Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 15:12:28 (702)

2003-10-16 15:12:28# 130. lþ. 13.2 fundur 20. mál: #A kosningar til Alþingis# þál., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Sigurjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Þessi þáltill. snýst um lýðræðið og er einföld í sjálfu sér: einn maður --- eitt atkvæði. Við í Frjálslynda flokknum berum mikla virðingu fyrir lýðræðinu og teljum að framganga þessa máls muni tryggja lýðræðið í landinu. Ég er sannfærður um að það muni vera til mikilla hagsbóta að gera landið að einu kjördæmi, ekki síst fyrir landsbyggðina sem og alla þjóðina. Eins og framsögumaður rakti, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, mun það leiða til að allir þingmenn beri jafna ábyrgð gagnvart landsbyggðinni, hvar sem þeir búa á landinu. Enginn þingmaður gæti því vísað frá sér vandamálum á landsbyggðinni á þeim forsendum að þau séu einhver einkamál viðkomandi þingmanna í því kjördæmi. Á síðasta kjörtímabili sáum við oft að þegar komu upp vandamál t.d. á Vestfjörðum var oft litið á að það væri eingöngu þingmenn í því kjördæmi sem ættu að leysa þau mál og þau væru nánast óviðkomandi hinum 58.

Vandamál helstu atvinnuvega landsbyggðarinnar, m.a. sjávarútvegsins, voru að mestu tilkomin vegna lamandi stjórnvaldsaðgerða. Þannig að það má öllum vera ljóst að það skiptir máli að allir þingmenn séu vel upplýstir um þennan vanda sem var tilkominn vegna stjórnvaldsaðgerða.

Ég er sannfærður um að það hefði verið til mikilla bóta fyrir hinar dreifðu byggðir ef allir þingmenn fyndu til jafnrar ábyrgðar gagnvart landsbyggðinni, og því að fólk væri svipt lífsafkomunni og að réttur til vinnu væri gerður að söluvöru.

Ég er algerlega andvígur þeirri nálgun sem stundum hefur verið farin í þessu máli að ein af aðalástæðunum fyrir því að við ættum að gera landið að einu kjördæmi væri til þess að koma í veg fyrir kjördæmapot. Allar framkvæmdir á landsbyggðinni hafa oft á tíðum verið tíundaðar sem eitthvert landsbyggðarpot og kjördæmapot, hvort sem það eru framkvæmdir vegna vegagerða, jafnvel heilsugæslu, skóla, atvinnuþróunarverkefna, alltaf eru einhverjir tilbúnir að hrópa upp að hér sé eitthvert kjördæmapot á ferðinni.

Ég er sannfærður um að ef landið væri eitt kjördæmi væri meiri skilningur á mikilvægi þess að byggja og nýta allt landið. Það er reyndar mjög óskynsamlegt að hætta að nýta staðbundin fiskimið hringinn í kringum landið. Ég efast reyndar um að landsmenn geri sér almennt grein fyrir mikilvægi smárra staða eins og t.d. Bakkafjarðar þar sem búa einungis um 140 manns. En árið 2001 voru unnin 2.400 tonn af þorski þar. Ekki er ólíklegt að það gefi heilar 600 milljónir í útflutningstekjur. Aflinn fæst af miðum sem er staðbundinn þorskur og ef byggð legðist af á Bakkafirði væri óvíst að landsmenn nytu þessara náttúruauðæfa.

Virðulegi forseti. Við verðum að standa vörð um lýðræðið og vera vakandi yfir öllu sem stofnar lýðræðinu í hættu. Misvægi atkvæða skiptir verulega máli. Annað atriði, sem skiptir ekki síður máli, og verður að taka á, er fjármál stjórnmálaflokkanna. Það má telja með ólíkindum að stjórnmálaflokkar sem telja sig vera lýðræðisflokka skuli vilja leyna bókhaldi sínu. En það býður, eins og allir sjá, upp á spillingu. Ekki er ólíklegt að kvótaflokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., hafi fengið digrar summur frá kvótaeigendum sem vilja viðhalda óréttlátu kvótakerfi sem kemur landsbyggðinni mjög illa.

Ég tel að ef við ætlum að bæta lýðræði í þessu landi, og einhver meining er á bak við það, verði að opna bókhald stjórnmálaflokkanna sem og að gera landið að einu kjördæmi. En það að gera landið að einu kjördæmi tryggir einnig atkvæðarétt þegnanna. Þá getur ekki talist eðlilegt að atkvæði sumra kjósenda, eins og staðan er nú, vegi helmingi meira en annarra sem búa í þéttbýli.

Eins og ég hef sagt er lýðræðið best tryggt með því að hver maður hafi eitt atkvæði.