Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 17:22:47 (195)

2003-10-06 17:22:47# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[17:22]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Frú forseti. Við ræðum hér till. til þál. um breytingu á stjórnarskrá í tilefni af aldarafmæli heimastjórnarinnar en 1. flm. þessarar tillögu er hv. þm. Össur Skarphéðinsson og meðflutningsmenn eru allir hinir 19 hv. þingmenn Samfylkingarinnar.

Eins og komið hefur fram hér í umræðunni er þetta tillaga í einum sex liðum þar sem lagt er til að gera ýmsar breytingar á stjórnarskránni, m.a. að gera tillögur um hvernig tryggja megi í stjórnarskrá sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum. Það er sem sagt lagt til að kjósa níu manna nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að endurskoða stjórnarskrána með þessi atriði í huga. Það er lagt til að gera tillögur um svipaðar breytingar og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert á stjórnarskrám sínum þannig að hægt sé að að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana og hefur Ágúst Ólafur Ágústsson, hv. þm. Samfylkingarinnar, farið mjög ítarlega yfir þann þátt hér í umræðunni og ætla ég ekki að gera hann frekar að umræðuefni, en í máli hans kom einmitt fram að það þyrfti skýra heimild til slíks framsals og því mjög mikilvægt að tekið verði á þessum þætti.

Þriðja atriðið í þáltill. sem lagt er til að verði skoðað er að gera tillögur um að landið verði eitt kjördæmi og það er auðvitað löngu tímabært mál og hefur verið á stefnuskrá okkar jafnaðarmanna lengi. Eftir kjördæmabreytinguna nú fyrir síðustu kosningar held ég að flestir sjái hve mikilvægt er að stíga næsta skref í því að gera landið að einu kjördæmi.

Í fjórða lagi er nefndinni falið að leiða í stjórnarskrá ákvæði um að tiltekinn hluti landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál og einnig að skoða nýtingu nýrrar tækni við þá framkvæmd.

Í fimmta lagi að kanna hvort tímabært er í ljósi þjóðfélagsbreytinga að huga að breytingum á ákvæðum stjórnarskrár um samband ríkis og kirkju.

Og í sjötta lagi að leita annarra leiða til að auka réttindi og áhrif einstaklinga og kjósenda.

Með þessari þáltill. er ítarleg greinargerð sem menn hafa verið að fara yfir hér í umræðunni en það sem mig langar til að gera að umræðuefni er fimmti liðurinn þar sem lagt er til að kanna hvort tímabært er í ljósi þjóðfélagsbreytinga að huga að breytingum á ákvæðum stjórnarskrár um samband ríkis og kirkju. Ég flutti einmitt fyrir tíu þingum síðan, eða á 120. löggjafarþingi árið 1995, þáltill. ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um svipað efni þar sem við leggjum einmitt til að nefnd verði skipuð til þess að endurskoða núverandi kirkjuskipan landsins og endurskoða samband ríkis og kirkju og kanna kosti þess og galla að auka sjálfstæði og ábyrgð kirkjunnar og þá þannig að hún verði skilin frá ríkisrekstrinum.

Þessi tillaga fékk ekki afgreiðslu úr nefnd þegar hún var lögð fram, en öll greinargerðin sem fylgdi þessu máli má segja að sé í fullu gildi í dag. Eins og komið hefur fram í umræðum hér þá er það tillaga okkar að þetta verði skoðað og unnið að þessu í sátt milli ríkis og kirkju. Það hefur komið fram að á undanförnum árum hefur aðskilnaður kirkju og ríkis aukist, ríki og kirkja hafa verið að skiljast að og ríki og kirkja eru ekki lengur óaðskiljanlegur hluti hvors annars og hefur kirkjan og kirkjunnar menn haft frumkvæði að mörgum breytingum í þessa átt. Minni ég þá á ummæli biskups Íslands á kirkjuþingi 2002 þar sem hann sagði að í raun væri aðskilnaður ríkis og kirkju orðinn skilnaður að borði og sæng eins og staðan væri í dag.

Vissulega er þörf á því að skoða þessi mál og fara ítarlega ofan í þau því við þekkjum það að umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju hefur verið mikil, bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar. Ég vil bara minna á að nú í síðasta þjóðarpúlsi Gallups þar sem spurt var um afstöðu Íslendinga, eða þeirra sem spurðir voru, til þess hvort aðskilja ætti ríki og kirkju, þá voru 67% hlynnt aðskilnaði en aðeins 33% landsmanna á móti því að skilið væri algjörlega á milli ríkis og kirkju, þ.e. 2/3 landsmanna eru hlynntir því að aðskilnaði verði komið á.

Farið er ítarlega yfir það hér í greinargerð hvernig þróunin hefur verið í þessum málum öllum og vissulega er það svo að með breytingum á stjórnarskránni fyrst 1874 voru tengsl ríkis og kirkju nánast eins og við búum við í dag og voru formlega staðfest í stjórnarskránni þá, en síðan er í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá 1944 mælt fyrir um það að hin evangelísk-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda. En það er í rauninni ekki farið neitt ítarlega út í það í hverju þessi ákvæði felast um þennan stuðning.

Þar sem ég sé nú að ég hef ekki tíma til að fara ítarlega út í þetta vil ég bara ítreka það hér að ég tel mjög mikilvægt að farið verði í þessa vinnu. Síðan verði metið hvort ástæða sé til þess að skilja endanlega milli kirkju og ríkis, og fullkomlega eðlilegt að þá komi að þeirri vinnu eða verði kallaðir til þeir sem hafa látið sig þessi mál varða eins og samtök um aðskilnað ríkis og kirkju og Siðmennt, sem er áhugahópur um mannrækt og trúfrelsi, þannig að kalla þurfi til þá aðila sem hafa látið sig þessi mál varða.

En ég vil ítreka það að ekki er verið að leggja til að það verði skilið milli ríkis og kirkju, heldur er verið að leggja til að það verði athugað, að farið verði út í gagnaöflun og vinnu sem er löngu tímabært að fara í eins og þingmál okkar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem flutt var hér árið 1995 sýnir.