Endurskoðun atvinnuleysisbóta

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 16:02:34 (348)

2003-10-08 16:02:34# 130. lþ. 7.7 fundur 65. mál: #A endurskoðun atvinnuleysisbóta# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[16:02]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það eru orð að sönnu að það voru ákaflega dapurleg svör sem hæstv. félmrh. veitti hér. Það er náttúrlega einstaklega snautlegt fyrir hæstv. félmrh. að vera með flokkssamþykkt flokksþings framsóknarmanna frá því í febrúar sl., rétt fyrir kosningar, á bakinu þar sem er ályktað um að atvinnuleysisbætur skuli hækka upp að lægstu launum sem eru 93 þús. kr. En það örlar ekki á efndum. Framsóknarflokkurinn er búinn að fara með þessi mál í átta ár. Hann er að leggja inn á sitt þriðja kjörtímabil með félagsmálaráðuneytið í höndunum og þetta er frammistaðan. Þetta verður eitt af hinum eftirminnilegu afrekum Framsóknar til viðbótar því að leggja niður félagslega húsnæðislánakerfið og annað í þeim dúr.

Hvað er verið að gera? Það á að krukka í atvinnuleysisbæturnar. Hæstv. félmrh. lætur hafa sig í það að koma inn í Alþingi með tillögur um að skerða atvinnuleysisbætur, krukka í kerfið til þess að ná út 170 millj. Þetta er sama ríkisstjórnin og leggur til að lækka skatt á hátekjufólk. Hún telur atvinnulausa aflögufæra, t.d. atvinnulaust fiskverkafólk sem nú á að fara að senda heim upp á gamla móðinn aftur og aftur þegar hráefni skortir. Hefur hæstv. félmrh. kynnt sér að þríhliða samkomulag aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnar í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð var á sínum tíma forsenda fastráðningar fiskverkafólks? Vilja menn hverfa aftur til þeirra daga þegar þetta fólk var algerlega réttlaust? Því var hent heim dögum oftar á atvinnuleysisbætur.

Ef þetta gengur eftir þá verður þetta ekki bara þannig að fólkið missir atvinnuleysisbætur eða öllu heldur laun fyrstu þrjá dagana. Næstu 57 dagar verða líka með kjaraskerðingu því það fær þá atvinnuleysisbætur en ekki fastlaunatryggingu eins og það hefur í dag með þessari þátttöku Atvinnuleysistryggingasjóðs sem greiðir ígildi atvinnuleysisbóta inn í kerfið. Það er verið að rústa þessu kerfi og það er alveg sérstaklega (Forseti hringir.) afdrifaríkt og alvarlegt í ljósi þess ástands sem við blasir í fiskvinnslu núna víða um land. Ég skora því á hæstv. félmrh. að vera maður til að taka þessa hluti til endurskoðunar.