heyrði einn hv. þm., Einar Odd Kristjánsson, segja að kostnaðurinn við það væri sá mesti í heimi. Það er bara algjörlega ósatt. Íslenska heilbrigðiskerfið er alveg frábærlega gott, það er eitt það allra besta í heiminum, og kostnaðurinn við kerfið er ekki mikill ef við berum okkur saman við önnur kerfi sem eru góð, jafngóð eða betri en okkar. Við skulum bera okkur saman við bandaríska kerfið sem er nærri tvisvar sinnum dýrara miðað við verga landsframleiðslu heldur en það íslenska. Skyldu ekki gæðin þar vera eitthvað lakari fyrir almenning í Bandaríkjunum en það er fyrir almenning á Íslandi? (Gripið fram í.) Ég held að það væri mikil ógæfa ef við færum að tileinka okkur bandarískar aðferðir í heilbrigðiskerfinu íslenska. Það dæmi segir okkur, ef marka má reynslu þeirra, að kostnaðurinn mun aukast mikið en þjónustan og gæðin ekki að sama skapi. (JBjarn: Samþykkti þinn flokkur ...?)