Niðurstaða ráðherranefndar um fátækt

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:58:38 (612)

2003-10-15 14:58:38# 130. lþ. 11.6 fundur 78. mál: #A niðurstaða ráðherranefndar um fátækt# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:58]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Frú forseti. Ég vil taka undir það með síðasta ræðumanni að orð hæstv. félmrh. voru hálfrýr, þegar hann kemur hér og greinir þinginu frá hver staðan er eftir að ríkisstjórnin hefur sérstaklega verið með þetta mál í skoðun í hartnær ár. Hæstv. ráðherra boðar þó að skýrsla sé á leiðinni og komi um miðjan nóvembermánuð og í henni séu tillögur til úrbóta. Ég fer fram á það að ráðherrann hæstv. sjái til þess að sú skýrsla komi þegar í stað til þings og við getum fengið tækifæri til að ræða hana og þær tillögur sem hæstv. ráðherra mun þá setja fram til úrbóta.

Það er nefnilega svo, herra forseti, að góð orð bæta ekki kjör fátækra eða færa þeim mat á borðin ef ekki fylgja efndir þeim loforðum og góðu orðum sem hæstv. ráðherrann vissulega viðhafði hér. Það á auðvitað að gefa hæstv. nýjum félmrh. tækifæri til að sýna hvað hann vill gera í þessum efnum. En hæstv. ráðherra byrjar svo sannarlega ekki vel þegar fyrsta verk hans í stóli ráðherra er frv. sem hann flytur hér inn í þingið um að skerða kjör atvinnulausra, þeirra sem verst hafa það í þjóðfélaginu. Þeirra sem ríkisstjórnin hefur helst ráðist á á síðasta kjörtímabili. Það vekur ekki miklar vonir um það að hæstv. ráðherrann ætli að standa í ístaðinu þegar fátækir eru annars vegar.

Hæstv. ráðherra nefndi ekki að hann hefði kynnt sér tillögur ASÍ. Ég spyr hann um það: Hefur hann kynnt sér þær tillögur? Er hann sammála því að það þurfi að hækka atvinnuleysisbæturnar upp í 93 þúsund? Er hann sammála því sem þar kemur fram að það þurfi að hækka lægstu samsettu bætur lífeyrisþega upp í 110 þús. kr.? Er hann sammála því að það þurfi að lækka vextina á félagslegu leiguíbúðunum niður í 1% úr 3,5%? Þetta eru allt tillögur sem ASÍ setur fram og ég spyr hæstv. ráðherra um það.