Tónlistarnám á framhaldsskólastigi

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:01:51 (768)

2003-10-17 14:01:51# 130. lþ. 14.95 fundur 95#B tónlistarnám á framhaldsskólastigi# (umræður utan dagskrár), ISG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:01]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegur forseti. Hér er verið að hreyfa mjög mikilvægu máli sem brýnt er að einhver úrlausn fáist í hið allra fyrsta. Í rauninni er það fyrir neðan allar hellur að ekki skuli fyrir löngu vera komin niðurstaða í þessa verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga hvað varðar tónlistarkennslu á framhaldsskólastigi því þetta mál á sér í rauninni mjög langan aðdraganda. Það er ekki svo, eins og kom fram í máli hæstv. menntmrh., að þetta mál hafi byrjað síðasta vor. Þetta mál á sér miklu lengri aðdraganda. Það nær í rauninni allt aftur til ársins 1985 þegar núgildandi lög voru sett vegna þess að þá voru uppi áform um það í þeim verkaskiptalögum sem þá voru samþykkt að ríkið mundi fara í það að endurskoða kostnað vegna tónlistarfræðslu á framhaldsskólastigi, sem síðan var ekki gert. 1998 var haft samband við ríkið, menntmrn. og þáv. menntmrh. og hann beðinn að ganga í þetta mál og taka upp þessi verkaskipti. Skipuð var nefnd í málinu og hún skilaði engum niðurstöðum. Síðan var farið með málið í aðra nefnd í ágúst 2001 og sú nefnd var þeirrar skoðunar að það ætti að vera skýr verkaskipting og ríkið ætti að fara með tónlistarkennslu á framhaldsskólastigi. En mér skilst að fjmrn. hafi bannað nefndinni að skila þeirri niðurstöðu af sér. Þannig að það kom aldrei til framkvæmda.

Mér skilst að búið sé að skipa þriðju nefndina núna til þess að fjalla um þetta mál og hún eigi að skila af sér fyrir áramót. Og það má ekki seinna vera, hæstv. forseti, vegna þess að um næstkomandi áramót hafa sveitarfélögin í landinu sagt að þau ætli að hætta að greiða fyrir þá nemendur á framhaldsskólastigi sem nú sækja þessa skóla í Reykjavík. Reykjavíkurborg greiðir ekki með þeim lengur. Þetta eru um 300 nemendur. Það eru 40 millj. kr. á ári sem Reykjavíkurborg yrði að axla ef hún kostaði þessa nemendur úr öðrum sveitarfélögum til náms og það mun Reykjavíkurborg ekki gera vegna þess að þá fjármuni þarf að setja í menntun á grunnskólastigi í tónlist.