Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 14:23:15 (233)

2003-10-07 14:23:15# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[14:23]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst leitt ef ég hef misskilið spurningu þingmannsins en ég hef ekki handbært yfirlit yfir það hvað mikið af þessum fjárveitingarbeiðnum er búið að greiða og hvað ekki. Það er hins vegar þannig að ríkisstjórnin getur tekið ákvarðanir um að greiða kostnað sem til fellur út á þá staðreynd að hún hefur þingmeirihluta á Alþingi og treystir þá á að hún fái greiðsluheimild eftir á. Þetta er alþekkt og við höfum stundum rætt um það í þinginu.

Hins vegar kann það að vera álitamál, og það er nú meira tæknilegs eðlis, hvort tilteknir reikningar sem upp koma eftir á eigi að fara í fjáraukalög, fjárlög eða jafnvel í lokafjárlög, sem er hið endanlega uppgjör allra hluta á þessu sviði.

Síðan út af spurningu sem ég komst ekki til þess að svara áðan frá þingmanninum, þá vildi ég segja það varðandi framkvæmd fjárlaganna og reglugerð um þá framkvæmd, að þar er réttilega, eins og þingmaðurinn sagði, miðað við 4% frávik frá fjárheimildum, áður en gerðar eru alvarlegar athugasemdir við rekstur tiltekinna stofnana. Ég hef nú ekki handbært hversu margir aðilar eiga þar hlut að máli á þessu ári en þó tel ég mig geta fullyrt að þetta ástand hefur farið batnandi, það eru færri ríkisaðilar sem fara fram yfir þessi mörk. En ef það gerist þá felur fjmrn. viðkomandi fagráðuneytum að grípa í taumana og koma alvarlegum athugasemdum á framfæri við viðkomandi stofnun. Þannig er þetta ferli og það má vel vera að það sé hægt að gera betur í þessu efni og ég dreg ekkert í efa að þingmaðurinn hefur góðar hugmyndir í þeim efnum.