Kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:54:14 (175)

2003-10-06 15:54:14# 130. lþ. 4.96 fundur 56#B kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:54]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Af umræðum í fjölmiðlum að dæma virðist aðbúnaður og kjör starfsmanna Impregilo og undirverktaka þeirra við framkvæmdir við Kárahnjúka ekki uppfylla lágmarkskröfur hér á landi. Við verðum að standa vörð um þessar kröfur og treysta til þess opinberum eftirlitsaðilum og aðilum vinnumarkaðarins. Það er reyndar ekki mjög einfalt.

Hins vegar sýna þessi dæmi þann siðferðilega vanda sem við hinar ríku vestrænu þjóðir búum við og erum í æ ríkari mæli að rekast á. Við gerum kröfu, við segjumst gera kröfu um lágmarksaðbúnað og lágmarkslaun hér á landi en á sama tíma göngum við öll í fötum og skóm sem unnin eru að mestu leyti af verkafólki sem er með miklu lægri laun, jafnvel undir fimm þúsund krónum á mánuði, og býr við vinnuskilyrði og lífsskilyrði sem við getum ekki ímyndað okkur. Þykir það ekki tiltökumál. Það virðist því skipta öllu máli hvar þetta fólk vinnur. Við þekkjum vandamál af þessu tagi, m.a. í fraktflutningum og í flugi til og frá landinu.

Svo er annað. Framganga verkalýðsfélaga og fleiri í að krefjast með réttu lágmarkslauna fyrir þetta fátæka verkafólk getur gert það miklu dýrara en sambærilegt innlent verkafólk vegna m.a. ferðakostnaðar. Það missir því vinnuna, fer heim í atvinnuleysið og draumur fjölskyldna þeirra um fjárhagslega bjarta framtíð er fyrir bí. Því miður höfum við dæmi um það í fortíðinni hér á landi.

Ég hef ekki lausn á þessum vanda en bið menn að athuga hann og hafa hann í huga við að krefjast með réttu lágmarksaðbúnaðar og launa við Kárahnjúka.