Kostnaður sveitarfélaga vegna atvinnuleysis

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:19:07 (620)

2003-10-15 15:19:07# 130. lþ. 11.8 fundur 113. mál: #A kostnaður sveitarfélaga vegna atvinnuleysis# fsp. (til munnl.) frá félmrh., HHj
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og því að vekja athygli á brýnu málefni og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir að lýsa vilja til þess að ráðast í úttekt á kostnaði sveitarfélaganna vegna þessa. Eins og kom fram í máli hans er skýr fylgni milli atvinnuleysis annars vegar og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga hins vegar og það á auðvitað líka að vera okkur umhugsunarefni.

Á tvennu vil ég sérstaklega vekja athygli í þessu sambandi. Það er annars vegar að nú eru uppi sparnaðaráform í fjárlagafrv. næsta árs sem fela það í sér að menn fá ekki bætur fyrstu þrjá dagana. Það er tiltölulega lítil glóra í sparnaði í opinberum útgjöldum ef sá sparnaður felur það bara í sér að kostnaðinum er velt af einu stjórnsýslustigi á annað vegna þess að þá er ekkert að sparast í opinberum útgjöldum heldur er þetta bara pappírleikur á blaði.

Hitt er fjárhæð atvinnuleysisbótanna og hana höfum við rætt áður í dag, vegna þess að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er eðli málsins samkvæmt neyðaraðstoð. Hún á að vera skammtímaaðstoð. Hún á að koma til í mjög skamman tíma og einvörðungu í neyð. (Forseti hringir.) En ef atvinnulausu fólki er í fimm ár búin svo lág framfærsla að það þurfi sífellt að leita fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga þá er það óeðlilegt og óviðunandi fyrirkomulag og félmrh. á að taka atvinnuleysisbætur til endurskoðunar strax.