Hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:47:35 (312)

2003-10-08 14:47:35# 130. lþ. 7.3 fundur 72. mál: #A hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:47]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. s. spyr hvað sé fram undan í uppbyggingu hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu, hversu mörg hjúkrunarrúm bætist við á þessu ári og því næsta og hver verði raunfjölgun þegar þau verða komin í gagnið.

Á árinu 2002 var tekin ákvörðun um að breyta húsnæði Vífilsstaða í Garðabæ í hjúkrunarheimili með 69 hjúkrunarrýmum sem taka átti í notkun um mitt árið 2003. Fljótlega kom í ljós að Hóllinn sem er hluti af húsnæði Vífilsstaða hentaði ekki til rekstrar fyrir hjúkrunarrými. Rekstrarheimildir fyrir 19 rými voru þá flutt til annarra hjúkrunarheimila. Þar af fékk Holtsbúð í Garðabæ heimild fyrir 12 hjúkrunarrými, Hrafnista í Reykjavík fékk heimild fyrir 3 rými, Hrafnista í Hafnarfirði fékk 2 og Skógarbær í Reykjavík fékk 2. Öll þessi rými voru tekin í notkun á árinu 2003.

Framkvæmdir og breytingar á húsnæði Vífilsstaða hafa hins vegar tekið lengri tíma en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir þar sem ástand hússins reyndist verra en gert var ráð fyrir þegar endurbætur hófust. Nú er gert ráð fyrir að húsnæði Vífilsstaða verði tilbúið til notkunar í ársbyrjun 2004 og verða þá 50 hjúkrunarrými til viðbótar tekin í notkun. Auk framkvæmda við Vífilsstaði standa yfir nýbyggingar á hjúkrunarrýmum á þremur stöðum og verða hjúkrunarrýmin tekin í notkun í árslok 2003 og á árinu 2004.

Hjúkrunarheimilið Eir í Reykjavík er að byggja húsnæði fyrir 40 ný hjúkrunarrými sem væntanlega verða tekin í notkun í árslok 2003. Þar verður auk þess aðstaða fyrir 20 dagvistarrými. Hér erum við því að tala um 110 ný pláss.

Við Roðasali í Kópavogi er verið að byggja húsnæði sem á að hýsa hjúkrunarrými fyrir 8 heilabilaða vistmenn og verða þau tekin í notkun á árinu 2004. Auk þess verður þar aðstaða fyrir 20 dagvistarrými.

Við Hrafnistu í Reykjavík er verið að byggja 60 ný hjúkrunarrými sem á að taka í notkun um mitt árið 2004. Á móti verður dvalarrýmum fækkað smám saman.

Á árinu 2003 fjölgar því hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu um 59 og um 118 á árinu 2004. Hér er um hreina viðbót að ræða.

Hv. þm. spyr einnig hve mikið hjúkrunarrýmum fjölgaði á liðnu kjörtímabili. Svarið er: 185 hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu.

Að lokum spyr hv. þm. hversu margir bíði nú eftir hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu. Á vistunarskrá í september sl. bíða 463 aldraðir eftir vist á hjúkrunarrými. Þar af eru 390 aldraðir í mjög brýnni þörf, 26 eru í brýnni þörf og 47 í þörf fyrir hjúkrunarvist.

Í þessu sambandi er bæði rétt og skylt að taka fram og ítreka að fyrir utan uppbyggingu á stofnunum er það forgangsverkefni heilbrigðisáætlunar, eins og fyrirspyrjandi kom reyndar inn á, að stuðla að því að sem flestir aldraðir geti með viðeigandi stuðningi búið á heimilum utan stofnana. Er í þessu sambandi gert ráð fyrir að þrír af hverjum fjórum sem eldri eru en 80 ára eigi þess kost að búa annars staðar en á öldrunarstofnun. Hitt breytir ekki málinu að það er nauðsynlegt að vinna bug á skorti á hjúkrunarrýmum í samræmi við þau markmið sem sett eru fram í heilbrigðisáætlun eins og fyrirspyrjandi kom hér réttilega inn á.