Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 15:34:26 (706)

2003-10-16 15:34:26# 130. lþ. 13.2 fundur 20. mál: #A kosningar til Alþingis# þál., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur fengið hér nokkra umfjöllun og nú liggur náttúrlega ljóst fyrir að þingmenn Samf. taka undir það enda hefur, eins og komið hefur fram í máli þeirra hv. þm., það verið eitt af stefnumálum Samf. og reyndar kannski Alþýðuflokksins þar á undan að rétt væri að huga að því að gera landið að einu kjördæmi.

Ég held að síðustu breytingar sem urðu á kjördæmaskipan hér, þær sem við kusum eftir á sl. vori, hafi örugglega sannfært marga um að við ættum að stíga þetta skref til fulls og gera landið að einu kjördæmi. Ég held að mjög margir líti svo á að kjördæmaskipanin sem við höfum núna sé millistig sem ekki muni vara lengi og menn muni fara fljótlega í að gera landið að einu kjördæmi.

Við í Frjálsl. höfum myndað okkur skoðun á þessu máli og hún birtist í þessari þáltill. Við höfum reyndar flutt þetta mál áður í hv. Alþingi. Við teljum að úr því sem komið er eigi menn að fara alla leið og gera landið að einu kjördæmi. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur áðan að það er þó nokkurt verk að sinna hinum stóru landsbyggðarkjördæmum. Þó að menn hafi mjög gaman af mannlegum samskiptum, og sá sem hér stendur hefur það, og telji ekki eftir sér ferðalög er samt mikið verk að ferðast um hin nýju stóru kjördæmi. Ég hygg að þingmenn annarra landshluta eins og Norðaust. og Suðurk. hafi einnig orðið þess áskynja að það er mikil vinna í þessum ferðalögum eins og þau þurfa að vera ef menn vilja halda því sem þeir gerðu áður, að hafa sérstök samskipti við kjósendur í kjördæmum sínum.

Ef menn mundu breyta landinu í eitt kjördæmi yrðu flokkarnir auðvitað að reyna að skipta á milli sín með einhverju lagi samskiptum þingmanna við kjósendur sína. Það mundi dæmast á flokkana að útfæra það og reyna að sinna kjósendunum. Ég hygg að það séu orðin það mikil rök fyrir þessari breytingu sem við leggjum til í þáltill. að það verði að skoða hana í fullri alvöru.

Ef menn fara að skoða kosningar til Alþingis og kjördæmaskipan þarf auðvitað að velta ýmsu upp og hv. þm. Pétur Blöndal vék áðan að ákveðnum annmörkum sem gætu fylgt þessum breytingum. Hann nefndi m.a. hugmynd sem við höfum iðulega bent á í Frjálsl., hvort samhliða því að gera landið að einu kjördæmi væri ekki eðlilegt að taka upp tvenns konar kosningar, þ.e. kosið af landslista annars vegar og flokkslista hins vegar. Annars vegar væri kosinn ákveðinn fjöldi nafna og hins vegar væri flokkslisti. Það er auðvitað hægt að hugsa sér að útfæra það þannig. Við höfum m.a. áður bent á það í Frjálsl. þegar við höfum flutt þetta mál hér í rökræðu að það væri fyllilega þess virði að skoða þannig uppsetningu að helmingur þingmanna væri kosinn persónukosningu af einum lista, þ.e. hver flokkur byggi til sinn nafnalista. Ef við værum að tala um 63 þingmenn væru t.d. 32 á öðrum listanum og 31 þingmaður á hinum listanum og kjósendur gætu þá valið. Ef það væri nafnamerking á öðrum listanum gætu þeir valið einhverja 32 þingmenn, svo dæmi sé tekið, án þess að þeir væru allir úr sama flokki. Þar mundu menn merkja við nöfn og gætu þar af leiðandi verið með fyrir framan sig nafnalista þar sem þeir merktu við þann fjölda nafna úr ýmsum flokkum sem þeir teldu hæfasta til að komast inn á þing og að hinu leytinu til væri krossað við flokkslistann sem viðkomandi flokkur raðaði upp á. Þar mundu menn bara merkja við einn listabókstaf.

Þetta er leið sem ég held að menn eigi að skoða vandlega ef farið verður í að skoða kjördæmaskipanina. Ég treysti því auðvitað að þegar menn setjast yfir svona mál verði það gert af fyllstu samviskusemi og að öllum möguleikum verði velt upp. Hitt er alveg ljóst að eins og þáltill. er orðuð, þó að stutt sé, segir alveg ákveðið um verksviðið, nefndin ,,skal hafa að markmiði að jafna atkvæðisrétt landsmanna þar sem landið verði allt eitt kjördæmi``. Það er náttúrlega alveg skýrt og þar af leiðandi hygg ég að vangaveltur hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hérna áðan um það að menn hefðu á fyrri stigum, þegar verið var að láta þingmenn fjalla um framtíðarskipulag kjördæmanna, verið að láta reikna sig inn og út eftir hinum og þessum aðferðum séu óþarfar. Ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig það mundi gerast þegar landið yrði orðið eitt kjördæmi. Þegar einn maður er eitt atkvæði held ég að það sé alveg skýrt. Það yrði a.m.k. að benda mér á það hvaða aðferð menn mundu nota til þess að láta reikna sig inn og út, ég átta mig ekki alveg á því. Ég tel það m.a. einn af kostum þess að gera landið að einu kjördæmi að það eru ekki þessar vangaveltur um það. Ég hygg t.d. að þegar menn voru að skoða kjördæmaskipanina sem nú gildir hafi þeir einmitt verið í þeim kúnstum að skoða stærð kjördæmanna, velta fyrir sér fjölda manna í þeim, uppbótarmönnum o.s.frv. ásamt því að velta fyrir sér hvernig menn kæmu út úr þessari breytingu.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék að því hvers vegna við teldum að forsrh. ætti að skipa fulltrúa allra þingflokka í svona nefnd en ekki þingið sjálft. Ég get svo sem ekki sagt að fyrir því liggi nein sérstök veigamikil rök, þingið gæti vissulega klárað þetta mál, en það er nú einu sinni svoleiðis að forsrh. ræður ansi miklu í þessu landi og er auðvitað ráðandi núna fyrir þessari ríkisstjórn. Við töldum það svo sem ekkert verra þó að forsrh. væri falið að skipa fulltrúa allra þingflokka í nefndina enda, eins og ég sagði áðan, hefur nefndin mjög skýrt veganesti. Hún skal hafa það að markmiði að jafna atkvæðisrétt landsmanna og að landið verði allt eitt kjördæmi. Undan þeim meginsjónarmiðum yrði varla vikist þegar nefndin færi að starfa.

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi ekki mikið meira að segja um þetta mál. Ég tel að umræðan hér í hv. þingi í dag um þessa þáltill. okkar í Frjálsl. um að gera landið allt að einu kjördæmi hafi verið málefnaleg og ég þakka hana. Svo vona ég að málið fái góða og efnislega umfjöllun í nefnd og að lokaniðurstaðan verði sú að við efnum til þess að setja af stað starf til að skoða hvernig við gerum landið að einu kjördæmi.