Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 19:20:18 (271)

2003-10-07 19:20:18# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[19:20]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Hæstv. ráðherra gerði áðan lítið úr áhrifum þungaskatts á vöruverð á landsbyggðinni að því er mér fannst. Ég er honum algjörlega ósammála. Það eru ekki bara neysluvörur sem hækka við þetta heldur bera framleiðslufyrirtækin þunga bagga út af þessum þungaskatti.

Mér finnst tímabært að Sjálfstfl., að ég tali ekki um Framsfl., fari að efna þau kosningaloforð sem þeir veifuðu fyrir kosningar en því er ekki að heilsa. Mér finnst í raun ósvífni að koma hérna eftir kosningar og svíkja bókstaflega allt gagnvart landsbyggðinni sem búið er að lofa.

Skiptir það ekki máli að kílómetrinn kosti 40 kr. sinnum 500 til Ísafjarðar með vöruflutningabíl? Þetta skiptir máli. Ég tala nú ekki um áhrif þessa á fiskvinnslu sem kaupir fisk á mörkuðum. Þetta eru stærðir sem mér finnst ósvífni að gera lítið úr.

Með þessu er verið að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni. Mér finnst kominn tími til að menn horfi á þá alvarlegu stöðu sem uppi er á landsbyggðinni, bretti upp ermar og láti verkin tala, ekki bara skömmu fyrir kosningar heldur líka þegar þeir hafa fengið umboð til að framkvæma það sem lofuðu. Mér finnst þetta ósvífni.

Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum, ekki bara núna í dag, með hækkanir á þungaskatti eftir að menn hafa talað um að það eigi að koma til móts við framleiðslufyrirtæki á landsbyggðinni.

Það er búið að svíkja fólk um línuívilnun sem sjálfur forsrh. á blankskóm í sparifötum gekk á milli beitningaskúra og lofaði. Svo koma menn hérna og segja bara: Allt í plati.

Hvað með Héðinsfjarðargöngin, hvað varð um þau? Það misskildu allir Geir á fundi á Siglufirði, nánast hver einn og einasti Siglfirðingur. (Gripið fram í.) Maður á eiginlega ekki orð yfir þetta.

Auðvitað skiptir þetta máli. Menn verða að horfast í augu við það sem þeir eru að gera. Upp koma vandamál og menn halda bara áfram eins og ekkert hafi í skorist. Hvað er að gerast á Seyðisfirði, Bíldudal, jafnvel á Hofsósi og víðar? Menn verða að fara að gera eitthvað.

Ég ætla að láta máli mínu lokið að þessu sinni og vona að ríkisstjórnin fari nú að rétta hlut landsbyggðar. Mér finnst kominn tími til þess.