Íþróttamiðstöð Íslands að Laugarvatni

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:28:19 (596)

2003-10-15 14:28:19# 130. lþ. 11.5 fundur 120. mál: #A Íþróttamiðstöð Íslands að Laugarvatni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:28]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Af því að hér var getið um Vetrar\-íþróttamiðstöðina á Akureyri er rétt að geta þess að það mál á sér aðdraganda alveg aftur til ársins 1992. Þegar því máli var siglt í höfn var það í þeim farvegi að sveitarfélagið þar ber hita og þunga af öllum rekstri mannvirkjanna í Vetrar\-íþróttamiðstöðinni og 2/3 af stofnkostnaði en ríkið kemur inn með 1/3 af stofnkostnaði.

Í upphaflegum hugmyndum um Íþróttamiðstöð Íslands að Laugarvatni var ekki talað um aðkomu sveitarfélaganna að þessu og það mál er enn þá í umfjöllun. Þess ber þó að geta, og það er mikils virði, að sveitarfélögin hafa tekið jákvætt í að koma að því máli. Það er mjög mikils virði í þessari umræðu. En það mál var ekki í þeim farvegi þegar sá sem hér stendur tók við málinu.

Síðan er rétt að geta þess alveg sérstaklega að það hefur bara ekki verið fallist á að það væri skynsamleg tilhögun að taka gamla héraðsskólahúsið inn í þessar hugmyndir um uppbyggingu Íþróttamiðstöðvarinnar. Það breytir engu um að það þarf að finna því ágæta og merkilega húsi verðugt hlutverk. Það er verið að ræða það, m.a. við sveitarstjórnina núna, hvaða hugmyndir hún geri sér um það að nýta húsnæðið.

Upphaflegu hugmyndirnar um að fella héraðsskólahúsið að uppbyggingu Íþróttamiðstöðvar Íslands að Laugarvatni voru fólgnar í því að gera verulega kostnaðarsamar breytingar á þessu húsi. Það ber líka að hafa það í huga að ef menn vilja varðveita þetta hús sem næst í þeirri mynd sem það var ber líka að finna því viðfangsefni og hlutverk sem stendur ekki í vegi fyrir því að menn geti varðveitt húsið. Það eru einmitt einhverjar slíkar hugmyndir sem við erum að leita eftir að fá frá sveitarstjórninni og ég er ekki í nokkrum vafa um að slíkar hugmyndir finnist og að húsinu verði fundið verðugt verkefni.