Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 12:07:00 (746)

2003-10-17 12:07:00# 130. lþ. 14.9 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[12:07]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka undir að það sé mikilvægt að farið verði í þessa vinnu. Ég tók það líka fram í máli mínu að ég gerði mér grein fyrir því að þetta kostar peninga og er spurning um peninga. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að töluvert mikið af þeirri óeiningu sem hefur verið um mat á umhverfisáhrifum megi rekja til þess að það vantar mælikvarðana. Við erum að deila um atriði sem væri hægt að hafa skýrari ef við hefðum þessa mælikvarða og grunngögn til staðar. Ég vísa þar til reynslu í öðrum löndum.

Í sjálfu sér deilum við hæstv. umhvrh. ekki um nauðsyn þess að slík gögn eigi að vera til, hvað sem gagnaskorturinn hefur annars í för með sér. Hæstv. umhvrh. nefndi það að miklir fjármunir hefðu verið settir í verkið. Ég rak m.a. augun í það í fjárlögum fyrir þetta ár að þar er lagt til að tímabundið framlag sem var ætlað til þessara verkefna upp á 3,5 millj. kr. komi ekki inn aftur núna. Ég held að það hefði verið æskilegt, herra forseti, ef þessum lið hefði verið haldið inni. Þetta var reyndar tímabundið á sínum tíma, átti að gilda til ársins 2001. Með því að veita þótt ekki sé mjög stórum fjárhæðum árlega í þessa vinnu erum við a.m.k. að þokast í rétta átt. Ég er að kalla eftir því, herra forseti, að fá yfirlýsingu frá hæstv. umhvrh. um það að vilji sé fyrir því að halda þessari vinnu hægt og bítandi áfram. Ég geri mér fulla grein fyrir því að kannski er ekki hægt að gera það á örfáum árum, en að það sé a.m.k. skilningur af hálfu umhvrn. hvað það varðar að í þessa vinnu sé ráðist þannig að við þokumst í rétta átt. Ég held að við deilum í sjálfu sér ekki um mikilvægi þess að gera þetta og að sú aðferðafræði hafi reynst ágætlega sem þarna er lögð til.

Það er kannski það sem ég kalla fyrst og síðast eftir frá hæstv. umhvrh., skilningi á mikilvægi verkefnisins.