Talnagetraunir

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 11:12:26 (654)

2003-10-16 11:12:26# 130. lþ. 12.10 fundur 141. mál: #A talnagetraunir# (framlenging rekstrarleyfis) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[11:12]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt frv. til laga um breyting á lögum um talnagetraunir, nr. 26 2. maí 1986. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að breyta heiti Íþróttasambands Íslands í Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, sem er í samræmi við breytingar á heiti þessa sambands. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að þeim aðilum sem þarna er um að ræða verði heimilað að reka þessa starfsemi til 1. janúar árið 2009.

Með lögum nr. 26 2. maí 1986, var Íþróttasambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands veitt leyfi til þess að starfrækja saman, í nafni félags sem samtökin mundu stofna, talna- eða bókstafagetraunir. Starfsemin er rekin í nafni félagsins Íslensk getspá. Heimildin var veitt til tæplega 20 ára og gildir til ársloka 2005.

Ágóða af getraunastarfseminni skal varið til eflingar íþrótta- og ungmennastarfi í landinu og til að greiða stofnkostnað við íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja eða til að standa undir annarri starfsemi Öryrkjabandalagsins í þágu öryrkja. Reksturinn hefur haft mikla fjárhagslega þýðingu fyrir eigendurna.

Með frumvarpi þessu er lagt til að heimild dómsmálaráðherra til að veita félaginu leyfi til að reka getraunastarfsemi verði framlengd til 1. janúar 2019. Brýnt er að frumvarpið nái fram að ganga nú þar sem endurnýja þarf tækjabúnað og því nauðsynlegt að framtíðarhorfur félagsins séu skýrar þegar gengið verður til samninga um það.

Jafnframt er rétt að benda á að hugsanlega getur þurft að stytta leyfistímann ef breyta þarf skipan happdrættismála hér á landi, svo sem ef alþjóðlegar reglur kalla á slíkar breytingar.

Herra forseti. Ég legg til að þessu frv. verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umræðu.