Framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 11:59:37 (663)

2003-10-16 11:59:37# 130. lþ. 12.13 fundur 15. mál: #A framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna# þál., ISG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[11:59]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar er sannarlega ekki smátt í sniðum. Það felur í sér áætlun um að ná fram launajafnrétti kynjanna sem er sannarlega ekki einfalt mál. Að vinna að launajafnrétti kynjanna er í sjálfu sér flókið og vandasamt verk. Það blandast líklega engum hugur um það. Ég hef sjálf kynnst því á átta árum hjá Reykjavíkurborg að það er ekki einfalt mál að vinna bug á því launamisrétti sem er á milli karla og kvenna.

Það er ýmislegt sem þarf til þess að ná árangri á því sviði. Það þarf í fyrsta lagi margháttaðar aðgerðir á mörgum sviðum. Það þarf tæki til þess að vinna með, það þarf skýran pólitískan vilja og ábyrgð og það þarf staðfestu og einurð. Ef þetta er allt saman til staðar þá er sannarlega hægt að ná árangri. Og eins og hér var vitnað til, þá gerðist það hjá Reykjavíkurborg að launamunur kynjanna minnkaði um helming eða frá því að vera 15,5% árið 1995 niður í það að vera 7% árið 2001. Enn þá er launamunurinn til staðar og enn þá er hann of mikill en það hefur saxast á hann, og ég held að ég geti fullyrt að það hefur saxast meira á hann heldur en í annan tíma. Þessum árangri náði Reykjavíkurborg með margháttuðum aðgerðum. Það sem er hins vegar vert að hafa í huga þegar um þessi mál er fjallað, og það eru eiginlega mín ráð til ríkisstjórnarinnar þegar hún fer að vinna með þessi mál því ég efast ekkert um að þar er viljinn til staðar, hann er a.m.k. til staðar í orði kveðnu og ég geri ráð fyrir því að menn ætli að leita einhverra leiða til þess að gera þetta að veruleika, en það eru mín ráð að menn skoði ekki síst miðlægar aðgerðir og þá einkum kjarasamninga og eins greiðslur fyrir yfirvinnu og önnur fríðindi á vinnustöðum.

Það hefur sýnt sig hjá Reykjavíkurborg að þann árangur sem náðst hefur má að miklu leyti rekja til miðlægra aðgerða og þá einkum kjarasamninga. Hins vegar virðist minni árangur nást um þau kjaraatriði sem ákveðin eru á vinnustöðunum. Að því leytinu til hafa staðbundnir vinnustaðasamningar ekki skilað þeim árangri sem margir hafa samt bundið vonir við og mikilvægt að reynt sé að vinna að þessum málum með verkalýðshreyfingunni í gegnum miðlæga kjarasamninga. Það er hægt að gera með ýmsum hætti. Það er hægt að gera það með launapottum, með starfsmati, með því að gefa ákveðnum hópum forgang á tilteknum tíma o.s.frv. Þannig að ýmislegt er hægt að gera til þess að ná þessum árangri og ég gæti út af fyrir sig farið yfir þær fjölmörgu aðgerðir sem Reykjavíkurborg hefur gripið til en til þess gefst ekki tími hér, virðulegi forseti.

En fyrst og síðast verður að vera einurð og skýr pólitískur vilji og ábyrgð í þessu máli. Sú ábyrgð hvílir að vissu leyti á félmrh. en getur þó aldrei alfarið hvílt á hans herðum. Það vakti reyndar athygli mína þegar ég fór að lesa lögin um Stjórnarráðið og reglugerð um Stjórnarráð Íslands að þar er hvergi kveðið á um það að jafnréttismálin heyri undir félmrh. Það er einvörðungu í jafnréttislögunum sjálfum en það kemur hvergi fram í reglugerð um Stjórnarráðið.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er erfitt fyrir félmrh. að segja öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni fyrir verkum og það er erfitt fyrir félmrh. að hafa verkstjórnarvald yfir öðrum ráðherrum og til dæmis að taka forsrh. eða fjmrh. Ég held að þetta hljóti öllum að vera ljóst. Þess vegna held ég að til þess að hin skýra pólitíska ábyrgð sé til staðar þá eigi að færa samþættingu jafnréttissjónarmiða að allri stefnumótun og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar til forsrn. og það sé forsrh., sem samræmingaraðili í ríkisstjórninni, sem eigi að bera ábyrgð á því að ríkisstjórnin öll sé að vinna í samræmi við þær samþykktir og ályktanir sem gerðar hafa verið á Alþingi og eins af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Búið er að álykta hér aftur og aftur um jafnréttismál og ég minni á að það eru 45 ár síðan Ísland skuldbatt sig á alþjóðavettvangi til að koma á launajafnrétti kynjanna og það eru 27 ár síðan jafnréttislög voru sett og samt förum við hænufet í jafnréttismálum. Ég held að einhver hafi reiknað það út hvað það tæki okkur langan tíma að ná fullu jafnrétti ef svo héldi fram sem horfir og ég held að það hafi ekki verið talið í áratugum heldur öldum hversu langan tíma það tæki.

Það hefur verið ályktað um að samþætta jafnréttissjónarmiðin allri stefnumótun og ákvörðunum. Það var fyrst gert 1998 í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum sem var samþykkt hér á Alþingi. Í endurskoðaðri framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar 2002--2004 var þetta markmið líka áréttað, að það skuli samþætta þetta öllu daglegu starfi allra ráðuneyta og svo er þetta ítrekað aftur og aftur.

Gerð var skýrsla um það nýverið hvernig til hefði tekist í þessu efni. Í þeirri skýrslu kemur fram, virðulegur forseti, að ekki hefur mikið gerst. Þetta var nefnd sem ríkisstjórnin skipaði í nóvember 2000 og hún átti að hafa það verkefni að kanna hvort og með hvaða hætti opinber stefnumótun tæki mið af jafnrétti kynja og hún segir, með leyfi forseta, nefndin:

,,Vinna við opinbera stefnumótun tekur í auknum mæli mið af jafnrétti kynjanna en þó er hægt að sjá dæmi þess að ekki er alltaf nægilega hugað að jafnréttissjónarmiðum við opinbera stefnumótun og stundum alls ekki.``

Þegar síðan farið er í gegnum þessa skýrslu kemur auðvitað í ljós að þessi mál eru alls ekki í nógu góðu horfi. Aðeins þriðjungur ráðuneyta og ríkisstofnana hefur gert sínar jafnréttisáætlanir. Þriðjungur segist vera að vinna að því og þriðjungur hefur ekkert gert í þessum málum. Þegar skoðaður er hlutur kvenna í stjórnunarstöðum kemur í ljós að hlutfallið er 18,7%, og þegar talað er um launamun kynja sjáum við auðvitað ekkert um það vegna þess að fjmrh. hefur ekki staðið við loforð sem hann gaf 1997 um að fylgjast með því hvernig kjarasamningar kæmu við konur og karla.

Virðulegur forseti. Hægt væri að halda hér langar ræður og tala langt mál um þetta efni en ég vil bara ítreka að það þarf skýran pólitískan vilja og það þarf ábyrgð. Þess vegna hyggst ég leggja fram frv. sem felur forsrh. ábyrgð á því að samþætta þessi sjónarmið allri stefnumótun og öllum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar og ég reikna með að það komi fram á hinu háa Alþingi á morgun.