Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 17:31:58 (256)

2003-10-07 17:31:58# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[17:31]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta gerist svolítið skondin umræða. Voru ríkisbankarnir, kjölfestuhlutirnir í þeim, auglýstir? Var ekki verið að semja um það hverjir skyldu fá þessa hluti í sínar hendur? Ég gerði athugasemd við þetta áðan og furða mig á því að bankarnir hefðu ekki einmitt verið settir á markað fyrst ákvörðun var tekin um að selja þá.

Það er rétt en ekki rangt að sterkir fjármálaaðilar á Íslandi eru að sölsa undir sig eignir þjóðarinnar með dyggri aðstoð þessarar ríkisstjórnar og það er ósiðlegt hvernig hún hefur farið fram í þessu efni. Ég nefni bankana og ég nefndi SR-mjöl sem einhvern tímann á eftir að skrifa lærðar doktorsritgerðir um til að rekja þá spillingu og sukk sem tengdist því máli. Hæstv. ráðherra getur ekki vikið sér undan þessu.

Nei, ég er ekki í hópi skoðanabræðra hæstv. ráðherra. Ég vil ekki einkavæða eignir þjóðarinnar. Ég vísaði til þess sem ég vildi halda í almenningseign og nefndi að það væri raforkugeirinn, það væru vatnsveiturnar sem ríkisstjórnin áformaði í vor að yrði heimilt að setja á markað. Fyrir lá frv. um það í þinginu. Og við vitum til hvers hugur Sjálfstfl. stendur innan heilbrigðiskerfisins. Sá flokkur vill helst koma þar sem flestu á markað.