Kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 16:02:46 (179)

2003-10-06 16:02:46# 130. lþ. 4.96 fundur 56#B kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka# (umræður utan dagskrár), KÓ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[16:02]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég fagna því að þær framkvæmdir sem við ræddum um í fyrravetur hafi farið af stað. Við nefndarmenn í iðnn., þar sem ég átti sæti, fórum yfir fjölmörg atriði og þætti sem skiptu máli varðandi þessa framkvæmd. Í þeirri umræðu kom ekki mikið fram um kjör erlendra starfsmanna eða þau atriði sem hér er um að ræða.

Við minnumst þess frá virkjanaferli okkar að hingað hafi komið erlendir verktakar, í Búrfell, Sigöldu og fleiri virkjanir. Vitanlega hafa komið upp smá hnökrar þar sem mætast íslenskir starfsmenn, íslenskir kjarasamningar og erlendir starfsmenn sem búið hafa við ólíkar aðstæður, lög, hefðir og menningu. Engan skyldi undra, í jafnstórri og mikilli framkvæmd og ráðist hefur verið í á Austurlandi, að einhverjir hnökrar sem þessir komi upp. Þá þarf að leysa og ég treysti hv. félmrh. og þeim eftirlitsstofnunum sem undir hann heyra fullkomlega til að sjá til að farið verði að lögum hvað þetta mál varðar. Þannig eigum við að vinna málið en ekki blása það upp eins og allt sé að fara fjandans til. Það er aðalatriðið.

Ég vil jafnframt benda á að áðan fóru fram umræður um lágt matarverð. Við höfum leyft að hingað til lands séu flutt bæði blóm, grænmeti og ávextir án tolla til að lækka verð á þeim nauðsynjavörum til neytenda á Íslandi. Mér er fullkunnugt um að fólk sem vinnur að framleiðslu þeirra afurða, landbúnaðarverkafólk sem vinnur að framleiðslunni í Portúgal eða Suður-Spáni, býr við svipuð eða verri kjör en starfsmenn á Kárahnjúkasvæðinu. Það er nokkuð sem við þekkjum.