Tannvernd barna og unglinga

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 16:20:20 (711)

2003-10-16 16:20:20# 130. lþ. 13.5 fundur 25. mál: #A tannvernd barna og unglinga# þál., Flm. ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Flm. (Þuríður Backman) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég hef ekki fengið reiknað út hvað þetta mundi kosta fyrir Tryggingastofnun ríkisins eða ríkissjóð. Það er ljóst að fyrir meira en 20 árum fékkst full endurgreiðsla fyrir tannviðgerðir barna. Ég dreg í efa að það hafi verið misnotað á einhvern hátt. En það skilaði sér sannarlega í betri tannheilsu. Það virðist samasemmerki milli þess þegar dregur úr þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins við endurgreiðslu og þess að tannskemmdum fjölgar og hvernig börn hafa skilað sér til tannlæknis.

Ætlunin er að fara í stóra könnun á tannheilsu barnanna en í fljótu bragði sýnist mér ekki þurfa mikla skoðun til að sjá fylgni þarna á milli. Við höfðum efni á þessu áður fyrr. Við stærum okkur af því að þjóðin sé að verða ríkari, efnahagurinn betri og ríkissjóður styrkur. Ég tel að við eigum að láta börnin ganga fyrir og að þetta sé eitt af mörgum málum sem við eigum að taka til alvarlegrar endurskoðunar og ekki láta fara á verri veg.