Staða hinna minni sjávarbyggða

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 15:18:12 (451)

2003-10-13 15:18:12# 130. lþ. 9.95 fundur 80#B staða hinna minni sjávarbyggða# (umræður utan dagskrár), iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Við framkvæmd byggðastefnu ríkisstjórnarinnar 2002--2005 er með margvíslegum hætti unnið að verkefnum sem eru til þess fallin að styrkja hagsmuni sjávarbyggða sem og landsbyggðarinnar allrar. Einstök ráðuneyti bera ábyrgð á framkvæmd málaflokka sinna en iðnrn. hefur stuðlað að framgangi ýmissa verkefna byggðaáætlunarinnar í samvinnu við önnur ráðuneyti. Iðnrn. og menntmrn. vinna sameiginlega að verkefnum til eflingar menntun og menningu á landsbyggðinni og verkefni til eflingar háskólanámi og símenntun á Vestfjörðum. Annað verkefni lýtur að starfsmenntun. Þá má nefna þróunarverkefni í grunnskólum í dreifðum byggðum á Vestfjörðum, Vesturbyggð og Tálknafirði.

Í byggðaáætluninni er ferðaþjónustu sérstaklega getið í tengslum við sóknarfæri í atvinnumálum landsbyggðarinnar. Í samvinnu við samgrn. er unnið að uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu. Nú er unnið að sex verkefnum sem öll eru til þess fallin að skjóta nýjum stoðum undir atvinnulífið. Meðal þessara verkefna má nefna hlunnindabúskap á sunnanverðum Vestfjörðum og verkefni við veiðar og vinnslu sjávarfangs við Djúp.

Í atvinnumálum er m.a. unnið að verkefni um uppbyggingu fyrirtækjaklasa á Ísafirði og byggðarlögunum umhverfis. Tilgangur verkefnisins er að ná betri árangri í framleiðslu og sölu með því að tengja saman fyrirtæki í skyldum rekstri. Talið er að verulegs ávinnings sé að vænta ef unnt verður að koma á fót fyrirtækjaklasa í matvælaframleiðslu er tengist sjávarútvegi annars vegar og fyrirtækjaklasa í iðnaði sem starfar í tengslum við sjávarútveg hins vegar. Þetta verkefni er á lokastigi undirbúnings og er m.a. unnið í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Byggðastofnun.

Í skýrslunni Fólk og fyrirtæki: Um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni, sem Byggðarannsóknastofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands unnu fyrir iðnrn. fyrr á þessu ári, kemur m.a. fram að samgöngubætur eigi að nýtast til að stækka atvinnu- og þróunarsvæði helstu þéttbýlissvæðanna og þar með að styrkja stöðu þeirra. Í skýrslunni er gerð tillaga um að samgöngukerfið á Íslandi verði byggt upp á þann hátt að samgöngur frá jaðarsvæðum að miðstöð hvers byggðakjarna verði auðveldaðar með það í huga að fólk geti sótt vinnu innan svæðisins. Þær tillögur sem settar eru fram í skýrslunni eru verðugt innlegg í áframhaldandi umræðu um samgöngumál á landsbyggðinni.

Atvinnuþróunarfélögin hafa gegnt mikilvægu hlutverki og munu gera það áfram. Framlög til þeirra voru óbreytt í krónutölu frá 1998--2002 en á þessu ári voru framlög til þeirra hækkuð nokkuð. Í febrúar voru undirritaðir nýir samningar við atvinnuþróunarfélögin en þau höfðu verið án samninga um tíma. Auk þessa hefur verið lögð áhersla á að styrkja starfsemi atvinnuþróunarfélaganna með því að tengja þau betur við aðra þætti stoðkerfis atvinnulífsins.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að leitast verði við að nýta tekjur af veiðigjaldi til uppbyggingar sjávarbyggða. Þegar að því kemur mun iðnrn. koma með tillögur um meðferð og úthlutun þessara fjármuna til atvinnu- og nýsköpunar í sjávarbyggðum. Að undanförnu hefur verið erfitt að afla fjár til nýrra viðskiptahugmynda á frumstigi nýsköpunar í atvinnulífi. Til að örva sérstaklega nýsköpun á landsbyggðinni var í vor ákveðið að veita 700 millj. kr. til nýsköpunarverkefna á landsbyggðinni. Stærsti hluti þessarar fjárveitingar á að fara til kaupa á hlutafé í álitlegum nýsköpunarfyrirtækjum. Einnig mun Byggðastofnun hafa frumkvæði að rekstri sérstakra verkefna til að styrkja grunngerð nýsköpunar úti á landi, m.a. í samvinnu við atvinnuþróunarfélögin.

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hafa ýmsar skýrslur verið skrifaðar um áhrif tilfærslu aflaheimilda á milli byggðarlaga. Árið 2000 vann Þjóðhagsstofnun greinargerð um stjórnkerfi fiskveiða og byggðaþróun fyrir nefnd um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Niðurstaða þeirrar greinargerðar var að áhrif tilfærslu aflaheimilda væru almennt ofmetin. Byggðastofnun vinnur nú að endurskoðun skýrslu sinnar um þetta efni frá árinu 2001.