Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 15:38:58 (242)

2003-10-07 15:38:58# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., HHj
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn og erfitt að bæta nokkru við það sem mínir ágætu félagar og hv. þingmenn Einar Már Sigurðarson og Jón Gunnarsson hafa rakið um þetta frv. til fjáraukalaga, en það eru þó nokkur orð sem ég vil um það segja. Til að byrja á litlu atriði vil ég taka undir með 8. þm. Norðvest. um þá furðulegu tillögu í frumvarpinu að þar skuli færa til gjalda hjá heilbrrn. kostnað við úrskurð um Norðlingaölduveitu og segja um þann lið um leið, virðulegur forseti, að það er þá ekki að undra að útgjöld okkar til heilbrigðismála mælist há á alþjóðlegum mælikvarða ef útgjöld til heilbrigðismála eru almennt bókaður kostnaður við virkjunarrannsóknir á Íslandi, en hann er orðinn ærinn í seinni tíð, eins og forseti veit.

Í öðru lagi vil ég taka undir með hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni að þegar lesin eru lög nr. 88 frá 1987 og sömuleiðis skýrsla Ríkisendurskoðunar frá apríl 2001, fer það ekkert á milli mála að það sem á að vera í þessu frv. eru ófyrirséðir liðir sem leiða af einhverju því sem menn gátu ekki vitað við gerð fjárlaganna. En það verður að segja um þetta fjáraukalagafrumvarp að flest sem í því er, eða mjög margt a.m.k., hljóta menn að hafa séð fyrir og er í raun og veru algjörlega fyrirsjáanlegt fyrir löngu. Menn vita jafnvel þegar þeir eru að afgreiða fjárlög í desember að þetta muni koma upp og muni koma inn í fjáraukalögin. Það er að vísu engum blöðum um það að fletta að vinnu við fjáraukalög hefur farið mjög fram á umliðnum árum og er full ástæða til þess að hrósa hæstv. fjmrh. og ráðuneyti hans fyrir að hafa unnið að því með þeim hætti að núna sé fjallað um þau á því ári sem við á eins og hefur verið gert um nokkurra ára skeið, og að í ár skuli koma fjáraukalög í tvígang fyrir þingið. Ég held að það sé framför og vert að huga að því að þannig verði það framvegis, að flutt sé frv. til fjáraukalaga bæði á vorþingi og á haustþingi, þannig að þingið fylgist vel með framkvæmd fjárlaganna, því hún skiptir jú gríðarlega miklu máli.

Þegar menn segja að hér séu ekki háar tölur á ferðinni, fer það eftir því hvaða viðmið þeir hafa. Fyrir okkur nýliðana er a.m.k. 5 milljarða útgjaldaauki umfram tekjur, talsvert háar tölur, og við kannski ekki eins vanir að sýsla með háar tölur og ýmsir aðrir hv. þingmenn. Það hlýtur að vera talsvert umhugsunarefni, sérstaklega þegar til þess er horft að fjárlög fyrir þetta ár voru lögð fram sl. haust með 10,7 milljarða kr. afgangi og samþykkt síðan með rúmlega 11 milljarða afgangi. En niðurstaðan, samkvæmt þessu fjáraukalagafrumvarpi er afgangur upp á 6,2 milljarða. Það er 5 milljarða munur á því sem afgreitt er hér og því sem verður og þegar fjmrh. hefur mælt fyrir frumvarpi þar sem afgangurinn er aðeins 6,4 milljarðar vekur það spurningar um það, ef skekkja af þessu tagi er regla en ekki undantekning, hvort í því frv. sem hér hefur verið lagt fyrir þingið sé gætt þess aðhalds sem þörf er á á þeim þenslutímum sem í hönd fara, og hvort nokkur von sé til þess að sá afgangur sem þar er gert ráð fyrir muni nokkurn tímann skila sér.

Þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað virðist mér, virðulegur forseti, að ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að svo verði og mun ég koma að því eilítið síðar. Áður en ég geri það vil ég gera að umfjöllunarefni helsta frávik sem er að finna í forsenduspám fyrir árið. Það er það frávik sem verður á spám um þróun atvinnuleysis og hefur áhrif til útgjaldaaukningar í frumvarpinu.

Það er þannig að spáin sem lögð var til grundvallar gerði ráð fyrir 2,5% atvinnuleysi, en reyndin er 3,3% atvinnuleysi, þ.e. frávik upp á liðlega þriðjung frá áætlun til veruleikans. Ekki einasta er um þetta frávik að ræða, heldur er það líka svo að þegar spáin er gerð er ekki gert ráð fyrir stærstu framkvæmdum Íslandssögunnar eins og þær eru gjarnan kallaðar í þessum sal. Þegar þessi spá er gerð um 2,5% atvinnuleysi, var ekki gert ráð fyrir jafnmikilli einkaneyslu og raunin varð, það var ekki gert ráð fyrir jafnmikilli fjárfestingu og raunin varð og það var ekki gert ráð fyrir jafnmiklum ríkisútgjöldum og raunin varð. Mér finnst þess vegna full ástæða til þess að það verði skoðað alveg sérstaklega hvað það er sem veldur því að þrátt fyrir meiri fjárfestingu og þrátt fyrir meiri neyslu, verður atvinnuleysi umtalsvert meira en menn töldu að verða mundi.

[15:45]

Hvaða framleiðniaukning er að verða hér í atvinnulífinu sem leiðir til þessa? Vegna þess að þó að 0,8% skekkja í þessu, virðulegur forseti, sé auðvitað lítið í prósentum talið þá er 0,8% í atvinnuleysi nokkuð sem snertir mjög margt fólk. Ég held að það skipti máli að hæstv. fjmrh. og ráðuneyti hans skoði alveg sérstaklega hvað valdi þessu mikla fráviki.

En aftur að fjáraukalagafrumvarpinu sem er með ýmsum liðum sem virðast heldur vera regla en undantekning, t.d. vandinn í heilbrigðismálunum, skorturinn á fjárveitingum til hátæknisjúkrahúsa sem alltaf kemur upp á hverju hausti og landsmenn þekkja orðið því eins og lóan boðar vorið þá er það vandinn í heilbrigðismálunum sem boðar haustið.

Þegar maður skoðar hvaða liðir það eru sem ætlunin er að spara á í fjárlagafrumvarpi næsta árs þá er það alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Vinnan við það fjárlagafrumvarp virðist að mörgu leyti byggja á þessu fjáraukalagafrumvarpi. Þar eru framreiknaðar ýmsar tölur, tekjurnar framreiknaðar miðað við spár um mikla kaupmáttaraukningu. En ýmsir útgjaldaliðir eru hins vegar aðeins framreiknaðir miðað við verðlagsþróun og þannig er tryggð, a.m.k. á pappírnum, sæmileg afkoma á ríkissjóði. Síðan er gripið til nokkurra sparnaðarráðstafana og þær virðist hafa verið nokkuð auðvelt að finna. Það hefur bara verið farið í fjáraukalagafrumvarpið og skoðað hvar við fórum fram úr í ár og þar er skorið niður á fjárlögum næsta árs. Já, við fórum fram úr í atvinnuleysistryggingunum. Þá skerum við niður þar. Við fórum fram úr í lyfjakostnaði og hjálpartækjum í ár og þá hljótum við að skera niður þar á næsta ári. Síðan fórum við sömuleiðis fram úr í vaxtabótunum og við hljótum þá líka að skera niður þar á næsta ári. Flóknari virðast nú vinnubrögðin við fjárlagagerðina ekki vera, skýringarnar á breytingunum sem þar eru gerðar eða vinnan sem að baki sparnaðinum liggur.

Manni segir svo hugur um að að ári muni þessi sömu vandamál skjóta aftur upp kollinum í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2004 vegna þess að í þeirri fjárlagavinnu sem hér er unnin liggur ekki að baki útfærð vinna við sparnaðinn heldur eru bara framúrkeyrsluliðir ársins í ár teknir og sparað á þeim á komandi ári. Svo virðist sem það hafi nú ekki alltaf gengið og sannarlega langt í frá. Ég hygg að það sé ekki í fyrsta sinn nú að það eigi að spara í lyfjakostnaði, og ég hygg að það hafi sjaldnast gengið eftir, eða að það eigi að spara á hátæknisjúkrahúsunum, enda segir mér svo hugur um að fjárveitingar sem gert er ráð fyrir til þeirra í því fjárlagafrumvarpi sem lagt hefur verið fram fyrir árið 2004 séu ekki nægar og við munum enn sjá þann lið í fjáraukalagafrumvarpi fyrir næsta ár því í þessari vinnu er greinilega ekki tekið á vandanum.

Þó að hér sé aðeins um að ræða frávik upp á 5 milljarða frá framlögðu frv. fyrir árið 2003 til niðurstöðunnar verða menn að hafa í huga að samkvæmt því mikla bjartsýnisfrumvarpi sem lagt hefur verið fram fyrir næsta ár er sjóðstreymi ríkissjóðs aðeins jákvætt um 2 milljarða. Það er aðeins jákvætt um 2 milljarða. Ef ekki er vandað meira til þess en svo að við fáum aftur inn að ári fjáraukalagafrumvarp þar sem útgjöldin aukast um 5 milljarða þá er sjóðstreymi ríkissjóðs neikvætt á þeim tíma í efnahagssögu okkar þegar mest þörf hefur verið fyrir, virðulegur forseti, að aðhalds sé gætt í fjármálum ríkisins.