Hugsanleg aðild Noregs að ESB

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:04:51 (145)

2003-10-06 15:04:51# 130. lþ. 4.1 fundur 45#B hugsanleg aðild Noregs að ESB# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. að Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, slær nokkra varnagla. En það er alveg ljóst þegar maður skoðar afstöðu hans eins og hún hefur verið að þróast frá því í vor að hann er greinilega að flytja sig frá því að vera harður andstæðingur ESB-aðildar yfir í það að styðja hana. Og menn tala um það í Noregi, túlka þessi ummæli hans þannig, m.a. aðrir stjórnmálamenn, að það sé mjög líklegt að hann verði áður en kemur til kosninga í Noregi búinn að skipta um skoðun. Og það er ekkert að því. Það er engin goðgá þó að menn skipti um skoðun í þessu. Það hefur hæstv. forsrh. gert. Hann var þeirrar skoðunar þegar hann var formaður aldamótanefndar Sjálfstfl. 1989 að það væri raunhæfur möguleiki að sækja um, menn yrðu bara að ganga að því kláru að þau skilyrði sem kynnu að verða sett af hálfu sambandsins væru þannig að þegar á hólminn væri komið væru þau óaðgengileg. Hann sagði reyndar sjálfur í viðtali við góðkunnan fræðimann, dr. Hannes Hólmstein Gissurarson, 1990 að hann teldi að það ætti að sækja um þá. Ég er samt ekki að óska eftir því að hæstv. forsrh. skipti um skoðun. En telur hann í tilefni af því að nú er hann að setja upp aldamótanefnd að þetta sé eitt af því sem komi til greina að ræða í þeirri nefnd?