Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 17:58:48 (201)

2003-10-06 17:58:48# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[17:58]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Með fullri virðingu fyrir Grímsey og þeim vandamálum sem þar eru er ekki málefnalegt að bera það saman við það að eiga hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Ef við bara gefum okkur eitt lítið dæmi, þá hafa allar þjóðir innan Evrópusambandsins neitunarvald þegar kemur að stórum málum og einkum málum sem lúta að þeim sjálfum. Ég vil að það liggi klárlega fyrir. Það hefur Grímsey svo sannarlega ekki. Ég held að það þjóni engum tilgangi að fara með umræðuna ofan í þetta far.

Það sem mér þótti hins vegar merkilegt í máli hv. þingmanns er það að væntanlega hefur EES-samningurinn dregið einhverja línu í huga hv. þingmanns um það hversu langt þjóð eigi að ganga í að afsala sér valdi. Það sé sem sagt eitthvert hæfilegt afsal sem felist í EES-samningnum og ekki eigi að ganga lengra en það. Það má heldur ekki gleyma því að EES-samningurinn er dýnamískur að því leyti að hann tekur yfir ákveðna málaflokka og þar af leiðandi allar þær breytingar sem verða innan þeirra málaflokka. Við höfum á þann hátt gengist undir þann samning. Þetta afsal getur því breyst og hversu víðfeðmt það er innan tiltekinna málaflokka eftir því hvaða reglur eru samþykktar. Mér finnast þessar röksemdafærslur hv. þingmanns ekki halda miklu hvað þetta varðar og ég hvet þingið eindregið til þess að samþykkja þá hugmynd og þá tillögu sem hér liggur fyrir.