Kostnaður sveitarfélaga vegna atvinnuleysis

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:20:46 (621)

2003-10-15 15:20:46# 130. lþ. 11.8 fundur 113. mál: #A kostnaður sveitarfélaga vegna atvinnuleysis# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og sérstaklega það að hann tekur undir nauðsyn þess að skoða þessa þætti.

Fjárhagsstaða mjög margra sveitarfélaga er bágborin. Orðið hafa gífurlegar breytingar á atvinnuháttum. Samdráttur hefur verið í landbúnaði og sjávarútvegi í hinum dreifðu byggðum landsins. Það hefur þýtt að tekjutap sveitarfélaga margra hverra er mjög mikið. Auk þess eykst atvinnuleysi. Ég veit ekki til þess að nokkurs staðar hafi það verið tekið inn í útreikninga um fjárhagsþörf sveitarfélaga að þau bera verulegar byrðar vegna atvinnuleysis. Þar á ég ekki bara við atvinnuskapandi aðgerðir heldur ekki síður félagslega aðstoð. Það er, eins og hæstv. ráðherra sagði, skýr fylgni þar á milli.

Í máli hæstv. ráðherra hefur komið fram að hann er tilbúinn til að láta skoða lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð og skoða þær bætur sem greiddar eru. Með svona lágum greiðslum atvinnuleysisbóta er verið að velta ákveðnum vanda yfir á sveitarfélögin og menn ýta þessum vanda yfir á sveitarfélögin með galopin augun. En ef fara á í endurskoðun laga um Atvinnuleysistryggingasjóð í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins þá er ekki síður nauðsynlegt að Samtök íslenskra sveitarfélaga komi þar að verki og þá liggi fyrir vitneskja um það hvernig staða þeirra er gagnvart því mikla atvinnuleysi sem hefur verið á undanförnum árum og reyndar er spáð töluverðu atvinnuleysi áfram á næsta ári. Það skiptir mjög miklu máli að þetta sé tekið með þegar fjárhagsstaða sveitarfélaga og möguleikar sveitarfélaga til þess að framfylgja þeim lögum sem þau eiga að framfylgja er skoðuð. Það er mjög nauðsynlegt.