Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 17:30:13 (255)

2003-10-07 17:30:13# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[17:30]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara nota tækifærið strax og biðja þingmanninn velvirðingar á því ef ég hef borið hann röngum sökum, ef hann er nú bara í okkar liði þegar öllu er á botninn hvolft hvað varðar einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Ég bið hann bara innilega afsökunar á því. Þá hef ég misskilið allt sem hann hefur sagt í þingsölum, frá árinu 1995 þegar hann tók hér sæti fyrst, hvað þessi mál varðar. Ég vil hins vegar segja að sjálfsagt er að eiga hér málefnalegar viðræður um þessi mál og það höfum við reyndar oft gert þó ég, eins og ég sagði áðan, treysti mér illa til þess að fá hann til að skipta um skoðun í þessum málum. En það sem ég leyfði mér að gera athugasemd við áðan og var tilefni ræðu þingmannsins var að ég gerði athugasemd við það þegar hv. þm. Jón Bjarnason talaði um að menn hefðu verið að sölsa undir sig eignir þjóðarinnar í gegnum þau viðskipti sem átt hafa sér stað með ríkisbankana eða önnur ríkisfyrirtæki sem seld hafa verið. Ég geri bara athugasemd við það, hv. þm., og ég geri enn ríkari athugasemd við það þegar því er haldið fram að við ráðherrarnir í ríkisstjórninni höfum verið að hjálpa fólki til þess að komast yfir eignir almennings með óeðlilegum hætti. Þetta er ómálefnalegur málflutningur, hv. þm., og við þetta leyfi ég mér að gera athugasemdir. Þetta er auðvitað fjarri öllu lagi. Hér er um að ræða fyrirtæki sem voru auglýst og síðan var gengið til samninga í kjölfarið á því. Þannig er þetta mál í pottinn búið, hv. þm., eins og þingmaðurinn auðvitað veit.