Sjókvíaeldi

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:32:17 (166)

2003-10-06 15:32:17# 130. lþ. 4.1 fundur 49#B sjókvíaeldi# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Laxeldið sem nú hefur verið sett í firði við Ísland er varðað mjög ströngum lögum hér frá Alþingi sjálfu. Ég hef fylgt því eftir með reglugerðum og við höfum sett upp ströngustu reglur heimsins, hleypum ekki fiskeldi ofan í flesta firði þessa lands nema örfáa, þannig að þetta er mjög strangt hér við land. Þetta slys sem átti sér stað í Neskaupstað var hörmulegt slys og ég harma þá niðurstöðu. Fiskurinn hlaut einhvers staðar að koma upp. Við skulum vona að sem mest af honum hafi drepist eða farið til Færeyja eða eitthvað annað. Ég býst við að hluti af honum sé svona eins og Keiko, ósjálfbjarga í hafinu, en það er önnur saga.

Hvað varðar síðan slátrunina þá höfum við verið að fara yfir þetta slys, hvort þarna vantaði eftirfylgni í reglugerðina og þetta væri öruggur frágangur. Fiskeldsmenn munu ekki slátra með þessum hætti aftur. Þeir munu dæla fiskinum beint á land, segja þeir mér, og ég tel að það þurfi að fylgja því eftir. Lax hefur ekki verið að sleppa út úr kvíunum. Þetta eru mjög öruggar kvíar eins og í Mjóafirði og víðar, hann hefur ekki sloppið úr þeim. Ég hygg að það sé þetta slys sem gerir það núna að hann hefur komið upp þarna í austfirskum ám.

Ég vona að þetta mál fari sem best og að við getum haldið í báðar þessar auðlindir sem eru auðvitað hinar frjálsu laxveiðiár og ég legg mikla áherslu á um leið og ég vil treysta fiskeldi og gera hina ströngustu reglur því til handa til þess að vernda hina hagsmunina. En um þetta þurfum við Íslendingar að ná samstöðu og ég held að það sé allt á góðri leið.